Í upphafi ársins 2021....
20.01.2021

Menningarviðurkenningar RÚV 2020

Menningarviðurkenningar RÚV fyrir árið 2020, voru veittar við þann 20. janúar 2021. Andri Snær Magnason hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins og Helgi Björnsson hlaut Krókinn, viðurkenningu Rásar 2, fyrir framúrskarandi tónlistarflutning á árinu.   https://www.ruv.is/i-umraedunni/menningarvidurkenningar-ruv-2020

26.01.2021

Jafnt hlutfall viðmælenda í dagskrá RÚV árið 2020

Hlutfall kynjanna í dagskrá RÚV, utan frétta, var alveg jafnt, 50% karlar og 50% konur árið 2020. Með kynjajafnvægi í dagskrá sker RÚV sig frá flestum miðlum hérlendis og erlendis. Séu eingöngu fréttatímar og fréttatengdir þættir teknir saman er hlutfall viðmælenda 63% karlar og 37% konur. Það skýrist af hærra hlutfalli karla í leiðandi stöðum í stjórnmálum og samfélaginu, sem fluttar eru fréttir af.  Tölurnar hafa þróast í átt til jafnvægis frá því að mælingar hófust.   https://www.ruv.is/i-umraedunni/vidmaelendagreining-ruv-2020

04.02.2021

Tólf konur tóku þátt í fjölmiðlaverkefni FKA og RÚV

Fjölmiðlaverkefni FKA og RÚV er eitt af hreyfiaflsverkefnum Félags kvenna í atvinnulífinu. Á annað hundrað konur sóttu um að taka þátt en 12 konur voru á endanum valdar til að verja deginum í Útvarpshúsi þann 4. febrúar. Markmið verkefnisins er að bæta aðgengi fjölmiðlafólks og beina sjónum að ólíkum konum í atvinnulífinu og bjóða komandi kynslóðum uppá fjölbreyttar fyrirmyndir. Einnig er markmiðið að auka á fjölbreytni viðmælenda í íslenskum fjölmiðlum og greiða leið fjölmiðlafólks að konum. https://www.ruv.is/i-umraedunni/nofn-tolf-kvenna-sem-taka-thatt-i-fjolmidlaverkefni-fka-og-ruv-2021

05.02.2021

RÚV kaupir réttinn til að sýna úrslitamót EM karla í knattspyrnu 2024 og 2028

RÚV hefur tryggt sér sýningarréttinn á úrslitamótum Evrópukeppni karla í knattspyrnu 2024 og 2028.  24 lið komast á lokamótið, annað hvort úr riðlakeppni EM eða umspil Þjóðadeildar UEFA. Þjóðir hafa því tvö tækifæri til að komast á EM. Mörgum er enn í fersku minni þegar Ísland komst í fyrsta skipti á EM árið 2016 í Frakklandi og fór alla leið í átta liða úrslit eftir eftirminnilegan 2-1 sigur á Englandi. Áður hafði RÚV tryggt sér sýningarréttinn á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu á Englandi sumarið 2022 þar sem íslenska kvennalandsliðið verður í eldlínunni. Þetta er í fjórða skipti sem íslenska kvennalandsliðið kemst á EM. Stefna RÚV er að veita þjóðinni aðgang að heimsviðburðum í íþróttum.

22.02.2021

RÚV tekur þátt í að gera íslensku gjaldgenga í stafrænum heimi

Íslenskan stendur frammi fyrir ótal mörgum áskorunum á tímum stafrænna samskipta og snjalltækja. Að undanförnu hafa ný snjallforrit og verkefni litið dagsins ljós með það markmið að gera íslensku gjaldgenga í hinum stafræna heimi. Á meðal þeirra verkefna má nefna talgervilsappið Emblu, Almannaróm og Brodda. RÚV hefur tekið þátt í þjónustu fyrir þau tvö síðarnefndu. Með Brodda geta notendur hlustað á og vafrað um fréttir og fréttatengda þætti frá RÚV með raddskipunum á íslensku. Broddi skilur nefnilega nokkrar einfaldar íslenskar setningar sem má nota til að tala við forritið. https://www.ruv.is/frett/2021/02/22/gera-islensku-gjaldgenga-i-stafraenum-heimi

