Það eru áfram auknar líkur á eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni. Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi en þar hafa um 20 milljónir rúmmetra af kviku safnast fyrir frá síðasta eldgosi í júlí. Hættumat helst þó óbreytt til 3. febrúar nema breytingar verði á virkninni. Veðurstofa Íslands greindi frá þessu í morgun og Síðdegisútvarpið ræddi við Kristínu Jónsdóttur sem er deildarstjóri eldvirkni, jarðskjálfta og jarðhniks á Veðurstofunni. Kristínu hefur nefnilega á síðustu árum tekist að útskýra vel fyrir okkur hinum atburðarrásina í iðrum jarðar á þann hátt að við skiljum.
Það er þjóðarsorg á Spáni vegna lestarslyss sem þar varð í fyrrakvöld en 40 hið minnsta dóu og tugir slösuðust. Jóhann Hlíðar Harðarsson, fréttaritari okkar á Spáni hefur fylgst með fréttum af þessu hræðilega slysi og fer yfir það helsta sem þó er vitað um það. Jóhann Hlíðar leitaði líka út fyrir spænska landsteina og sagði frá austurrískri belju sem talin er sú gáfaðasta í heimi.
Þegar Aron Palomares, læknir á bráðamóttöku Landspítalans kom á vaktina klukkan 8 í morgun voru tólf manneskjur á biðstofunni að bíða eftir að komast að hjá lækni eftir að hafa dottið í hálku og slasast. Það var enda svakaleg hálka á göngustígum á höfuðborgarsvæðinu í morgun og fram eftir degi. Um miðjan dag höfðu sjötíu leitað á bráðamóttökuna eftir að hafa slasast í hálkunni. Aron ræddi við Síðdegisútvarpið þegar vaktinni hans á spítalanum var að ljúka.
Óli Þór Árnason, veðurfræðingur leit við hjá okkur og fór yfir það hvers konar aðstæður skapa slíka hálku og hvort búast megi við hálku á næstu dögum.
Það var gríðarlegt álag á Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðinsins í nóvember, desember og nú í byrjun árs. Ástæðan var fyrst og fremst flensa sem hrjáði fjölda Höfuðborgarbúa en ástandið hefur skánað, pestin er í rénun og Ingibjörg Rós Kjartansdóttir, fagstjóri hjúkrunar á Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins fóryfir stöðuna í Síðdegisútvarpinu. Ingibjörg Rós fylgist grannt með öllum tölfræðilegum upplýsingar um til að mynda komur á heilsugæsluna og símtöl í vaktsímann 1700.
„Kveðum niður Ungverjagrýluna“ eru ummæli sem við lesum á miðlum í dag og þar er ekki verið að vísa í einhverja eiginlega grýlu eins og við þekkjum hana heldur vitaskuld ungverska karlalandsliðið í handbolta sem strákarnir okkar heyja einvígi við núna í kvöld.Við höfum mætt þessari grýlu síðustu árin og upplifað sár töp en nú er mál að linni, eða hvað? Við spáðum í viðureign dagsins með Helgu Margréti Höskuldsdóttur af Íþróttadeildinni sem fer fyrir frábæru teymi í Stofunni hér, fyrir og eftir leiki og við lesum í væntingar okkar og vonir.