Sjónvarpsárið 2021

Framleiðsla RÚV árið 2021

Hvergi var slegið af í framleiðslu vandaðs efnis á RÚV þrátt fyrir sérstakt árferði. Það mátti enda færa rök fyrir því að sérstaklega áríðandi væri að gleðja landsmenn á tímum íþyngjandi samkomureglna og gera þeim kleift að dreifa huganum við sjónvarpið, tölvuna eða snjallsímann. Ógnvænlegar fréttir dundu á fólki um hvert metið á fætur öðru í smittölum og áður óþekkt afbrigði veirunnar. RÚV framleiddi vandað efni þar sem ýmsir góðkunningjar landsmanna komu við sögu og einnig nýtt og áhugavert efni.

Fréttatengt efni

Kastljós hélt áfram að beina sjónum sínum að því sem efst var á baugi hverju sinni í samfélaginu. Einar Þorsteinsson og Sigríður Hagalín stýrðu þættinum sem byggðist á snörpum viðtölum, maður á mann, í beinni útsendingu. Gestum var einnig boðið í myndver til umræðu um málefni líðandi stundar og áhugaverðar sögur.

Kveikur kafaði sem endranær ítarlega ofan í ýmis mál með beittri rannsóknarblaðamennsku. Meðal helstu mála sem vöktu þjóðarathygli eftir umfjöllun teymisins í Kveik voru viðtal Ingólfs Bjarna við Michele Ballarin, eiganda WOW air, umsvif Samherja, ástarsvik á netinu og afleiðingar heilaskaða.

Silfrið er löngu orðinn ómissandi þáttur í þjóðmálaumræðunni og þar héldu þau Egill Helgason og Fanney Birna Jónsdóttir um taumana í vikulegum spegli á atburði liðinnar viku og það sem hæst bar í hinu pólitíska landslagi hverju sinni. Þóra Arnórsdóttir, Baldvin Bergsson og Einar Þorsteinsson tóku einnig við stjórn Silfursins.

Menning og mannlíf

Í Menningunni leituðu þau Bergsteinn Sigurðsson og Guðrún Sóley Gestsdóttir fanga í menningar- og listalífi landsins og sem fyrr létu þau sér ekkert menningartengt óviðkomandi, hvort heldur var á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Hápunkturinn var veglegur þáttur 13. maí 2021, Menningin – Harpa 10 ára, en hann var helgaður tíu ára afmæli Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík. Harpa hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem mikilvægur hlekkur í menningarlífi þjóðarinnar og helsta kennileiti borgarinnar. Rýnt var í menningarleg, efnahagsleg og samfélagsleg áhrif Hörpu og hvaða þýðingu það hefur fyrir þjóðina að eiga slíkt hús.

Landinn hélt áfram að fara landshorna á milli og sækja fólk heim. Í vikulegum þáttum var fjallað um viðfangsefni, áhugamál og ýmiss konar áfanga landsmanna, stóra sem smáa. Landinn átti fylgi að fagna sem fyrr og sannaðist hið fornkveðna: Maður er manns gaman.

Sumarlandinn var líka á flakki í sumar, leitaði uppi áhugaverða viðburði og hitti fólk í sínu náttúrulega umhverfi; uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt þar á milli. Gísli Einarsson fór fyrir Sumarlandanum og honum til halds og trausts voru Guðríður Helgadóttir, Hafsteinn Vilhelmsson, Helga Margrét Höskuldsdóttir, Þórhildur Þorkelsdóttir og fleiri. Tónlistarkonan Soffía Björg Óðinsdóttir taldi í hvenær sem tilefni var til og gætti þess að það vantaði ekki tónlistina í ferðalagið.

Vikan með Gísla Marteini hefur um árabil verið einn vinsælasti þáttur landsins og gladdi áhorfendur áfram á föstudögum. Ekki þótti ástæða til að bylta þættinum milli ára enda tilgangslaust að reyna að finna upp hjólið þegar Gísli Marteinn, Berglind Festival og félagar eru annars vegar.

Okkar á milli var lengst af í umsjá Sigmars Guðmundssonar og fékk hann til sín fjölbreyttan hóp gesta með margvíslegan bakgrunn í einlægt spjall. Sigurlaug Margrét Jónasdóttir, einn þrautreyndasti viðtalstæknir RÚV, tók svo við keflinu og í nýju og glæsilegu setti hefur Okkar á milli siglt seglum þöndum síðan á haustdögum.

Egill Helgason sá sem fyrr um Kiljuna sem er fyrir löngu orðin ómissandi með öllu í lífi bókaþjóðarinnar. Innlendir sem erlendir höfundar litu við og ræddu verk sín og lesendur, útgefendur og aðrir áhugasamir fylgdust spenntir með því sem álitsgjafar þáttarins sögðu um nýútkomnar bækur.

Í annarri þáttaröð af Tónatali tók Matthías Már Magnússon á móti tónlistarfólki sem veitti innsýn í líf sitt og flutti nokkur af vinsælustu lögunum sínum í bland við nýjar ábreiður. Í þáttunum fengu áhorfendur, bæði í myndveri og heima í stofu, að sjá nýjar hliðar á mörgu af áhugaverðasta tónlistarfólki landsins.

Áhersla á að sinna breiðum hópi landsmanna, á öllum aldri, í öllum miðlum, var aukin enn frekar með áframhaldandi innleiðingu á sértækri þjónustu. KrakkaRÚV, þjónusta fyrir börn yngri en sextán ára, hélt áfram göngu sinni með auknu framboði af vönduðu innlendu efni sem gjarnan er skapað af börnum. UngRÚV, þjónusta ætluð krökkum á aldrinum 13-16 ára, hélt áfram að festa sig í sessi með dagskrárgerð sem er mikið til í höndum fólks á þeim aldri. Þá var mikill kraftur í RÚV núll, þjónustu ætlaðri ungu fólki á aldrinum 16-29 ára, drifin áfram af dagskrárgerðarfólki á sama aldri.   