24.02.2021

Jarðhræringar á Reykjanesskaga

Fréttastofan stóð í ströngu í byrjun árs í umfangsmikilli umfjöllun um jarðhræringar á Reykjanesskaga. Mikil jarðskjálftahrina fannst vel á suðvesturhorni landsins þann 24. febrúar, stærsti skjálftinn mældist 5,7 og átti hann upptök sín 2,9 km suðsuðvestur af Keili. Fjöldi skjálfta mældust á skjálftamælum Veðurstofu Íslands  þennan dag og voru þeir staðsettir víða á Reykjanesskaga. Sendur var út aukafréttatími í Sjónvarpinu klukkan 12:00. https://www.ruv.is/frett/2021/02/24/aukafrettatimi-i-sjonvarpi-vegna-jardskjalftahrinu  

01.03.2021

Engin söngvakeppni haldin - Daði Freyr valinn til að keppa fyrir Íslands hönd

Engin sönkvakeppni var haldin árið 2021 vegna kórónuveirufaraldursins. Ríkisútvarpið tók þá ákvörðun að velja Daða Frey og gagnamagnið til að taka þátt í Eurovision-keppninni í Rotterdam árið 2021. Daði vann Söngvakeppnina hér heima með laginu Think About Things árið 2020 og fór myndbandið við lagið og ekki síður danssporin sem eldur í sinu um netheima. Daða var af mörgum talinn mjög sigurstranglegur fyrir Eurovision-keppnina 2020 sem síðan var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins.   https://www.ruv.is/frett/2020/10/23/engin-songvakeppni-dadi-keppir-fyrir-hond-islands

06.03.2021

Kartöflur: Flysjaðar frumfluttar í Útvarpsleikhúsinu

Kartöflur: Flysjaðar er nýtt heimildaleikhúsverk eftir sviðslistahópinn CGFC í samstarfi við Halldór Eldjárn. Verkið er unnið upp úr sama rannsóknarbanka og sviðslistaverkið Kartöflur sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu árið 2019. Sviðsverkið Kartöflur var tilnefnt til Grímunnar árið 2020 sem leikrit ársins en verkið tekur nú á sig nýja mynd í Útvarpsleikhúsinu. https://www.ruv.is/i-umraedunni/kartoflur-flysjadar-i-utvarpsleikhusinu

12.03.2021

Hlaðvarpsritstjórn RÚV sett á laggirnar

Hlaðvarpsritstjórn RÚV var sett á laggirnar í marsmánuði. Þau Anna Marsibil Clausen, Atli Már Steinarsson og Guðmundur Pálsson voru fengin til að móta stefnu um hlaðvarpsmál í kjölfar skýrslu vinnuhóps um hlaðvörp RÚV. Í fyrsta sinn framleiddi RÚV sérstakar hlaðvarpsseríur sem skiluðu sér fyrst í spilara RÚV og á hlaðvarpsveitur og seinna í línulega dagskrá á Rás 1 og Rás 2. Má þar nefna Heiðina, Kosningahlaðvarpið sem fjallaði um alþingiskosningarnar 2021, Með Ófærð á heilanum og Með Verbúðina á heilanum.

19.03.2021

RÚV fær fjórar tilnefningar til Blaðamannaverðlauna

Tilnefningar til Blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands voru tilkynntar þann 19. mars. RÚV fékk fjórar tilnefningar til verðlauna í ár. Birta Björnsdóttir og Guðmundur Björn Þorbjörnsson fengu tilnefningu fyrir fjölbreytta, aðgengilega og upplýsandi umfjöllun af erlendum vettvangi sem vakið hefur athygli í þáttunum Heimskviðum. Aðalsteinn Kjartansson, Helgi Seljan og Stefán Drengsson fyrir fréttaskýringarþátt um afdrif tveggja gámaflutningaskipa sem Eimskip seldi í gegnum millilið til niðurrifs í Indlandi þvert á evrópsk lög. Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir fyrir umfjöllun um atvinnuleysi þar sem tekið var á sálrænum, félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum þess í skugga heimsfaraldurs COVID-19. Þórhildur Þorkelsdóttir fékk tilnefningu fyrir vönduð fréttatengd viðtöl þar sem sjónum er beint að einstaklingum í erfiðum aðstæðum. https://www.ruv.is/frett/2021/03/20/tilnefnd-til-bladamannaverdlaunanna

19.03.2021

Eldgos tilkynnt í Vikunni með Gísla Marteini

Eldgosið hófst þegar Vikan með Gísla Marteini var í beinni útsendingu föstudagskvöldið 19. mars og þjóðin var að sjálfsögðu upplýst um leið. Fjórir starfsmenn RÚV ákváðu að ganga upp að eldgosinu eftir rúmlega tveggja tíma beina útsendingu í sjónvarpinu; Einar Þorsteinsson fréttamaður, Guðmundur Bergkvist og Freyr Arnarson tökumenn og Guðmundur Einarsson tæknimaður. Þeir gengu fyrst upp á Borgarfjall til að ræsa vefmyndavélina frá RÚV sem var orðin rafmagnslaus. Landhelgisgæslan tók fyrstu myndirnar af eldgosinu í Geldingadölum í austanverðu Fagradalsfjalli en fjórmenningarnir frá RÚV voru þeir fystu sem komu á staðinn og náðu fréttamyndum.

