Vínill vikunnar í þetta sinn var hljómplatan Fine Young Cannibals frá árinu 1985 með bresku hljómsveitinni Fine Young Cannibals.
Hljómsveitin var stofnuð í Birmingham í Englandi árið 1984 af gítarleikaranum Andy Cox og bassaleikaranum David Steele. Þeir fóru um allt Bretland, til Ástralíu og Bandaríkjanna til að leita að söngvara áður en þeir fundu einn sem þeim fannst passa, Roland Gift. Eftir að þeir komu fyrsta laginu sínu, Johnny Come Home, í spilun í sjónvarpsþætti náðu þeir athygli útgefenda og svo samningi. Fyrsta platan sem þeir gáfu út, sem er einmitt vínill vikunnar, vakti talsverða athygli og tvö lög af henni náðu vinsældum víða um heim, það voru einmitt Johnny Come Home og Suspicious Minds, sem var yfirbreiðsla á lagi eftir Mark James. Mörg muna eflaust eftir útgáfu Elvis Presley af því lagi.
Fine Young Cannibals kom til íslands í júní 1986 og spiluðu í Laugardalshöllinni ásamt bresku hljómsveitinni Madness. Þessir tónleikar voru aðrir af tveimur stórtónleikum í höllinni sem fóru sem sagt fram 16. Og 17. júní og voru hluti af Listahátíð í Reykjavík það árið.
Hljómsveitin varð ekki langlíf og gaf aðeins út tvær plötur. Seinni plata sveitarinnar, The Raw & the Cooked, kom út árið 1989 og náði hún talsvert meiri vinsældum en fyrri platan, meðal annars náði hún miklum vinsældum meðal annars í Bandaríkjunum, sem hljómsveitin hafði ekki náð áður. Tvö lög af plötunni náðu toppsætum vinsældarlista víða um heim, það eru lögin She Drives Me Crazy og Good Thing. En þrátt fyrir þessar miklu vinsældir þá leystist hljómsveitin upp árið 1992 og meðlimirnir héldu hver í sína áttina. Söngvarinn Roland Gift, hefur sagt að honum hafi aldrei liðið sérstaklega vel í hlutverki poppstörnunnar, en aftur á móti hafði hann mikinn áhuga á leiklistinni, sem sagt að stíga inn í hlutverk alls konar annarra persóna. Hann hefur leikið talsvert í gegnum tíðina og er enn að.
A-hlið:
Johnny Come Home,
Couldn't care more,
Don't Ask Me to Choose,
Funny How Love Is
Suspicious Minds.
B-hlið:
Blue,
Move to Work,
On a Promise,
Time Isn't Kind
Like a Stranger
Í lokin heyrðum við svo tvö vinsælustu lög hljómsveitarinnar Fine Young Cannibals, af seinni plötu þeirra, The Raw & the Cooked, lögin Good Thing og She Drives Me Crazy.
Umsjón: Gunnar Hansson