Vínill vikunnar í þetta sinn er platan Sturla með hljómsveitinni Spilverk þjóðanna frá árinu 1977.
Spilverk þjóðanna var stofnað 1974 af nokkrum nemendum í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Meðlimir sveitarinnar framan af voru þeir Sigurður Bjóla Garðarsson, Egill Ólafsson og Valgeir Guðjónsson og hljóðfæraleikurinn var framan af órafmagnaðurog lögin voru sungin á ensku.
Spilverkið fór til London snemma árs 1975 og tók upp fjögur lög, þau lög fóru síðar á safnplötuna Hrif 2. Um sumarið bættist Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) söngkona í hópinn og tók hljómsveitin upp sína fyrstu hljómplötu sem kom út um haustið. Hún var samnefnd sveitinni, Spilverk þjóðanna og fékk góðar viðtökur bæði hjá gagnrýnendum og almenningi.
Önnur plata Spilverksins var tekin upp á tónleikum og hlaut heitið CD nærlífi, hún var gefin út í takmörkuðu upplagi.
Næsta plata, var tekin upp um haustið 1976 og nú voru voru öll lögin á plötunni sungin á íslensku, eins og á öllum plötum hljómsveitarinnar þaðan í frá. Þessi þriðja plata hlaut nafnið Götuskór og kom út rétt fyrir jólin 1976.
Næst var sveitin fengin í samstarfsverkefni með Pétri Gunnarssyni og Þjóðleikhúsinu til að vinna tónlist við söngleikinn Grænjaxla. Þegar þeirri vinnu var frestað um stund hófu meðlimir Spilverksins að vinna næstu plötu og luku þeim upptökum um vorið 1977 og kom hún út um sumarið. Þetta var platan Sturla. Hún var frábrugðin fyrri plötum sveitarinnar að því leyti að notuð voru rafmagnshljóðfæri í mun meiri mæli en áður. Lögin sem samin höfðu verið fyrir söngleikinn Grænjaxla voru flest notuð á Sturlu. Á Stjörnumessu (sem var eins konar tónlistaruppgjör ársins á þessum tíma) hlaut Spilverk þjóðanna titilinn hljómsveit ársins, Diddú og Egill söngvarar ársins, Sturla var valin plata ársins og Sirkus Geira Smart lag ársins.
Hljómsveitin gaf út tvær plötur eftir að Sturla kom út. Sú fyrri hlaut nafnið Ísland og kom út um haustið 1978. Svo var það árið 1979 sem hljómsveitin gaf út sína sjöttu og síðustu plötu Bráðabirgðabúgí.
Sturla - lagalisti
A-hlið:
Sirkus Geira Smart
Trumba og Sturla
Arinbjarnarson
Eftir predikun
Hæ hó
Ferðabar
Húsin mjakast upp
Skandinavíu Blues (Kom hjem til mig)
B-hlið:
Skýin
Söngur dýranna í Straumsvík
Nei sko
Gul og rauð og blá
Bob Hope
Sturla
Sannaðu til
Lag ljóð
Upphafslag þáttarins var stef úr lagi Spilverksins, Egils appelsín og í lokin var lagið Styttur bæjarins af plötunni Götuskór spilað.
Umsjón: Gunnar Hansson