25.03.2021

Beint streymi frá eldgosinu sló öll met 

Þegar eldgos braut út í Geldingadölum í mars varð fljótt ljós að áhugi á gosinu náði ekki aðeins til Íslendinga. Vefmyndavélar voru settar upp nálægt gosinu og varð beint streymi frá gosinu gríðarlega vinsælt. Á þremur dögum í mars kom nærri ein og hálf milljón gesta inn á rúv.is til að fylgjast með gosinu. Stór hluti gesta komu að utan en áhuginn var engu að síður mikill innanlands eins og sást á áhorfi á RUV2 þegar vefmyndavélarnar voru þar í línulegri dagskrá. 

26.03.2021

Niðurstaða siðanefndar í máli Samherja á hendur 11 starfsmönnum RÚV

Úrskurður siðanefndar Ríkisútvarpsins vegna kæru Samherja hf. gegn ellefu starfsmönnum RÚV var birtur þann 26. mars. Kæran varðaði færslur umræddra starfsmanna á samfélagsmiðlum en þær voru kærðar til siðanefndarinnar í ágúst og október árið 2020. Niðurstaða nefndarinnar er skýr og ótvíræð varðandi 10 af 11 starfsmönnum RÚV. Þar er kærum ýmist vísað frá nefndinni eða niðurstaðan er að ummælin teljist ekki brot á siðareglum RÚV. Að mati siðanefndarinnar hefur einn starfsmaður, Helgi Seljan fréttamaður, brotið siðareglur RÚV með nánar tilgreindum ummælum á samfélagsmiðlum. Samkvæmt 9. gr. reglna um siðanefnd Ríkisútvarpsins segir að ef niðurstaða nefndarinnar bendi til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga skuli nefndin vekja athygli útvarpsstjóra á því. Ekkert kemur fram í niðurstöðu nefndarinnar um að það eigi við í umræddu tilviki. Niðurstaðan hefur því ekki áhrif á störf Helga Seljan hjá RÚV. https://www.ruv.is/i-umraedunni/nidurstada-sidanefndar-i-mali-samherja-a-hendur-11-starfsmonnum-ruv

26.03.2021

Þórhildur hlaut blaðamannaverðlaun ársins

Þórhildur Þorkelsdóttir, fréttamaður RÚV, hlaut blaðamannaverðlaun árins, sem afhent voru þann 26. mars. Blaðamannaverðlaun ársins hlaut Þórhildur Þorkelsdóttir, fréttastofu RÚV, fyrir vönduð fréttatengd viðtöl þar sem sjónum er beint að einstaklingum í erfiðum aðstæðum. https://www.ruv.is/frett/2021/03/26/thorhildur-hlaut-bladamannaverdlaun-arsins

31.03.2021

Yfirlýsing fréttastjóra vegna erindis Samherja til stjórnar RÚV

Stjórn RÚV vísaði frá þeirri kröfu stjórnenda Samherja að Helgi Seljan yrði áminntur í starfi og meinað að fjalla frekar um málefni fyrirtækisins. Stjórnin gat ekki komist að annarri niðurstöðu enda skýrt að stjórnin, sem Alþingi skipar, á enga aðkomu að ritstjórn. Samherji taldi stjórnendur fréttastofunnar og RÚV, sem sögðu úrskurð siðanefndar engin áhrif hafa á störf Helga, ekki skilja alvarleika niðurstöðu siðanefndar og leitaði því til stjórnarinnar.  Afstaða stjórnenda RÚV mótast fyrst og fremst af því að fréttaflutningur Kveiks og fréttastofunnar var ekki til umfjöllunar hjá nefndinni frekar en störf Helga.  Sú umfjöllun stendur, sem fyrr. Ekki var um að ræða brot á starfsskyldum fréttamannsins. Hvort sem menn telja ummæli Helga Seljan á samfélagsmiðlun viðeigandi eða ekki er fráleitt að slíta þau úr samhengi við þá aðför eða herferð sem fulltrúar Samherja hafa skipulagt gegn frétta- og blaðamönnum sem fjallað hafa um málefni fyrirtækisins síðustu misseri. Aðför sem hefur þann eina tilgang að kæfa gagnrýna umræðu og koma í veg fyrir að fréttamenn geti sinnt starfi sínu. Að skjóta sendiboðann svo upplýsingar skili sér ekki til almennings. https://www.ruv.is/i-umraedunni/yfirlysing-frettastjora-vegna-erindis-samherja-til-stjornar-ruv

