Leikin eru nokkur sveiflulög og sálarsöngvar í flutningi íslenskra flytjenda, ýmist á íslensku eða ensku. Jóhann Sigurðarson leikari og söngvari syngur þrjú lög úr söngleikjum og kvikmyndum sem komu út á plötunni Lögin úr leikhúsinu árið 2010. Það eru lögin Lukka komdu í kvöld, Norðurleiðarútan og Svo ung og bjartsýn. Síðan eru tvö sálarlög sem komu út á Svörtu plötunni. Regína Ósk syngur Spooky og Hera Björk og Margrét Eir syngja Shake Your Tailfeather. Þá eru þrjú lög af plötu sem Stórsveit Reykjavíkur gerði árið 1995. Egill Ólafsson syngur It Don't Mean a Thing (If it ain't got that swing), Egill og Raggi Bjarna syngja Einungis fyrir djass og Elly Vilhjálms syngur Almost Like Being In Love. Bubbi Morthens syngur að lokum þrjú lög sem Haukur Morthens frændi hans hljóðritaði á sínum tíma. Það eru lögin Lóa litla á Brú, Með blik í auga og Ó, borg mín borg, en í því lagi hljómar rödd Hauks einnig.