Straumar voru fimm tónlistar- og skemmtiþættir um strauma og stefnur í tónlist og tíðaranda hérlendis og erlendis á síðastliðnum áratugum. Hin og þessi tímabil í popp- og dægurmenningarsögunni voru krufin í tónum og tali þar sem ófáir góðir gestir litu við og lögðu orð í belg. Umsjón með þættinum höfðu Björg Magnúsdóttir og Freyr Eyjólfsson.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hafði sama aðdráttarafl og fyrr, jafnvel meira en oft áður enda var keppninni frestað árið 2020 vegna faraldursins. Þeim ólgandi áhuga gerði RÚV að vanda góð skil. Felix Bergsson, einn af okkar allra reyndustu Eurovision-sérfræðingum, stýrði þáttaröðinni Alla leið þar sem Helga Möller og Sigurður Þorri Gunnarsson voru honum til fulltingis ásamt góðum gestum. Rýnt var í útspil þátttökuþjóðanna að þessu sinni og metið hversu vænlegt hvert og eitt framlag var til árangurs í lokakeppninni sem haldin var í hafnarborginni Rotterdam í Hollandi.

Björg Magnúsdóttir fékk Gísla Martein Baldursson til að vera sér til halds og trausts í þáttunum Rotterdam kallar en þar var fjallað á snarpan og líflegan hátt um það sem var efst á baugi í undirbúningnum fyrir Eurovision, fylgst með stífum æfingum og rætt við áhugaverða keppendur annarra landa.

Í þættinum Kátt í Höllinni voru rifjuð upp fjölmörg eftirminnileg augnablik úr Eurovision-vegferð Íslendinga hin seinni ár, ekki síst allar þær erlendu Eurovision-stjörnur sem hafa komið fram í úrslitum Söngvakeppninnar í Laugardalshöll frá árinu 2016.

Spurt og spriklað

Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, er einn árvissra viðburða í sjónvarpi RÚV og keppnin var æsispennandi og skemmtileg að vanda. Kristjana Arnarsdóttir var spyrill og þáttastjórnandi eins og síðustu ár, allt frá undankeppninni á Rás 2 og til úrslitaþáttarins í sjónvarpinu þar sem Verzlunarskóli Íslands hafði betur gegn Kvennaskólanum í Reykjavík. Jóhann Alfreð Kristinsson og Laufey Haraldsdóttir voru nýir spurningahöfundar og dómarar, og Sævar Helgi Bragason var áfram til aðstoðar á bak við tjöldin. Það fór vel á því að fá Laufeyju í Gettu betur-teymið því hún var fyrst kvenna til að sigra í Gettu betur, árið 2011.

Veturinn 2020-2021 var enn fremur efnt til sýninga á Gettu betur – Stjörnustríð, þar sem þekkt andlit úr sögu þáttanna, spyrlar, spurningahöfundar, stigaverðir og keppendur sneru aftur auk keppnisliða úr óvæntum áttum. Þátturinn var hugsaður á léttu nótunum og fyrst og fremst til gamans en þegar til kastanna kom reyndist glettilega grunnt á gamla keppnisskapinu. Dómarar voru Vilhelm Anton Jónsson og Ingileif Friðriksdóttir og Kristjana Arnarsdóttir var spyrill.

Á svipuðum nótum var Stjörnuhreysti í tveimur þáttum sem var liðakeppni í anda hinna vinsælu þátta Skólahreysti. Hvert keppnislið var skipað tveimur þjóðþekktum Íslendingum og tveimur eftirminnilegum keppendum úr Skólahreysti. Eins og í hefðbundnum Skólahreysti-þætti var markmiðið að fara í gegnum þrautabraut og spreyta sig meðal annars á hreystigreip, upphífingum og armbeygjum.

Kappsmál hélt áfram göngu sinni á árinu. Bragi Valdimar Skúlason og Björg Magnúsdóttir spurðu sem fyrr þjóðþekkta gesti spjörunum úr og lögðu fyrir þá margvíslegar þrautir er lutu að íslenskri tungu, málfæði, stafsetningu og orðanotkun. Þessi heilabrot um málið okkar ástkæra og ylhýra höfðu sama aðdráttarafl og áður og þátturinn er með þeim vinsælustu í sjónvarpinu.

Á pólitíska sviðinu

Kosið var til Alþingis í lok september og öllu var til tjaldað í þáttaröðinni Alþingiskosningar 2021: Leiðtogaumræður, í aðdraganda kosninganna. Starfsfólk fréttastofu RÚV stýrði þáttunum af alkunnri röggsemi og þá var einkar góður rómur gerður að nýrri sviðmynd í myndveri RÚV sem Stefán Finnbogason leikmyndahönnuður hafði veg og vanda af og var smíðuð fyrir leiðtogaumræðurnar.

Jól úti, jól inni, jól í hjarta, jól í sinni

Á aðventunni var mikið um dýrðir í dagskrá Sjónvarpsins og nýtt efni á boðstólum fyrir alla aldurshópa. Tónlistar- og dagskrárgerðarmaðurinn Jón Ólafsson stýrði sex vikulegum spjall- og tónlistarþáttum undir heitinu Jólin koma þar sem landsþekktir tónlistarmenn mættu í myndver, spjölluðu um jólaminningar, jólahefðir og annað tengt jólahátíðinni milli þess sem þeir tóku lagið og sungu inn jólin.

Góðkunningarnir og Hraðfréttabræðurnir Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson sneru aftur í Efstaleitið með tveimur skemmtiþáttum sem hétu því viðeigandi nafni Hraðfréttajól. Þeir kumpánar leituðu víða fanga í þáttunum og tóku hús jafnt á stjórnmálafólki, skemmtikröftum og öðrum þekktum einstaklingum á sinn óborganlega hátt.

Á Jóladag var svo Jólastundin með Ragnhildi Steinunni og Sveppa á dagskrá, jólaþáttur fyrir alla fjölskylduna þar sem með sanni má segja að þjóðinni hafi verið boðið í heimsins skemmtilegasta jólaboð.

 

Loks var Menningarannállinn á dagskrá undir lok ársins þar sem stiklað var á stóru yfir það helsta sem gerðist í menningarlífinu á árinu sem er að líða. Umsjón var að vanda í höndum  Bergsteins Sigurðssonar og Guðrúnar Sóleyjar Gestsdóttur.

Þættir í dagskrá RÚV

Fyrir utan eigin framleiðslu kom RÚV að framleiðslu fjölmargra þátta sem voru í framhaldinu sýndir í dagskrá Sjónvarpsins á árinu sem leið. Kenndi þar ýmissa grasa eins og vant er en segja má að þættirnir hafa átt það sameiginlegt að fjalla með einum eða öðrum hætti um Íslendinga, þekkta sem minna þekkta, sögu þeirra og viðfangsefni í bráð og lengd. Sem dæmi um þann fjölbreytileika sem í boði var má telja til Fyrir alla muni, Dagur í lífi, Hljómskálinn V, Baráttan: 100 ára saga Stúdentaráðs, Með okkar augum, Ísland: Bíóland, Sögufólk framtíðarinnar, Soð í Dýrafirði, Já eða nei, Hvað getum við gert? og Hringfarinn: Þvert yfir Ameríku.