31.03.2021

Fjölbreytt og vönduð dagskrá á öllum miðlum RÚV um páskana

Að vanda var boðið upp á fjölbreytta og vandaða dagskrá á öllum miðlum RÚV um páskana. Nýtt íslenskt efni og skemmtun fyrir alla fjölskylduna var í öndvegi.   https://www.ruv.is/frett/2021/03/31/paskadagskrain-a-ruv

04.04.2021

Sjónvarpsmyndin Sóttkví frumsýnd

Sjónvarpsmyndin Sóttkví var frumsýnd á páskadag á RÚV. Reynir Lyngdal leikstýrir eftir handriti Birnu Önnu Björnsdóttur og Auðar Jónsdóttur. Elma Lísa Gunnarsdóttir, Birgitta Birgisdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Hilmar Guðjónsson fara með helstu hlutverk. Sóttkví fjallar um þrjár vinkonur sem þurfa allar að fara í sóttkví í fyrstu bylgju Covid-19. Þær taka upp á því að veita hver annarri félagsskap og stuðning með reglulegum fjarfundum. Í einangruninni og álaginu magnast upp flóknar aðstæður úr lífi vinkvennanna, oft með skoplegum hætti.

21.04.2021

Afkoma RÚV neikvæð í fyrsta sinn frá 2014 vegna COVID-19

Á aðalfundi Ríkisútvarpsins sem haldinn var í Útvarpshúsinu við Efstaleiti þann 21. apríl kom meðal annars fram að árið 2020 einkenndist af mikilli notkun landsmanna á miðlum RÚV, ánægju með þjónustu og auknu trausti. Í ársreikningi kemur fram að reksturinn var neikvæður í fyrsta sinn frá 2014. „Ríkisútvarpið á ríkt erindi við þjóðina og sinnir á hverjum degi mikilvægu hlutverki í þágu landsmanna allra. Þetta var undirstrikað með skýrum hætti á því fordæmalausa ári 2020,“ sagði Stefán Eiríksson útvarpsstjóri. https://www.ruv.is/i-umraedunni/adalfundur-arsreikningur-og-arsskyrsla-2020

23.05.2021

Þriðji besta árangur í Eurovision keppninni frá upphafi, 4. sætið

Ísland með Daða og Gagnamagninu náði sínum þriðja besta árangri í Eurovision keppninni frá upphafi, 4. sætinu. Úrslitin fóru fram í Ahoy höllinni í Rotterdam þann 23. maí. Síðasta sviðsæfing íslenska hópsins var sýnd í beinu útsendingunni vegna Covid-19 smita í íslenska hópnum. „Við sátum hérna á 7. hæð á þessu hóteli og fylgdumst með sjálfum okkur í sjónvarpinu lenda í 4. sæti í Eurovision,“ segir Daði Freyr pollrólegur rétt eftir að úrslitin voru ljós. https://www.ruv.is/frett/2021/05/23/hefdum-rustad-thessu-ef-vid-hefdum-farid-a-svid?term=Da%C3%B0i%20Freyr%20Eurovision&rtype=news&slot=10

01.06.2021

Egill Helgason sæmdur heiðursorðu Frakka

Heiðursorðan (L'Ordre des Arts et des Lettre –  officier) er æðsta viðurkenning sem veitt er af hálfu hins opinbera í Frakklandi á sviði menningar og lista. Sendiherra Frakklands, Graham Paul, veitti Agli Helgasyni orðuna við athöfn í sendiherrabústað Frakklands að Skálholtsstíg. Í tilkynningu segir að Egill hafi oft kynnt franska menningu og tekið viðtöl við Frakka í þáttum sínum. https://www.ruv.is/frett/2021/06/02/egill-helgason-saemdur-heidursordu-frakka  

05.06.2021

Sögur verðlaunahátíð haldin í fjórða sinn

Sögur, verðlaunahátíð barnanna, var haldin með pompi og prakt í Hörpu þann 5. júní. Á hátíðinni er það efni verðlaunað sem þótt hefur skara fram úr í íslenskri barnamenningu. Sigurvegararnir voru valdir af börnum í gegnum netkosningu. Daði Freyr hlaut tvenn verðlaun fyrir lag ársins og sem tónlistarflytjandi ársins. Krakkaskaupið var valið barna- og unglingasjónvarpsþáttur ársins en sjónvarpsþátturinn Blindur bakstur var valinn fjölskylduþáttur ársins. Þórhallur Sigurðsson, betur þekktur sem Laddi, hlaut heiðursverðlaun hátíðarinnar.   https://www.ruv.is/frett/2021/06/05/slimugri-soguhatid-lokid-fjolbreyttir-sigurvegarar  

