Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa á ný sett af stað bólusetningarátak vegna tveggja nýrra afbrigða Covid veirunnar og í kjölfar fjölgunar á innlögnum á sjúkrahús. Hefur fjöldi smita tvöfaldast síðan í ágúst. Milljónir breta hafa verið hvattir til að mæta í COVID- og inflúensusprautur nú í haust. Hafa íslensk sóttvarnaryfirvöld áhyggjur af þessu og megum við búast við svipuðu átaki hérlendis? Guðrún Aspelund sóttvarnarlæknir ræddi við okkur.
Frístundasafnið var stofnað til þess að auka jöfnuð og efla tækifæri og getu einstaklinga með fötlun til þess að leggja stund á útivist og hreyfingu. Verið er að safna búnaði og í framhaldi á að bjóða upp á útleigu á búnaði fyrir alla aldurshópa. Bergur Þorri Benjamínsson, einn af forsvarsmönnum Frístundasafnsins, sagði okkur frá tilgangi safnsins.
Jóhannes Bjarni Guðmundsson setti á laggirnar Flugvarpið fyrir fimm árum en Flugvarpið er hlaðvarp þar sem er fjallað um flugmál á Íslandi, viðburði, málefni og áhugavert fólk tekið tali. Jóhannes Bjarni hefur langa reynslu sem atvinnuflugmaður og flugkennari og starfaði einnig um tíma við fjölmiðla. Hann kom til okkar í þáttinn í dag í tilefni tímamótanna.
Nú er sláturtíð í fullum gangi og við vorum að velta því fyrir okkur hvort margir væru enn að taka slátur. Við heyrðum af því að nemendur í hússtjórnarskólaum í Reykjavík sem hefur starfað óslitið frá 7. febrúar 1942, hefðu tekið slátur á dögunum þannig að það er amk. ennþá verið að kenna sláturgerð. Marta María Arnarsdóttir er skólastýra Hússtjórnarskólans og hún kom til okkar.
Bónusdeild kvenna í körfubolta rúllaði af stað í vikunni og strákarnir byrja í kvöld. Teitur Örlygsson körfuboltaspekingur var á línunni og spáði í spilin.
Snæfellsnes var að fá tilnefningu sem fyrsta svæði á Íslandi sem Unesco Vistvangur. Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri í Grundarfirði og formaður stjórnar Svæðisgarðsins kom til okkar.