Viðburðir og beinar útsendingar

Þá er ótalið ýmislegt áhugavert sem Íslendingar fengust við á síðasta ári og RÚV kaus að gera skil í rauntíma með því að bjóða upp með beinni útsendingu. Þar gaf að líta verðlaunaafhendingar (Gríman, Íslensku bókmenntaverðlaunin, Eddan 2021, Íslensku menntaverðlaunin), æsku landsins að láta að sér kveða með ýmsum hætti (Skrekkur, Skólahreysti, Söngkeppni Samfés, Sögur – verðlaunahátíð barnanna) og þjóðina eiga hátíðlega stund saman (Hátíðarstund á Austurvelli 17. júní, Hátíðarmessa biskups Íslands á jóladag).

Annað árið í röð reyndist ekki hægt að halda gleðigönguna, hápunkt hinna árlegu Hinsegin daga, vegna samkomutakmarkana sem voru í gildi vegna heimsfaraldursins. RÚV tók til sinna ráða og sýndi í ágústbyrjun frá Hátíðardagskrá Hinsegin daga til að minna á hinseginleikann og fegurðina í fjölbreytninni. Fram komu þau Lay Low, Kita, Hörður Torfa, Götuleikhúsið, Gertrude and the Flowers, Kristjana Stefáns og djasshljómsveit, Dragdrottningin Heklina og loks Bassi Maraj sem flutti nýja lagið fyrir Hinsegin daga 2021. Kynnar kvöldsins voru þau Felix Bergsson og Ugla Stefanía Kristjönudóttir.

Íslenskar kvikmyndir

RÚV lagði áherslu á fjölbreytt úrval íslenskra kvikmynda, nú sem endranær. Þar var sannarlega eitthvað fyrir alla á boðstólum enda af nægu að taka. Barnaefni (Ikingut, Regína, Algjör Sveppi og Gói bjarga málunum, Víti í Vestmannaeyjum), gamanmyndir (Sódóma Reykjavík, Með allt á hreinu, Veggfóður, Hrútar), spennumyndir (Borgríki 2, Mýrin, Ég man þig), drama (Tár úr steini, Hrafninn flýgur, Vonarstræti, Fúsi, Skytturnar, Brim, Agnes Joy) og allra handa myndir sem endurspegla íslenska þjóðarsál, hver með sínum hætti (101 Reykjavík, Nói Albinói, Kaldaljós, Kona fer í stríð, Land og synir, Hross í oss) og er þá aðeins fátt upp talið af þeim rúmlega 70 íslensku kvikmyndum sem voru sýndar í Sjónvarpinu á síðasta ári. Fór vel á þessari áherslu á íslenskar kvikmyndir meðfram sýningum á Ísland: Bíóland, heimildaþáttaröð um íslenska kvikmyndagerð sem nefnd var hér að framan.

Íslenskar heimildarmyndir

Um auðugan garð var að gresja í flokki íslenskra heimildarmynda í dagskrá RÚV á árinu 2021. Um sumarmánuðina var þétt dagskrá íslenskra heimildarmynda undir yfirskriftinni Heimildarmyndasumar á RÚV og í spilara. Lögð var áhersla að fara vítt yfir sviðið í tíma, rúmi og aldri viðfangsefna. Meðal íslenskra heimildarmynda sem sýndar voru á árinu voru Alla baddarí fransí biskví; Húsmæðraskólinn; Stóra myndin: COVID og heimsbyggðin; Trúbrot: Lifun: Guðni á trukknum; Ef heilinn fær slag; Aðgengi fyrir alla (Sjálfsbjörg 60 ára); Guðríður hin víðförla; Hvernig Titanic varð björgunarbáturinn minn; 690 Vopnafjörður; Lesblinda og Björgunarafrekið við Látrabjarg.

Erlendar heimildamyndir

David Attenborough átti enn og aftur stóran þátt í að færa áhorfendum það besta sem framleitt er af heimildaefni í samstarfi við BBC í þáttum á borð við Fullkomin pláneta (Perfect Planet), Undur eggjanna (Wonders of Eggs), Vegferð Attenboroughs (Attenboroughs Journey) og Útrýmingarhætta í nátturunni  (Extinction: The Facts).  Í þriggja þátta röð sem nefnist Greta Thunberg: Ár til að breyta heiminum (Greta Thunberg: A Year to Change the World) fylgdumst við með heilu ári í lífi Gretu Thunberg á ferð um heiminn til að vekja athygli á neyðarástandinu sem hefur skapast í loftslagsmálum.

Aðrir áhugaverðir heimildarþættir voru á dagskrá RÚV svo sem  Vísindaskáldskapur í kvikmyndum (James Cameron’s Story of Science Fiction), Saga hryllingsmynda (Eli roth’s History of Horror), Murdoch-veldið (The Rise of the Murdoch Dynasty) og Þrælahald nútímans (Why Slavery).

Leiknir íslenskir þættir

Þótt reynt hafi verið að dreifa huga landsmanna í heimsfaraldri varð ekki hjá því komist að taka mið af tíðarandanum og skoða spaugileg áhrif sóttkvíar á venjulegt fólk. Sóttkví er heitið á stuttri sjónvarpsmynd sem sýnd var á árinu og gerist í Reykjavík í mars 2020, í fyrstu bylgju COVID-19. Vinkonurnar Lóa, Hekla og Fjóla lenda í tveggja vikna sóttkví og sækja styrk og félagsskap hver til annarrar með reglulegum fjarfundum á meðan. Auk innilokunarinnar er hver og ein að fást við flóknar og á tíðum skoplegar aðstæður í einkalífi sínu sem magnast upp við einangrun og álag sóttkvíarinnar.

Á haustdögum var komið að þriðju þáttaröð af Ófærð. Fyrri seríurnar tvær voru með allra vinsælasta sjónvarpsefni þegar þær voru sýndar í sjónvarpi allra landsmanna. Þriðja þáttaröðin var enginn eftirbátur þeirra í vinsældum og jafnan horfðu rök 30% landsmanna á þættina. Það var líka á vísan að róa því Ólafur Darri Ólafsson og Ilmur Kristjánsdóttir fóru sem fyrr með burðarhlutverkin sem lögreglumennirnir Andri og Hinrika. Í leikhópinn bættust ekki minni kanónur en Egill Ólafsson, Margrét Vilhjálmsdóttir og danski stórleikarinn Thomas Bo Larsen, svo fáeinir séu nefndir. Meðfram sýningum á Ófærð 3 voru þáttaraðir 1 og 2 aðgengilegar í spilaranum.

