Síðdegisútvarpið
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.
Nýjar leiðbeiningar samtaka barnalækna í Bandaríkjunum hafa verið gefnar út þar sem vikið er frá fyrri stefnu um að sjá hvort börn vaxi upp úr offitu vanda og þess í stað er hvatt til róttækra aðgerða strax til að sporna við offitu barna. Tryggvi Helgason barnalæknir og sérfræðingur í offitu barna kemur til okkar í þáttinn til að fara yfir þessa stefnubreytingu sem er að eiga sér stað í Ameríku og Evrópu og hvers vegna er hún að eiga sér stað nú.
Jákvæð sálfræði verður viðfangsefni fermingarfræðslu Þjóðkirkjunnar næstu árin. Þær Yrja Kristinsdóttir og Marit Davíðsdóttir , sem standa á bak við dagbókina Gleðiskrudduna, gengu til liðs við Þjóðkirkjuna og tóku að sér það verkefni að kynna fermingarbörn fyrir viðfangsefnum á borð við núvitund og sjálfsvinsemd. Yrja og Marit ætla að koma til okkar á eftir og segja okkur frá hugmyndfræðinni á bakvið Gleðiskrudduna, og við ætlum að spyrja þær út í það hvernig þær fari að því að fræða fermingarbörn um núvitund og sjálfsvinsemd. Með þeim kemur Sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir sókarprestur í Langholtskirkju sem upphaflega hafði samband við þær og óskaði eftir því að Gleðiskruddan yrði með fræðslu fyrir fermingarárgangana í kirkjunni.
Gígja Hólmgeirsdóttir verður hjá okkur að vanda, en að þessu sinni að austan. Hún mun segja okkur frá nýrri kaffibrennslu sem er staðsett á Stöðvarfirði.
Klukkan hálftvö í dag var tilkynnt um tilnefningar til Óskarsverðlauna árið 2023. Verðlaunin verða afhent í nítugasta og fimmta sinn mánudaginn 13.mars og þá má gera ráð fyrir að margir Íslendingar verði límdir við skjáinn því íslenski teiknarinn og leikstjórinn Sara Gunnarsdóttir er tilnefnd í flokki teiknaðra stuttmyndaseríuna My year of dicks. Hildur Guðnadóttir tónskáld og Heba Þórisdóttir förðunarfræðingur voru ekki tilnefndar að þessu sinni, en báðar höfðu þær verið stuttlistaðar. Við heyrum í Samúel Lúkasi kvikmyndaspekúlanti sem spjallar við okkur um tilnefningarnar og hvað kemur mest og minnst á óvart í ár.
Hvað er myndlæsi ? Hvernig þjálfum við það ? Listasafn Íslands hefur gefið út fræðsluefni þar sem lögð er áhersla á þjálfun í myndlæsi. Fræðsluefnið er hluti af stærra verkefni sem ber nafnið Sjónarafl, en fræðsludeild safnsins hefur unnið að verkefninu undanfarin ár og er þessi útgáfa afraksturinn af þeirri vinnu.
Sjónarafl miðar með markvissum hætti að því að tengja kennslu í myndlæsi og listasögu við skólakerfið og auka þekkingu nemenda á menningarsögu og menningararfi þjóðarinnar.
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.