REKSTRARYFIRLIT 2021

JÁKVÆÐ AFKOMA

Samkvæmt rekstrarreikningi og yfirliti um heildarafkomu var hagnaður af rekstri RÚV 45 milljónir króna á árinu 2021. Í árslok námu heildareignir 8.766 milljónum króna. Eigið fé nam 1.968 milljónum króna og eiginfjárhlutfall var 22,5% í árslok 2021. Fjöldi ársverka var 252. Markmið stjórnar hefur verið að rekstur RÚV sé ávallt yfirvegaður og hallalaus. Í lok ársins var einn hluthafi í félaginu eins og við stofnun þess en félagið er í eigu íslenska ríkisins. Stjórn félagsins leggur til að hagnaði verði ráðstafað til hækkunar eigin fjár. Vísað er til ársreikningsins um ráðstöfun hagnaðar og aðrar breytingar á eiginfjárreikningum.

 

Skuldir RÚV hafa um árabil verið háar, m.a. vegna uppgjörs á eldri lífeyrisskuldbindingum. Þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir á undanförnum árum sem hafa leitt til lækkunar skulda, telur stjórn RÚV að félagið sé enn of skuldsett og mun halda áfram að leita varanlegra lausna varðandi skuldsetningu þess.

Hagnaður/tap, regluleg starfsemi: 2015-2021

Þróun eiginfjárhlutfalls: 2015-2021

FRAMTÍÐARHORFUR OG EFNAHAGUR

Fjárhagsleg áhrif COVID-19 voru ekki mikil í rekstri RÚV á árinu. Strax í upphafi faraldursins settu stjórn og stjórnendur af stað viðbragðsáætlun þar sem lögð var áhersla á bæði öryggi starfsmanna og að RÚV gæti sinnt hlutverki sínu sem almannaþjónustumiðill. Þannig var húsnæði RÚV skipt í sóttvarnahólf og það starfsfólk sem hafði tök á að vinna í fjarvinnu gerði það. Með uppskiptingu í sóttvarnahólf fylgdi þörf fyrir fleira starfsfólk vegna tvöfaldra vakta. Vel gekk að verja starfsemi RÚV og tryggja þannig órofinn rekstur þess í samræmi við öryggisáætlanir. Vel var fylgst með þróun innheimtumála en vanskil vegna krafna jukust ekki sem neinu nemur. Þrátt fyrir samkomutakmarkanir gekk starfsemin vel fyrir sig. Stjórnendur telja að áhrif COVID-19 muni ekki hafa veruleg áhrif á rekstur fyrirtækisins til lengri tíma.

 

Á árinu 2021 var áfram lögð áhersla á lykilþætti samkvæmt gildandi stefnu RÚV, þar á meðal á leikið innlent sjónvarpsefni, dagskrárefni fyrir börn og ungt fólk og þróun nýrrar þjónustu og dreifileiða. Mikil áhersla var einnig lögð á upplýsingamiðlun til almennings, miðlun menningarefnis í ljósi samkomutakmarkana, ræktun andlegrar og líkamlegrar heilsu og afþreyingarefni af ýmsum toga. Þá var lögð rík áhersla á fjölbreytileika í öllum miðlum, jafnræði og virka þátttöku og sýnileika allra hópa. Stórt skref var stigið árið 2021 þegar táknmálstúlkun allra aðalfréttatíma sjónvarpsins hófst sem og táknmálstúlkun Krakkafrétta. Aukin upplýsingamiðlun á ensku og pólsku á vef RÚV er einnig liður í þessu verkefni og margt fleira mætti nefna.

RÚV SALA

AUGLÝSINGAR OG KOSTUN

Tekjur RÚV Sölu á rekstrarárinu 2021 af sölu auglýsinga og kostana námu 2.026 m.kr.

 

Eftirtaldir dagskrárliðir voru kostaðir á árinu:

Bikarkeppni í handbolta, Bikarkeppni í körfubolta, Bikarkeppni í blaki, Verbúð, Eurovision og Söngvakeppnin, Hestaíþróttir, HM í handbolta, HM félagsliða, HM og heimsbikarmót í skíðaíþróttum, HM í íshokkí, Íslandsmótið í fimleikum, Íslandsmótið í golfi, Landsleikir í fótbolta, Landsleikir í handbolta, Landsleikir í körfubolta, Ófærð, Ólympíuleikar, Ólympíumót fatlaðra, Reykjavíkurleikarnir, Skólahreysti, Tónaflóð.

 

Eftirtaldir dagskrárliðir voru rofnir með auglýsingahléum á árinu:

Alla leið, Bræðslan, Edduverðlaunin, Eurovision, Vikan með Gísla Marteini, Gettu betur, Klassíkin okkar, kosningasjónvarp, Ólympíuleikar, Ólympíumót fatlaðra, Reykjavíkurleikarnir, Silfrið, Skrekkur, Skólahreysti, Söngvakeppnin, Söngkeppni framhaldsskólanna, Tónaflóð.

 

RÚV sala er dótturfélag RÚV sem heldur utan um sölu auglýsinga og kostana.