02.07.2021

Táknmálstúlkun með kvöldfréttum frá og með 1. september 2021

Nýr samningur RÚV við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra tryggir að aðalfréttatíminn kl. 19 verður framvegis túlkaður á táknmál. Samhliða verður einnig byrjað að senda Krakkafréttir út með táknmálstúlkun. https://www.ruv.is/i-umraedunni/taknmalstulkun-med-kvoldfrettum-fra-og-med-1-september-2021  

02.07.2021

Tónaflóð um landið

Sumartónleikar RÚV og Rásar 2, Tónaflóð um landið var í beinni útsendingu frá öllum landshlutum á föstudögum í júlí. Sent var út beint frá Vestmannaeyjum, Bíldudal, Akureyri og Höfn og var áhersla lögð á þekkta íslenska tónlist á tónleikunum. Á hverjum stað héldu þjóðþekktir gestasöngvarar uppi fjörinu ásamt húsbandinu góða, Albatross.

30.07.2021

RÚV á tímum samkomutakmarkanna

Þegar samkomutakmarkanir miðuðust við 10 manns í kórónuveirufaraldrinum starfaði starfsfólk RÚV sem það gat að heiman. Ríkisútvarpið hefur mikilvægu hlutverki að gegna í slíku almannavarnaástandi og vinnur í samræmi við áætlanir um órofinn rekstur. Hlutverk RÚV í heimsfaraldri inflúensu er vel skilgreint í lögum og landsáætlun. Samkvæmt viðbragðsáætlun RÚV var starfseminni í Efstaleiti í Reykjavík skipt upp í 10 sóttvarnasvæði og vel var gætt að því að takmarka fjölda á hverju sóttvarnasvæði í samræmi við gildandi reglur hverju sinni. Strangar reglur giltu um grímunotkun á öllum svæðum. Miklar takmarkanir voru á komu gesta inn á starfsstöðvar RÚV. Vegna eðlis starfseminnar gat verið óhjákvæmilegt að fjöldi einstaklinga á sama svæði færi upp fyrir tíu manna hámarkið þegar það var í gildi. Vegna eðli starfseminnar fékk RÚV undanþágu frá sóttvarnaryfirvöldum, hámarksfjöldi fólks varðandi starsemi RÚV í Efstaleiti miðaðist við 20 manns minnst. Mötuneyti RÚV var lokað mestan part ársins 2021 og matur afgreiddur í bökkum inn á sóttvarnarsvæðin.  

08.08.2021

Ólympíuleikar í Tókýó

Stærsta verkefni íþróttadeildar á árinu voru Ólympíuleikar og Ólympíumót fatlaðri sem haldnir voru í Tókýó. Ísland átti fjóra keppendur á Ólympíuleikum og fimm á Ólympíumóti fatlaðra. RÚV fylgdi Íslendingum um hvert fótmál og gerði því skil í daglegum þáttum í Ólympíukvöldi. Þá gerði RÚV sextán hlaðvarpsþætti um Ólympíuleikana frá Tókýó sem vöktu mikla athygli. Þættirnir voru eitt af vinsælustu hlaðvarpsþáttum landsins á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Beinar útsendingar RÚV frá Ólympíuleikum hafa aldrei verið fleiri og rétt eins og í allri annarri dagskrárgerð íþróttadeildar var gætt jafnræðis um fjölda útsendinga bæði kvenna og karla

12.08.2021

Útsýnispallur tekinn í notkun á Úlfarsfelli

Útsýnispallur á Stórahnjúki á toppi Úlfarsfells í Mosfellsbæ var opnaður með formlegum hætti þann 12. ágúst. Neyðarlínan, RÚV og Vodafone stóðu saman að byggingu útsýnispallsins sem er við hlið fjarskiptamasturs sem þau reistu á fjallinu. https://www.ruv.is/frett/2021/08/12/utsynispallur-tekinn-i-notkun-a-ulfarsfelli

27.08.2021

Höfundar Áramótaskaupsins opinberaðir

Höfundar Áramótaskaupsins árið 2021 eru þau Vilhelm Neto, Bergur Ebbi, Hugleikur Dagsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Gagga Jónsdóttir og Lóa Hjálmtýsdóttir. Leikstjórn verður í höndum Reynis Lyngdals. https://www.ruv.is/i-umraedunni/hofundar-aramotaskaupsins-2021  

