Vínill vikunnar er Rigtige mænd (gider ikke høre mere vrøvl) með dönsku hljómsveitinni TV 2. Platan kom út 1985 og var mest selda plata ársins í Danmörku. Umsjónarmaður er Bogi Ágústsson og Kormákur Marðarson er upptökustjóri.
Hljómsveitin TV 2 var stofnuð 1981 í Árósum og starfar enn þann dag í dag. Félagarnir í TV 2 höfðu sumir áður starfað saman í hljómsveit sem nefndist Taurus og raunar halda sumir aðdáendur því fram að nafnið TV 2 standi fyrir Taurus Version 2, Taurus, önnur útgáfa.
Sveitin hefur ætíð notið mikilla vinsælda í Danmörku þó að þeir kalli sjálfa sig stundum leiðinlegustu hljómsveit Danmerkur. TV 2 hefur verið dugleg við að halda tónleika og koma fram á tónlistarhátíðum og jafnframt hafa þeir, og Steffen Brandt einn, unnið með fjölmörgum öðrum tónlistarmönnum. Sveitin hélt upp á 45 ára starfsafmæli á tónlistarhátíðinni Smukfest í ágúst og blaðadómar um þá tónleika voru afar lofsamlegir. Í Aarhus Stiftstidende skrifaði gagnrýnandi að TV-2 væri enn sprellifandi, eldmóðurinn væri augljós og áhorfendur hefðu fagnað innilega gráhærðu hetjunum frá Árósum. Í Berlingske var fjallað um tónleika fyrr á árinu í Royal Arena í Kaupmannahöfn og skrifað Takk, TV-2 fyrir fimm stjörnu kvöld. Hvílík veisla. Sikke en fest!
Það er engu skrökvað þó að því sé haldið fram að Steffen Brandt sé allt í öllu í sveitinni, hann er aðalsöngvarinn og laga- og textahöfundur. Tónlist hans hefur verið lýst sem minimalísku rokki og textarnir eru margbrotnir, frá ástarsöngvum til háðsádeilu og samfélagslegrar gagnrýni. Húmorinn er sjaldan langt undan, sem og kaldhæðni í klókindalegum og stríðnislegum textum. Berlingske skrifar að textarnir fjalli um alvöru lífsins með húmor, sjálfshæðni og satírískri samfélagsgagnrýni.
Frumflutt
2. jan. 2026
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Vínill vikunnar
Vínil plata úr safninu dregin fram og spiluð í heild.