Leikið efni og samstarf norrænna stöðva

Leikið erlent efni hélt sínu striki á árinu og samstarf norrænna sjónvarpsstöðva hélt áfram undir merkjum N12. Hlutfall leikins norræns efnis í dagskrá RÚV jókst um 16% frá árinu áður. Frumsýningar á leiknum norrænum þáttaröðum í spilara RÚV færðust einnig í aukana. Má þar nefna þættina Um Atlantsála  (Atlantic Crossing), Sáttasemjarinn (Peacemaker), Úlfur, Úlfur (Ulven kommer) og síðast en ekki síst Exit 2.

Lítil þúfa (Small Axe) frá BBC í leikstjórn Steves McQueen vakti töluverða athygli. Þar var sjónum beint að innflytjendum af karabískum uppruna í London á áttunda áratugnum og sigrum þeirra í skugga misréttis og rasisma.

Sjötta þáttaröð Skylduverka (Line of Duty) var frumsýnd rétt eftir frumsýningu í Bretlandi. Hennar var lengi beðið og hún olli dyggum aðdáendum ekki vonbrigðum. Endurgerð þáttanna Dýrin mín stór og smá (All Creatures Great and Small) leit dagsins ljós og vakti mikla kátínu.

Leiknir þættir byggðir á skáldsögum voru áberandi í dagskránni svo sem Við (Us), sem er byggð á metsölubók eftir David Nicholls; Ógn og skelfing (The Terror), byggt á samnefndri bók eftir Dan Simmons og Skuggaleg skógarferð (Picnic at Hanging Rock) sem er byggt á samnefndri bók eftir Joan Lindsay.

Verbúðin

Á öðrum degi jóla var brotið blað í íslenskri sjónvarpssögu þegar sýndur var fyrsti þátturinn í sjónvarpsþáttaröð sem átti eftir að setja íslensku þjóðina á hliðina, ef ekki á hvolf. Verbúðin kom, sá og sigraði, greip landsmenn heljartaki strax í fyrsta þætti og sleppti ekki heldur herti bara tökin eftir því sem leið á þættina, sem voru átta talsins. Hafi einhver efast um að landsmenn hefðu áhuga á að horfa á sjónvarpsþætti um tilurð kvótakerfisins á Íslandi með lítið sjávarpláss á Vestfjörðum sem sögusvið þá var þeim efa eytt strax á fyrstu mínútum fyrsta þáttar. Leikhópurinn Vesturport skrifaði og lék helstu hlutverk í mergjaðri sögu sem vakti þjóðina rækilega til umhugsunar um stjórnun fiskveiðiheimilda hér við land og lífið á verbúð á níunda áratugnum. Ótal skírskotanir til raunverulegs fólks og atburða vöktu ómælda gleði áhorfenda um leið og sögð var dramatísk örlagasaga sem á sér fjölmargar hliðstæður í raunveruleikanum. Þá var nostalgíutaugin kitluð án afláts með skemmtilegum tilvísunum í áratuginn sem er vettvangur þáttanna, þ.e. 1983-1991. Segja má að þjóðin hafi sameinast í línulegri dagskrá yfir Verbúðinni.

Ekki var nóg með að hver þáttur yrði eitt helsta umræðuefnið við kaffivélar vinnustaða landsins hvern mánudagsmorgun heldur skópust líflegar og jákvæðar umræður á samfélagsmiðlum strax á meðan á sýningu hvers þáttar stóð. Verbúðin rataði ítrekað í dagblaðagreinar sem og ræðustól Alþingis milli þátta og svo vildi til að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi létu gera íburðarmikla ímyndarauglýsingu til að minna landsmenn á mikilvægi þeirra sem eru núverandi handhafar úthlutaðs kvóta á Íslandsmiðum og um leið á mikilvægi kvótakerfisins í heild. Þáttaröðin reyndist þegar upp var staðið eitt allra vinsælasta sjónvarpsefni ársins. Ljóst er að Verbúðin skemmti ekki bara landsmönnum í bráð heldur vakti þá til umhugsunar í lengd. Þeir hrópuðu nánast einum rómi á framhald og framtíðin leiðir í ljós hvað gerist í þeim efnum og hvenær.

Tímamót og sögulegir viðburðir

Áramótaskaupið 2021 endurspeglaði að vanda árið sem leið og dró skiljanlega talsverðan dám af heimsfaraldrinum með gríni þar sem samkomutakmarkanir, spritt, bóluefni og fleira honum tengt kom við sögu. Framleiðslan var í höndum Republik og höfundar skaupsins að þessu sinni voru Bergur Ebbi, Gagga Jónsdóttir, Hugleikur Dagsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Lóa Hjálmtýsdóttir og Vilhelm Neto. Leikstjóri var Reynir Lyngdal.

Tónar og tal um land allt

Á liðnu ári gerði RÚV tónlistinni góð skil svo sem vant er og þótt sígild tónlist hafi á margan hátt verið í öndvegi fékk seinni tíma hryntónlist sinn sess í bland þegar sýnt var frá tónleikum hvers konar.

Tónlistardagskráin hófst strax á nýársdag þegar Víkingur og Glass var á dagskrá, í senn viðtalsþáttur og tónleikar. Þar ræddi Víkingur Heiðar Ólafsson um og lék lög eftir tónskáldið Philip Glass, víðsvegar um tónlistarhúsið Hörpu.

Þá sýndi RÚV upptöku frá tónleikum hljómsveitarinnar Ljótu hálfvitanna á Græna hattinum á Akureyri árið 2019. Ljótu hálfvitarnir gera óspart grín að sjálfum sér og eiga dyggan stuðningshóp sem er ófeiminn við að syngja með og taka þátt í glensinu.

Tónaflóð um landið hóf göngu sína í júlí. Þessir þættir voru sumartónleikar RÚV og Rásar 2 í beinni útsendingu frá öllum landshlutum á föstudögum og áhersla var lögð á þekkta íslenska tónlist. Á hverjum stað héldu þjóðþekktir gestasöngvarar uppi fjörinu ásamt húsbandinu Albatross. Leikin voru lög og spjallað við áhorfendur í sal þess á milli.