31.08.2021

Kosningaumfjöllun RÚV fyrir alþingiskosningar

Umfjöllun RÚV fyrir alþingiskosningarnar hófst þann 31. ágúst með leiðtogaumræðum í sjónvarpssal. Kosningaumjölunin var umfangsmikil og vönduð en fjallað var um kosningarnar á sérstökum kosningavef, í sjónvarpi, útvarpi og hlaðvarpi. https://www.ruv.is/i-umraedunni/kosningaumfjollun-ruv  

03.09.2021

Klassíkin okkar - leikhúsveisla

Í sjötta sinn efndu Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV til tónleika í beinni útsendingu frá Eldborg í Hörpu og að þessu sinni bættist Þjóðleikhúsið í hópinn. Tónleikarnir voru helgaðir leikhústónlist og listafólk Þjóðleikhússins, Sinfóníuhljómsveit Íslands og fjöldi einsöngvara flutti þjóðinni ástsælar leikhúsperlur í beinni útsendingu í sjónvarpinu og á Rás 1. Í kosningu sem Klassíkin okkar stóð fyrir kom í ljós að vinsælasta leikhúslag þjóðarinnar reyndist vera lagið Hvert örstutt spor en Jóna G. Kolbrúnardóttir flutti lagið  á tónleikunum. Hljómsveitarstjóri var Daníel Bjarnason og kynnar kvöldsins voru að vanda Halla Oddný Magnúsdóttir og Guðni Tómasson.

14.09.2021

Stefna um fjarvinnu hjá RÚV kynnt starfsfólki

Starfsfólki RÚV var gert grein fyrir nýrri fjarvinnustefnu þann 14. september. Með fjarvinnustefnunni býður RÚV starfsfólki upp á aukinn sveigjanleika og fjölbreyttara starfsumhverfi í þeim störfum þar sem það er mögulegt. Öll störf /verkefni sem með góðu móti er hægt að sinna utan vinnustaðarins falla undir stefnu RÚV um fjarvinnu. Í því felst að starfsfólk getur fengið heimild til sveigjanlegrar viðveru með því að sinna starfi í fjarvinnu að ákveðnum hluta ef forsendur um fjarvinnu eru uppfylltar. Miðað er við að fjarvinna geti verið um 20% af hefðbundinni vinnuviku ef forsendur um fjarvinnufyrirkomulag eru uppfylltar. Ákvörðun um fjarvinnu þarf alltaf að taka í samvinnu við næsta yfirmann. Forsendur fjarvinnu geta breyst og litið er á stefnuna sem tilraunaverkefni.

03.10.2021

Edduverðlaunin 2021

Uppskeruhátíð íslenska sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðarins sem ÍKSA stendur fyrir árlega voru veitt í sérstökum sjónvarpþætti á RÚV, sunnudaginn 3. október. Að þessu sinni voru veitt verðlaun í 26 flokkum sem kosin voru af meðlimum ÍKSA, auk verðlauna fyrir sjónvarpsefni ársins sem er almenningskosning. Þá voru árleg Heiðursverðlaun Eddunnar einnig veitt og komu þau í hlut Reynis Oddssonar, kvikmyndagerðarmanns að þessu sinni. RÚV hlaut fjölda tilnefninga á Eddunni en meðal Edduverðlauna sem RÚV hlaut voru Stundin okkar sem Barna- og unglingaefni ársins, Kveikur sem frétta- eða viðtalsþáttur ársins, Helgi Seljan var valinn sjónvarpsmaður ársins og Ráðherrann sem leikið sjónvarpsefni ársins. http://eddan.is/?page_id=2288

09.10.2021

Rakel Þorbergsdóttir lætur af starfi fréttastjóra

Rakel Þorbergsdóttir tilkynnti í byrjun nóvember að hún hyggðist láta af starfi fréttastjóra Ríkisútvarpsins um áramótin. Rakel hefur gegnt starfi fréttastjóra frá því í apríl 2014. Hún hefur á þessum tíma leitt fréttastofuna í gegnum miklar breytingar, einkum í starfsumhverfi fréttastofunnar en einnig ásamt starfsfólki verið leiðandi í miðlun frétta og viðhaldið og byggt upp traust til fréttastofunnar sem mælst hefur mikið í öllum samanburði undanfarin ár. Á þessum tíma hafa miklar breytingar verið gerðar á tækniumhverfi fréttastofu, þar á meðal með nýju og tæknivæddu sjónvarpsmyndveri. Aukin áhersla hefur verið lögð á ítarlegar og vandaðar fréttaskýringar, meðal annars með fréttaskýringaþættinum Kveik sem varð til undir hennar stjórn á fréttastofunni. Heiðar Örn Sigurfinnsson varafréttastjóri gegnir starfi fréttastjóra frá því að Rakel lætur af störfum um áramótin og þar til nýr fréttastjóri hefur verið ráðinn. https://www.ruv.is/i-umraedunni/rakel-thorbergsdottir-laetur-af-starfi-frettastjora-um-aramotin

15.10.2021

Verum til!

