Víða um heim er kallað eftir nýju upphafi. Það eigi að nýta kórónuveirufaraldurinn til að gera breytingar á hagkerfum og samfélögum. Hvað þýðir það? Og er raunhæft að heimsbyggðin öll taki sig saman til að skapa betri og réttlátari heim? Tómas Njáll Möller, formaður Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, kom á Morgunvaktina til að ræða þessi mál.
Arabíska vorið var til umfjöllunar í spjalli okkar og Boga Ágústssonar um erlend málefni . Tíu ár eru síðan mikil mótmæli brutust út í Egyptalandi og leiddu til falls Mubaraks forseta. Mótmælin breiddust svo út um nágrannaríkin en hvað - ef eitthvað - breyttist? Við töluðum líka um skosk málefni. Sjálfstæðismál Skota eru komin á dagskrá á ný og haggis ku vera enskt en ekki skoskt.
Jóhannes Eðvaldsson knattspyrnumaður lést um síðustu helgi, sjötugur að aldri. Margs er að minnast frá ferli hans; hann var þriðji íslenski leikmaðurinn sem varð atvinnumaður í fótbolta, í tvígang varð hann skoskur meistari og þeir 10.373 áhorfendur sem voru á leik Íslands og Austur-Þýskalands á Laugardalsvelli sumarið 1975 og sáu hann skora með hjólhestaspyrnu - ja, þeir höfðu ekki séð annað eins. Við fjölluðum um þennan frábæra fótboltamann á Morgunvaktinni í dag, Víðir Sigurðsson, blaðamaður, rifjaði upp brot úr farsælum ferli Jóhannesar Eðvaldssonar.
Tónlist:
If she wants me - Belle and Sebastian
Enter the Haggis - One more drink
I saved the world today - Eurythmics