Morgunvaktin
Björn Þór Sigbjörnsson, Þórunn Elísabet Bogadóttir og Vera Illugadóttir fylgja hlustendum inn í daginn, skýra baksvið frétta og ræða við áhugavert fólk um Ísland og umheiminn.
Unnið er að því að draga úr áhrifum verðtryggingar í samfélaginu. Meðal aðgerða sem ríkisstjórnin og fulltrúar launafólks og atvinnurekenda sammæltust um í lífskjarasamningnum var að banna verðtryggð lán til 40 ára, með undantekningum þó. Frumvarp þar um er til meðferðar á Alþingi. Þórður Snær Júlíusson fjallaði um það upp úr klukkan hálf átta. Hann fór líka yfir fram komin sjónarmið er varða bankasöluna og nýja skýrslu um vanskil við lánastofnanir, í vikulegu spjalli um efnahag og samfélag.
Í Berlínarspjalli dagsins ræddi Arthúr Björgvin Bollason meðal annars um stöðu faraldursins í Þýskalandi, þar sem sóttvarnarreglur hafa verið hertar undanfarna daga. Þegar litið er á kort yfir útbreiðslu veirunnar kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós, meðal annars að fjöldi smita er áberandi meiri þar sem hægriflokkurinn AfD nýtur vinsælda.
Ein af mörgum hliðarverkunum Brexit, útgöngu Breta út Evrópusambandinu, er að þeir hætta þátttöku í Erasmus-menntaáætluninni, sem margir Íslendingar þekkja. Ísland tekur þátt í Erasmus í gegnum EES samninginn og samstarfið hefur gert fjölda Íslendinga kleift að fara í nám til annarra Evrópuríkja. En hvert er umfangið og hver er ávinningurinn? Hvers vegna syrgja margir Bretar þátttökuna í samstarfinu? Rúna Vigdís Guðmarsdóttir forstöðukona landsáætlunar Erasmus, fór yfir þessi mál.
Tónlist:
Je t'appartiens - Gilbert Bécú
Let it be me - Everly brothers
Björn Þór Sigbjörnsson, Þórunn Elísabet Bogadóttir og Vera Illugadóttir fylgja hlustendum inn í daginn, skýra baksvið frétta og ræða við áhugavert fólk um Ísland og umheiminn.