Fjörið hófst í Vestmannaeyjum þar sem flytjendur voru bræðurnir Jón og Friðrik Dór Jónssynir, Jóhanna Guðrún og Dísa Jakobsdóttir. Í öðrum þætti var farið til Hafnar í Hornafirði og flytjendur voru Salka Sól, Prins Póló, Elísabet Ormslev og Stefanía Svavars. Þriðji þátturinn fór fram á Akureyri þar sem Guðrún Árný, Aron Can, Ágústa Eva og Magni léku við hlustir viðstaddra og áhorfenda heima í stofu um allt land. Lokaþátturinn var tekinn upp á Bíldudal og um sönginn í það skiptið sáu Ragga Gísla, GDRN, Emmsjé Gauti og Laddi.

Menningarnótt

Á Menningarnótt tóku RÚV og Harpa saman höndum í Tónaflóði í Hörpu sem var vegleg tónlistarveisla í beinni útsendingu. Flytjendur voru Bubbi Morthens, Bríet, Aron Can og Ragga Gísla og kynnar kvöldsins voru Baldvin Þór Bergsson og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir.

Til að fagna 50 ára afmæli einnar nafntoguðustu og dáðustu hljómplötu Íslandssögunnar, Lifunar með hljómsveitinni Trúbroti, sýndi RÚV tónlistarþáttinn Lifun – hlustun með Magga Kjartans og Gunna Þórðar. Jón Ólafsson, tónlistar- og dagskrárgerðarmaður, hlustaði á plötuna með tveimur Gunnari Þórðarsyni og Magnúsi Kjartanssyni, liðsmönnum Trúbrots og þeir veittu áhorfendum innsýn í tilurð laganna jafnóðum og þau voru flutt.

Platana var líka til umfjöllunar í þættinum Trúbrot: Lifun sem einnig var í umsjá Jóns Ólafssonar. Í þættinum var rætt við Gunnar Þórðarson og Magnús Kjartanson og ýmsa álitsgjafa um plötuna, lögin og áhrif hennar á íslenskt tónlistarlíf.

Græna röðin með Sinfó var yfirskriftin á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem sýndir voru í beinni útsendingu frá Hörpu í októberbyrjun. Á efnisskránni var fyrri hornkonsert Richards Strauss, píanókonsert Nr. 2 eftir Sjostakovítjs, og loks tónaljóðið Don Juan, einnig eftir Richard Strauss. Kynnir kvöldsins var Halla Oddný Magnúsdóttir.

Í nóvember var Björk: Orkestral, í beinni útsendingu frá lokatónleikum Orkestral-tónleikaraðar Bjarkar Guðmundsdóttur í Hörpu. Þar kom hún fram ásamt strengjasveit úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og flutt voru lög af plötunum Homogenic og Vulnicura.

Lokahnykkurinn í tónlistarviðburðum RÚV á árinu 2021 var Mozart á miðnætti, samstarfsverkefni Óperukórsins í Reykjavík og RÚV í beinni útsendingu frá minningartónleikum Óperukórsins í Reykjavík sem haldnir voru í Langholtskirkju. Óperukórinn hefur um árabil haldið tónleika á dánarstund Wolfangs Amadeusar Mozarts sem dó rétt eftir miðnætti 5. desember 1791. Í þetta sinn fengu áhorfendur RÚV að fylgjast með og á efnisskránni var Requiem, sálumessa Mozarts.

Sviðslistir á skjám landsmanna

Sjónvarpið sýndi sjónvarpsgerð Ormstungu ástarsögu sem er tvíleikur í tveimur þáttum. Verkið er byggt á Gunnlaugs sögu ormstungu og má lýsa því sem blóðugum harmleik þar sem tvinnast saman ofbeldi, ást og vísnagerð. Þar er rakin saga skáldsins Gunnlaugs ormstungu frá Hvítársíðu, Helgu fögru úr Borgarnesi og Hrafns Önundarsonar úr Mosfellssveit. Höfundar og leikarar eru Halldóra Geirharðsdóttir og Benedikt Erlingsson.

Fyrir yngri áhorfendur bauð RÚV upp á leikritið Mamma klikk! Það var upptaka úr Gaflaraleikhúsinu á leikriti sem byggt er á bók Gunnars Helgasonar og fjallar um Stellu, 12 ára, sem á snarklikkaða mömmu. Eftir sérstaklega vandræðalega uppákomu ákveður Stella að nú sé nóg komið og setur í gang áætlun til að gera mömmu sína venjulega. Á ýmsu gengur og margir koma við sögu eins og bræður hennar, Siggi og Palli, pabbi hennar prófessorinn, Hanni granni og auðvitað Amma snobb. Leikstjórn og leikgerð var í höndum Bjarkar Jakobsdóttir.

Fyrsta íslenska költmyndin

Í mars sýndi RÚV stuttmyndina Ágirnd frá 1955. Hún er 35 mínútna kvikmynd án orða sem byggist á látbragðsleiknum Hálsfestinni eftir Svölu Hannesdóttur. Svala lék í myndinni og leikstýrði henni og varð þar með fyrsta konan til að leikstýra kvikmynd á Íslandi. Óskar Gíslason, frumkvöðull í kvikmyndagerð á Íslandi, framleiddi og kvikmyndaði. Ágirnd fékk óblíðar móttökur á sínum tíma því lögreglustjórinn í Reykjavík stöðvaði sýningar á henni að beiðni biskups. Þegar banninu hafði verið aflétt var aðsóknin dræm. Myndin hefur í áranna rás öðlast stöðu költmyndar, líklega einna fyrst íslenskra kvikmynda. Sess hennar er því mikilvægur í kvikmyndasögunni eins og kemur fram í Ísland: Bíóland, nýrri heimildarþáttaröð Ásgríms Sverrissonar um íslenska kvikmyndasögu sem einnig var sýnd á RÚV á árinu.

Bíómyndir og Þema

Fjölskyldubíó, bíóást og alþjóðlegir bíódagar hafa fest sig í sessi hjá áhorfendum þar sem boðið hefur verið upp á úrval verðlaunamynda, klassískra Hollywood mynda og sígildra fjölskyldumynda á borð kvikmyndirnar um Emil í Kattholti byggðar á bókum Astrid Lindgren, og á sama tíma hafa aðgengilegar fleirri kvikmyndir byggðar á sögum Astrid Lindgren í Spilara RÚV, vakti þetta einstaka ánægju áhorfenda RÚV á öllum aldri.