Starfsfólki RÚV var ljúft og skylt að minna á átaksverkefni Krabbameinsfélagsins, Bleiku slaufuna. Átakið árið 2021 gekk undir nafninu "Vertu til" og það var starfsfólk RÚV svo sannarlega á kuldalegum haustdeginum. https://www.ruv.is/i-umraedunni/verum-til

17.10.2021

Þriðja þáttaörð ófærðar frumsýnd

Þriðja þáttaröð Ófærðar hóf göngu sína á RÚV þann 17. októ­ber. Í þáttaröðinni finnst ung­ur maður myrt­ur í hópi sér­trú­arsafnaðar norður í landi og finn­ur lögreglumaðurinn Andri sig knú­inn til að leggja rann­sókn­inni lið. Ófærð er sem fyrr fram­leidd af RVK Studi­os. Baltas­ar Kor­mák­ur er aðal­fram­leiðandi þátt­anna. Leik­stjór­ar ásamt hon­um eru þau Börk­ur Sigþórs­son og Katrín Björg­vins­dóttir.  

29.10.2021

Jafnréttisnefnd RÚV tekur til starfa

Í samræmi við jafnréttisáætlun tók jafnréttisnefnd RÚV til starfa þann 29. október, en skipan hennar er ein af nítján aðgerðum í umræddri áætlun. Markmiðið með störfum hennar er að auka samráð í jafnréttismálum og tryggja enn betur samstöðu um jafnréttisstarf hjá RÚV með virkri þátttöku starfsfólks og í góðu samráði við það. Í nefndinni eru Atli Sigþórsson, Dröfn Teitsdóttir, Gísli Einarsson, Helga Ólafsdóttir, Karl Magnús Þórðarson, Salóme Þorkelsdóttir og Þröstur Helgason, sem og Hildur Sigurðardóttir sem stýrir starfi hennar. https://www.ruv.is/sites/default/files/jafnrettisaaetlun-2021-2024_ruv.pdf

29.10.2021

Loftslags- og umhverfisstefna RÚV

Undirbúningshópur fékk það verkefni á haustmánuðum að móta drög að loftslags- og umhverfisstefnu RÚV. Hópurinn sem tók að sér þetta verkefni eru þau Arnhildur Hálfdánardóttir, Helga Lára Þorsteinsdóttir, Gísli Berg, Sævar Helgi Bragason og Þórhildur Ólafsdóttir sem stýrir starfi hópsins.

18.11.2021

Vera Illugadóttir hlaut viðurkenningu á degi íslenskrar tungu

Vera Illugadóttir, umsjónarmaður Í ljósi sögunnar á Rás 1, sem er jafnframt vinsælasta hlaðvarp landsins, hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember. Í umsögn dómnefndar segir að Í ljósi sögunnar höfði öðrum fremur til fólks á öllum aldri og með mjög mismunandi áhugasvið. „Með grípandi framsetningu söguefnis hverju sinni nær Vera eyrum hlustenda vítt og breitt um samfélagið. Hún segir sögur sínar á frjóu og fallegu máli og miðlar fróðleik sínum á tilgerðarlausan en áhrifaríkan hátt.“ https://www.ruv.is/i-umraedunni/vera-illugadottir-hlaut-vidurkenningu-a-degi-islenskrar-tungu

25.11.2021

Björn Þór klæddist hlífðarbúningi í útsendingu

Björn Þór Sigbjörnsson dagskrárgerðarmaður á Rás 1 setti sig í spor heilbrigðisstarfsmanns á tímum kórónaveirunnar og klæddist hlífðarbúningi í útsendingunni á Morgunvaktinni þann 25. nóvember.

26.11.2021

Kvennavakt á Íþróttadeild

Þann 26. nóvember gerðist nokkuð sem líklega hefur sjaldan eða aldrei gerst áður að aðeins konur voru á vakt á Íþróttadeildinni. Vaktina skipuðu þær Sandra Silfá Ragnarsdóttir, Eva Björk Benediktsdóttir, Edda Sif Pálsdóttir og María Björk Guðmundsdóttir, Helga Margrét Höskuldsdóttir, Kristjana Arnarsdóttir.

