Platan JÚDAS No: 1, með hljómsveitinni Júdas, kom út í desember 1975.
Júdas var upphaflega stofnuð í Keflavík 1968 af Magnús Kjartanssyni hljómborðsleikara, Finnboga bróður hans bassaleikara, Ólafi Júlíussyni trommuleikara og Vigni Bergmann gítarleikara, en síðar gekk Ingvi Steinn Sigtryggsson söngvari til liðs við sveitina um tíma og Hrólfur Gunnarsson leysti Ólaf fljótlega af sem trommuleikari.
Magnús lagði Júdas niður og gekk til liðs við ofurhljómsveitina Trúbrot 1970, og lék menn henni á plötunum Undir áhrifum, sem kom út 1971, .... Lifun, sem kom út 1972, og Mandala, sem kom út 1972, en Trúbrot hætti svo störfum vorið 1973.
Magnús var þó ekki af baki dottin og tók upp sólóplötu, Clockworking Cosmic Spirits, í Lundúnum og fékk þá Hrólf, Finnboga og Vigni í verkið með sér, en einnig má nefa að þær Linda Thompson og Sandy Denny sungu bakraddir á plötunni. Að upptökum loknum var Júdas endurreist, en lék nú talsvert frábrugðna tónlist frá fyrri tíð.
Upphafleg gerð hljómsveitarinnar spilaði bítlarokk, sem kalla má svo, í anda þeirrar tónlistar sem hæst bar undir lok sjöunda áratugar síðustu aldar, en við upptökur á sólóskífunni í Lundúnum hafði Magnús fallið fyrir bandarískri soul-tónlist og endurreist Júdas spilaði aðallega soulskotið fönkað rokk.
Júdas varð fljótt vinsæl og spilaði töluvert árið 1973, spilaði til að mynda mikið í klúbbum í herstöðinni á Miðnesheiði og var líka dugleg að spila á böllum og með íslenskum og erlendum tónlistarmönnum.
Júdas hitaði upp fyrir breska tónlistarmanninn John Miles þegar hann kom hingað til lands með hljómsveit sinni 1973 og 1974 og lag Magnúsar To Be Grateful var á b-hlið smáskífu John Miles sem kom út 1974.
Júdas hitaði einnig upp fyrir skosku hljómsveitina Nazareth sem hélt tónleika í Laugardalshöll 1973 og þótti bera af, ef marga má umsagnir um tónleikana í fjölmiðlum. Þannig fannst Eðvarð Sverrissyni frammistaða Júdasar eini ljósi punkturinn í öllu saman, enda hefðu verið hrein unun að hlýða á sveitina.
Gunnar Salvarsson skrifaði um tónleika Júdasar á vetrarfagnaði í Tónabæ, þar sem léku Pelican, Júdas, Eik og Roof Tops, og var mjög ánægður með Júdas: „Allur leikur Júdasar var yfirvegaður og nákvæmur, enda bar hún af á þessu kvöldi. Ég tel, að það sem Júdas er að gera, sé vafalaust eitthvað það merkasta, sem islenzk popphljómsveit er að gera um þessar mundir.“
Pelican naut mikillar hylli fyrir plötuna Uppteknir sem kom út 1974, og var valin vinsælasta hjómsveit ársins í kosningu vikublaðsins Vikunnar í febrúar 1975, en Júdas deildi öðru sætinu með Hljómum. Magnús Kjartansson var vinsælasti píanó- og orgelleikari ársins í sömu kosningu. Í vinsældakosningunni árið 1974 varð Júdas í fimmta sæti sem bjartasta vonin.
Árið 1975 var plötuútgáfa venju fremur blómleg á Íslandi, en hafði reyndar aukist jafnt og þétt undanfarin ár.
Þannig kom til að mynda út vinsæl plata Olgu Guðrúnar Árnadóttur, Eniga Meniga, fyrsta sólóplata Gunnars Þórðarsonar, samnefnd honum, sem var með enskum textum, fyrsta plata Spilverks þjóðanna, sem hét einmitt Spilverk þjóðanna, en er yfirleitt kölluð brúna platan, Sumar Á Sýrlandi, fyrsta Stuðmannaplatan, sem varð geysivinsæl, Bætiflákar Þokkabótar, Lítil fluga Pelican, sem var önnur plata hljómsveitarinnar og einnig fyrsta plata Gylfa Ægissonar svo dæmi séu tekin. Einnig komu út tvær Ðe Lónlí Blú Bojs plötur, Stuð stuð stuð og Hinn gullni meðalvegur, og svo harmonikkuplötur, plötur með kórsöng, harmonikkuleik og dægurlögum. Til að mynda gáfu 14 fóstbræður út plötu og Karlakór Reykjavíkur, Örvar Kristjánsson og Ingimar Eydal og hljómsveit.