Eurovision: Frá Skjálfanda til Skotlands (Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga sem framleidd er af Netflix var sýnd á RÚV í tengslum við úrslitin í  Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva þar sem sterk Íslandstenging lék stórt hlutverk.  Óskarsverðlaunin voru einnig sýnd á RÚV og fylgdust margir spenntir með þegar lagið Husavik- My Hometown úr fyrrnefndri kvikmynd barðist um óskarinn fyrir besta lag í kvikmynd sem og stuttmyndin Já-fólkið eftir Gísla Darra Halldórsson sem keppti um bestu stuttmyndina.

Rás 1

Menning og meira – fyrir forvitna

Rás 1 heldur styrk sínum – æ meiri áhersla á ólínulegt efni

Á undanförnum átta árum hafa verið gerðar talsverðar breytingar á jafnt innra sem ytra starfi Rásar 1. Í innra starfi hefur verið lögð höfuðáhersla á virkt samtal milli starfsfólks. Faglegar kröfur og meginlínur í dagskrá eru skýrar en áhersla er á að margar og fjölbreyttar raddir komi að því að ræða áherslur í daglegu starfi Rásar 1 jafnt og um lengri tíma sýn. Fundamenning var áður afar lítil á Rás 1 en nú eru haldnir daglegir fundir um verkefni starfsfólks, stuttir og markvissir fundir sem gera það að verkum að starfsfólk er allt upplýst og getur tekið þátt í að móta efni og efnistök hjá hvert öðru, og sömuleiðis haft áhrif á annað sem er að gerast á vinnustaðnum. Þetta hefur þétt starfsmannahópinn, aukið samstarf innan hans og styrkt dagskrárgerðina. Í ytra starfi eða því starfi sem snýr að dagskrá Rásar 1 hafa sömuleiðis orðið miklar breytingar á þessum árum sem meðal annars endurspeglast í því að hlustun undanfarin ár hefur verið fjórðungi og allt að þriðjungi meiri en árið 2014. Má tala um endurnýjun dagskrár Rásar 1 og sömuleiðis útvarpsþáttagerðar og endurnýjað erindi Rásar 1 í íslenskri fjölmiðlaflóru. Áhugi  á því að starfa á Rás 1 (sérstaklega meðal ungs fólks) hefur aukist verulega (tæplega 200 umsóknir bárust um síðasta starf sem auglýst var), starfsmannahópurinn hefur enda endurnýjast að stórum hluta og fjöldi nýrra þátta hefur bæst á dagskrá rásarinnar, svo sem Í ljósi sögunnar, Lestin, Mannlegi þátturinnMorgunvaktin, Bók vikunnar, Heimskviður og Hádegið. Sömuleiðis hefur framleiðsla á vönduðum heimildaþáttaröðum aukist verulega og markvisst en þær eru meðal annars og í síauknum mæli hugsaðar með ólínulegan flutning í huga.

Hlaðvarpsritstjórn

Stofnun hlaðvarpsritstjórnar RÚV var í undirbúningi allt árið 2021. Vinnuhópur greindi hlaðvarpsmarkaðinn og setti fram tillögur að því hvar RÚV ætti að staðsetja sig á þeim markaði hérlendis og hvernig hlaðvörp ætti að leggja áherslu á. Ljóst var að Rás 1 hafði þegar markað sér stöðu á markaðnum með gerð þáttaraða um sérhæfð efni þar sem mikil áhersla er lögð á ítarlega heimildavinnu og vandaða hljóðvinnu. Ákveðið var að halda áfram á þeirri braut auk þess að framleiða áfram sértækar þáttaraðir um viðburði af ýmsu tagi svo sem kosningar, Söngvakeppnina og sjónvarpsþáttaraðir á borð við Verbúð og Ófærð.  Undir lok árs var gengið frá ráðningu ritstjóra hlaðvarpsritstjórnar RÚV og tók Anna Marsibil Clausen við starfinu í byrjun árs 2022. Með þessu styrkist mjög framboð RÚV á ólínulegu hljóðefni enda ljóst að hlustun færist í æ ríkari mæli þangað.

Dagskrá

Árið 2021 voru ekki miklar breytingar gerðar á dagskrárramma Rásar 1 enda hefur hlustun aukist mikið með núverandi dagskrá. Gott jafnvægi er í dagskránni milli fréttatengds efnis, samfélagslegra þátta og menningarþátta. Í daglegri dagskrá hefur verið miðað að því að hafa efni sem höfðar til breiðs hóps hlustenda. Samfélagslegri og fréttatengdri umræðu er sinnt í daglegum þáttum á borð við Morgunvaktina, Mannlega þáttinn, Hádegið, Samfélagið og Spegilinn. Menningarlegu efni er sinnt í Víðsjá, Lestinni, Lestarklefanum, Á tónsviðinu, Orðum um bækur, Flakki, sem nú heldur úti sérhæfðari ummræðu um byggingarlist en áður, og fleiri þáttum. Mannlífstengt efni er í Segðu mér, Gestaboði og Mannlega þættinum svo dæmi séu nefnd. Þótt finna megi efni tengt landsbyggðinni í flestum föstu þáttunum er þeim sérstaklega sinnt í Sögum af landi. Um helgar voru fleiri sértækir þættir svo sem Tónlist frá a-ö, Frjálsar hendur, Svona er þetta og Úr tónlistarlífinu þar sem heyra má nýjar upptökur úr íslensku tónlistarlífi. Niðurskurður á fjármagni vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á auglýsingatekjur RÚV hafði mikil áhrif á dagskrár Rásar 1 og leiddi til þess að endurtekningum fjölgaði talsvert á árinu með miður góðum áhrifum á dagskrána. Hlustun minnkaði um mitt ár en í lok árs var hafði tekist að ná henni að miklu leyti í fyrra horf.

Hlaðvarpið

Sem fyrr átti Rás 1 iðulega nokkur af vinsælustu hlaðvörpum landsins í hverri viku. Þáttur Veru Illugadóttur, Í ljósi sögunnar, hefur reyndar verið vinsælasta hlaðvarp landsins síðustu sex ár. Heimskviður juku vinsældir sínar á árinu og meðal annarra  útvarpsþátta sem hafa gert það gott á árinu, bæði í línulegri dagskrá og ólínulegri, má nefna Hádegið í umsjá Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur; Segðu mér í umsjá Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur og Frjálsar hendur í umsjá Illuga Jökulssonar. Allir þessir þættir eru dæmi um dagskrárgerð sem sérstaklega er hugsuð með ólínulega hlustun í huga. Þeir eru sértækir að efni og byggjast margir á spennandi og fjölbreyttri hljóðmynd. Hið sama má segja um ýmsar þáttaraðir sem framleiddar voru á árinu svo sem Loftslagsdæmið eftir Arnhildi Hálfdanardóttur, sem hlaut íslensku blaðamannaverðlaunin; þriðju þáttaröð Önnu Marsibiljar Clausen um Ástarsögur; Hryggsúluna eftir Önnu Gyðu Sigurgísladóttur; Orðin sem við skiljum ekki eftir Andra Snæ Magnason og Þorvald S. Helgason með tónlist eftir Högna Egilsson; Fólkið í Garðinum eftir Þorgerði Ásu Aðalsteinsdóttur; Í ljósi krakkasögunnar eftir Ingibjörgu Fríðu Helgadóttur í samvinnu við Veru Illugadóttur og Kventónskáld eftir Árna Heimi Ingólfsson.