03.12.2021

Aðventugleði Rásar 2

Rás 2 blés til árlegrar aðventugleði í Efstaleitinu þar sem góðir gestir litu við og tónlistarfólk tók lagið í beinni útsendingu, meðal þeirra voru Margrét Eir, Valdimar, bræðurnir Frikki Dór og Jón Jónsson, Emmsjé Gauti og Prins Póló. Einnig var fjallað um jólabókaflóðið með sérfróðum, pælt í jólamatnum og afþreyingu um jólin. Tónleikarnir voru í beinni útsendingu á Rás 2 og í hljóði og mynd á RÚV.is. https://www.ruv.is/frett/2021/12/03/adventugledi-rasar-2  

07.12.2021

Traustar fréttir

Könnun MMR á trausti, sem framkvæmd var í nóvember, sýnir enn og aftur að landsmenn treysta fréttum RÚV. Traust landsmanna á fréttaflutningi er mælt tvisvar á ári, í maí og nóvember, í samræmi við þjónustusamning RÚV og menntamálaráðuneytisins.  Ný könnun MMR sýnir að 70% aðspurðra bera mikið traust til fréttastofu RÚV.  Um 19% svara hvorki mikið né lítið traust en 11% bera lítið trausttil fréttastofu RÚV. https://www.ruv.is/i-umraedunni/traustar-frettir

09.12.2021

Heimilistónar eiga sigurlagið í Jólalagakeppni Rásar 2

Fjöldi laga barst í jólalagakeppni Rásar 2 í ár og voru sex lög valin til úrslita. Sem fyrr gátu landsmenn kosið á milli þeirra til móts við dómnefnd Rásar 2. Lagið Anda inn með Heimilistónum reyndist hlutskarpast og er því jólalag Rásar 2 árið 2021.   https://www.ruv.is/frett/2021/12/09/heimilistonar-eiga-sigurlag-jolalagakeppni-rasar-2  

25.12.2021

Jólastundin með Ragnhildi Steinunni og Sveppa

Jólastundin var að venju á dagksrá í sjónvarpinu á jóladag. Í ár var boðið upp á jólaþátt fyrir alla fjölskylduna þar sem Ragnhildur Steinunn og Sveppi buðu þjóðinni í skemmtilegt jólaboð.

25.12.2021

Jólalag Ríkisútvarpsins

Jólalag Ríkisútvarpsins árið 2021 var lagið Jól eftir Finn Karlsson við ljóð eftir Örn Arnarson. Sönghópurinn Cantoque Ensemble flutti undir stjórn Steinars Loga Helgasonar. Lagið var frumflutt á jóladag á Rás 1. https://www.ruv.is/utvarp/spila/jolalag-rikisutvarpsins/32520/9m4a41  

26.12.2021

Verbúðin frumsýnd

Vesturport réðst til atlögu við eitt af stærstu deilumálum síðustu áratuga, sjálft kvótakerfið, í sjónvarpsþáttunum Verbúðin, sem hófu göngu sína á RÚV þann 26. desember. Þáttaröðin gerist á árunum 1983-91. Vinahjón gera upp gamlan togara og fara í útgerð. Allt gengur vel þar til kvótakerfið kemur til sögunnar og setur líf hjónanna sem og allra landsmanna í uppnám. Með aðalhlutverk fara Nína Dögg Filippusdóttir, Björn Hlynur Haraldsson, Gísli Örn Garðarsson, Guðjón Davíð Karlsson og Unnur Ösp Stefánsdóttir. Áhorf á Verbúðina fór fram úr björtustu vonum en fjórði hver Íslendingur sat við skjáinn á sunnudagskvöldum og horfði á Verbúðina samkvæmt rafrænum áhorfsmælingum Gallup en yfir 100.000 horfðu daginn eftir á fyrsta þáttinn í Spilara RÚV.  Fyrsti þáttur Verbúðarinnar sló þannig áhorfsmet í Spilaranum. Verbúðin er sýnd á RÚV 2 samtímis með enskum texta en það er þjónusta sem þúsundir nýttu sér.  

26.12.2021

Einsömul mannsrödd frumflutt í Útvarpsleikhúsinu

Einleikur sem byggist á frásögnum um stærsta kjarnorkuslys allra tíma var fluttur í Útvarpsleikhúsi Rásar 1 á annan í jólum. „Ég held að ég hafi sjaldan grátið jafn mikið yfir einum texta,“ segir þýðandi verksins. Aníta Briem fór með aðalhlutverk og Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstýrði.   https://www.ruv.is/frett/2021/12/26/atakanleg-nutimapislarsaga-fra-tsjernobyl  

... árið á enda.