Júdasarmenn komu líka við sögu á fleiri plötum, því Millilending Megasar var tekin var upp í Hljóðrita með undirleik Júdasar og einnig tók sveitin upp plötuna með Sigrúnu Harðardóttur, sem gefin var út ári síðar og smáskífu Gunna og Dóra, Lucky Man.
Upptökur á Júdas no. 1 hófust í Hljóðrita í júní 1975, en gerð sjónvarpsþáttar um hljómsveitina, Júdas svíkur engan!, tafði verkið og tónleikaferð til Majorka, meðal annars. Í viðtali um upptökurnar í Tímanum sagði Magnús einnig að tæknilegar takmarkanir í Hljóðrita hafi líka hafi sitt að segja hve lengi tók að taka plötuna upp. Á endanum om platan svo út í byrjun desember.
Magnús Kjartansson semur flest laganna á plötunni og syngur þau, en Vignir Bergmann semur tvö lög með Magnúsi og syngur eitt þeirra og Finnbogi syngur eitt lag. Eitt lag er eftir áðurnefndan John Miles.
Listakonan Ríkey Ingimundardóttir málaði myndina á umslagi plötunnar sem vakti talsverða athygli á sínum tíma og þætti varla við hæfi í dag.
Í viðtölum sem birt voru um það leyti sem platan kom út, var mikill hugur í liðsmönnum Júdasar, sem stefndu þá á ferð til Bandaríkjanna, enda stóðu íslenskir tónlistarmenn þess tíma frammi fyrir því að markaðurinn væri of lítill til að hægt væri að framfleyta sér með spilamennsku. Í viðtali við Nú-tíman sögðu liðsmenn Júdasar einmitt að það að fara til Bandaríkjanna væri ósköp eðlilegt framhald af því sem við þeir hefði verið að gera. „Það er okkar skoðun að við verðum að fara út. Hljómsveitin er búin að leika hér sem danshljómsveit svo lengi, að breytinga er þörf.
Okkar tónlistaráhrif eru komin frá Bandaríkjunum og sú er meginástæðan fyrir því, að við ætlum frekar þangað en til Bretlands. Við viljum fara á þann stað, sem atburðirnir eru að gerast, sjá, heyra og kynnast þvi sem er að gerast. Við höfum staðið of lengi álengdar og aðeins haft óljósar spurnir af því sem er að gerast.“
Júdas stefndi einnig á að gera aðra plötu sem fyrst, enda var nóg til af lögum. Það kom líka út önur plata árið síðar, platan Eins og fætur toga, sem var með íslenskum textum og venjulegra rokki, ef svo má segja. Þá plötu gaf plötuútgáfan Júdas út og gaf reyndar alls út sjö plötur það ár, þar á meðal áðurnefnda sólóplötu Sigrúnar Harðardóttur og fyrstu sólóplötu Rutar Reginalds, Simmsalabimm, og Magnúsar Þórs Sigmundssonar, Happiness Is Just A Ride Away, en síðan ekki söguna meir
Ýmsir koma við sögu á plötunni auk þeirra Júdasarmanna, þar kannski helstur Karl Sighvatsson, fyrrum félagi Magnúasr úr Trúbroti, sem leikur í einu lagi og af slíkum bravör að hann stelur eiginlega senunni. Engilbert Jensen og Sigrún Harðardóttir syngja líka bakraddir meðal annarra og einnig syngur kór í einu lagi, strengjasveit spilar í þremur lögum og blásarakvintett í tveimur.
Á a-hlið plötunnar eru lögin New York Overture, What's On Your Mind, sem er eftir áðurnefndan John Miles, First Class Rock And Roll Song, It's Raining Again og Poseidon, þar sem Karl Sighvatsson fer á kostum á orgelið.
Á b-hliðinni er fyrst lagið Breakdown, síðan Depression, I Am On My Way, U.S. Naval Base, sem vísar í spilamennskuna á vellinum, og loks Bye – Bye.