Hátíðardagskrá

Mikil og markviss vinna var lögð í að gera hátíðardagskrá Rásar 1 sem veglegasta enda gegnir hún sjaldan jafn stóru hlutverki í lífi landsmanna og um hátíðir. Hlustun á Rás 1 er sjaldan meiri en um páska og jól. Gætt hefur verið að því að gera hátíðarþætti aðgengilega í spilara og hlaðvarpi RÚV. Hátíðardagskráin hefur undanfarin ár markast sífellt meira af framleiðslu heimildarþáttaraða sem henta vel til ólínulegrar hlustunar.

Barnaefni

Boðið var upp á fjóra þætti í viku fyrir börn og fjölskyldur í umsjá starfsfólks KrakkaRÚV. Þetta eru þættirnir Krakkakiljan, Krakkakastið, Hlustaðu nú og Hljómboxið, spurningaþáttur fyrir alla fjölskylduna. Á undanförnum árum hefur æ meiri áhersla verið lögð á að búa til efni fyrir börn og fjölskyldur sem hentar sérstaklega til ólínulegrar hlustunar og sérstaklega í bílferðum. Um sumarmánuðina var boðið upp á fyrrnefnda þáttaröð um Í ljósi krakkasögunnar með þetta að leiðarljósi.

Heimsfaraldur

Annað árið í röð hafði heimsfaraldur COVID-hafði mikil áhrif á vinnu dagskrárgerðarfólks á Rás 1  sem sinnti dagskrárgerðarfólk vinnu sinni heima að stórum hluta enda mikil áhersla lögð á að starfsfólk smitaðist ekki. Sem fyrr reyndi þetta verulega á útsjónarsemi við að taka viðtöl, taka upp efni í miklum hljómgæðum utan stúdíóa, setja saman þætti í fjarvinnu og svo framvegis. Dagskrárgerðarfólk sýndi mikla þrautseigju og útsjónarsemi við þessar aðstæður og sá til þess, ásamt tæknifólki og fleirum, að hlustendur fengju fyrsta flokks útvarpsefni til að hlusta á í faraldrinum. Þrátt fyrir ýmsar áskoranir hafði faraldurinn ekki teljandi áhrif á dagskrá Rásar 1 á árinu.

 

Útvarpsmaður kveður

Leifur Hauksson, dagskrárgerðarmaður, lét af störfum á árinu eftir um fjörutíu ára feril á RÚV. Leifur sinnti dagskrárgerð á Rás 1 síðustu árin og var maðurinn á bak við einn af vinsælustu þáttum Rásarinnar, Samfélagið, ásamt Þórhildi Ólafsdóttur. Þar sérhæfði hann sig í umfjöllun um umhverfis- og loftslagsmál og ýmis efni sem snúa að vísindum.  Leifur lést 22. apríl 2022.

Útvarpsleikhúsið 

Útvarpsleikhúsið framleiðir útvarpsleikrit og heimildaverk þar sem notast er við vinnuaðferðir sviðlista með einhverjum hætti. Á árinu 2021 voru frumflutt sjö verk, stök verk, framhaldsverk og heimildaseríur. Má þar nefna Vorar skuldir, framhaldsleikrit í fjórum hlutum eftir leikhópinn Kriðpleir sem flutt var um páska og heimildaleikhúsverkið Kartöflur: Flysjaðar eftir leikhópinn CGFC. Flutt voru þrjú verk eftir ung leikskáld, Kolfinnu Nikulásdóttir, Birni Jón Sigurðsson og Adolf Smára Unnarsson í samvinnu við útskriftarárgang leikarabrautar Listaháskóla Íslands. Einnig má nefna verkið Wesele! sem unnið var í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík, listamennina Alexander Roberts, Ásrúnu Magnúsdóttir og Wiolu Ujazdowska sem og níu fjölskyldur af ýmsum þjóðernum sem búa á Íslandi. Framhaldsleikritið Með tík á heiði eftir Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur hlaut Grímuverðlaunin í flokki útvarpsverka og var verkið jafnframt tilnefnt til Prix Europa verðlaunanna.

Tónlistin mikilvæg

Tónlist er mikilvægur hluti af dagskrá Rásar 1 og kemur við sögu í mörgum dagskrárliðum rásarinnar. Á árinu 2021 voru á dagskrá Rásar 1 tónlistarþættir, þar sem kynnt var tónlist af ýmsu tagi, nýjar tónleikahljóðritanir, bæði innlendar og erlendar og hljóðrit gerð sérstaklega fyrir Ríkisútvarpið, bæði ný og úr safni.

Einn mikilvægasti liðurinn í tónlistardagskrá Rásar 1 er hljóðritun á tónlist. Með beinum útsendingum frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og útsendingum frá ýmsum tónlistarhátíðum og öðrum tónleikum gegnir Rás 1 lykilhlutverki í miðlun tónlistar til allra landsmanna. Auk Sinfóníuhljómsveitarinnar var Rás 1 í samstarfi um hljóðritanir við Íslensku óperuna, Stórsveit Reykjavíkur, Reykholtshátíð, Sönghátíð í Hafnarborg og Sumartónleika í Skálholti. Enn fremur má nefna tónleika úr Tíbrárröð Salarins í Kópavogi, tónleikaröð Hörpu, Sígildum sunnudögum, og tónleikahljóðritanir frá Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði.

Eins og gefur að skilja höfðu samkomutakmarkanir vegna COVID-19 mikil áhrif á tónleikahald ársins og fjölmörgum tónleikum og hátíðum sem fyrirhugað var að hljóðrita var ýmist frestað eða þeim aflýst. Það var ekki fyrr en seint á haustmánuðum sem tónlistarlífið fór að komast nokkurn veginn í fyrra horf.

Tónleikar

Af þeim tónleikum sem hljóðritaðir voru á árinu má nefna Kúnstpásur og Söngskemmtanir Íslensku óperunnar; kammeróperu Hildigunnar Rúnarsdóttur, Traversing the Void, sem flutt var í Hörpu í febrúar á vegum Kammermúsíkklúbbsins; einleikstónleika Víkings Heiðars Ólafssonar í Hörpu; flutning Jóhanns Kristinssonar barítónsöngvara og píanóleikarans Ammiels Bushakevitz á Vetrarferð Schuberts og söngvum eftir Mahler; tónleika Strokkvartettsins Sigga í Salnum í maí þar sem frumfluttir voru fjórir nýjir íslenskir strengjakvartettar; Jóhannesarpassíu Bachs með Kór Langholtskirkju sem útvarpað var í páskadagskrá og Jólaóratoríuna með Mótettukórnum sem útvarpað var á jóladagskvöld. Aldarafmælis þriggja merkra tónhöfunda var minnst á þrennum tónleikum í mars; Kordo kvartettinn og bandoneon-leikarinn Olivier Manoury héldu tónleika til heiðurs argentínska tónskáldinu Astor Piazzolla í Tíbrár-röð Salarins; Stórsveit Reykjavíkur heiðraði sveiflumeistarann og söngdansahöfundinn Jón Múla Árnason með glæsilegum tónleikum í Eldborg og Sigríður Beinteinsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir og Jógvan Hansen fluttu þekktar perlur úr lagasafni Sigfúsar Halldórssonar á tónleikum sem útvarpað var 17. júní.

Ungt tónlistarfólk

Ungt tónlistarfólk var í forgrunni í þremur stúdíóhljóðritunum sem gerðar voru fyrir Rás 1 á árinu. Hin þrettán ára gamla Ásta Dóra Finnsdóttir lék tilbrigði eftir Rakhmanínov í hljóðritun sem útvarpað var á nýársdag; sópransöngkonan Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, þá nýútnefnd söngkona ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum, flutti sönglagadagskrá ásamt píanóleikaranum Kunal Lahiry á uppstigningardag og sellóleikarinn Steiney Sigurðardóttir, sem valin var bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021, lék barokktónlist í aðdraganda jóla á aðfangadag.

Rás 2

Vinsælasta útvarpsstöð landsins

Segja má að starfsemi Rásar 2 árið 2021 hafi mótast af sömu þáttum og árið áður – náttúruvá og covid. Hlustun var með mesta móti enda allt kapp lagt á að nauðsynlegar upplýsingar kæmust til skila í rauntíma. Stóra áskorunin var að sinna áfram öðru hlutverki Rásar 2 sem er miðlun á íslenskri tónlist. Markmið stöðvarinnar er að íslensk tónlist sé um helmingur allrar tónlistar sem flutt er á stöðinni en hlutfallið var enn hærra þetta ár. Markvissar aðgerðir hafa einnig aukið hlustun verulega í hópi 18-29 ára sem leggur grunn að framtíðarhlustendum stöðvarinnar.

Þjóðin treystir Rás 2 þegar mikið liggur við

Miðlun upplýsinga um covid faraldurinn var veigamikill þáttur í starfi Rásar 2 2021 líkt og árinu áður. Blaðamannafundir þríeykisins voru sendir út í beinni auk þess sem útsending var rofin ef koma þurfti að mikilvægum fréttum. Allir þættir Rásar 2 taka þátt í þessari vinnu, hvort heldur sem er fréttatengdir dægurmálaþættir, tónlistarþættir í dagdagskrá eða léttir helgarþættir. Það var þó ekki aðeins Covid sem setti óvenjulegan svip á árið því eldgosið í Geldingadölum fékk einnig pláss. Þannig var bein útsending fram eftir nóttu þegar gosið hófst og hlustendur hringdu inn með upplýsingar, meðal annars frá Reykjanesbraut þar sem fjöldi bíla sat fastur. Þetta sýnir kosti útvarps eins og Rás 2 þegar bregðast þarf hratt við og miðla upplýsingum til almennings fljótt og örugglega.

Mikil hlustun var á Rás 2 árið 2021, fréttahlustun var í hæstu hæðum en þar fyrir utan var mikil hlustun á aðra dagskrá. Greinilegt er að bæði hefur áherslubreyting í dagskrá skilað aukinni hlustun eins og kom í ljós árið 2019, auk þess sem upplýsingamiðlun utan frétta hefur fallið í kramið.

Breytt skipulag vegna fjarvinnu

Fjölmiðlar um allan heim þurftu að takast á við nýjar áskoranir sem tengdust fjarvinnu, sóttvarnarráðstöfunum og brottfalli starfsfólks vegna sóttkvíar. Áfram var unnið með áætlanir til að tryggja órofna útsendingu Rásar 2. Í verstu bylgjunum var starfsfólk látið vinna heima eins og kostur var auk þess sem gestakomur í stúdíó voru stöðvaðar.

Hlustun með mesta móti

Hlustun á Rás 2 hefur haldist mikil síðustu 2 ár og meira var hlustað á Rás 2 en nokkra aðra útvarpsstöð á landinu. Auk þess hefur hlustun aukist mikið meðal hlustenda undir þrítugu. Auðvitað er ekki hægt að líta framhjá því að alvarlegt ástand í þjóðfélaginu beinir fólki að stöðinni. Hins vegar voru skýr merki um það strax árið 2019 að áherslubreytingar í dagskrá voru farnar að skila aukinni hlustun. Mikil áhersla hefur verið lögð á að auka hlut kvenna í dagskránni, bæði í hópi þáttastjórnenda og flytjenda. Í dægurmálaþáttum stöðvarinnar eru konur í meirihluta í hópi þáttastjórnenda og hugað er að því í uppsetningu allrar annarrar dagskrár að hlutfallið sé sem jafnast.

Íslensk tónlist í öndvegi

Rás 2 hefur ávallt verið leiðandi þegar kemur að umfjöllun um íslenska tónlist og síðasta ár var engin undantekning. Þegar samfélagið fór á hliðina vegna Covid-19 var hlutfall íslenskrar tónlistar aukið mikið. Áfram var lítið um tónleika auk þess sem flestar hátíðir féllu niður svo upptökur á tónlist voru í lágmarki. Tónaflóð um landið gafst vel árið 2020 og ákveðið var að endurtaka leikinn. Í 4 þáttum kom fram fjöldi tónlistarfólks sem flutti dægurlög sem tengdust hverjum landshluta. Þá var Tónaflóði á Menningarnótt slegið saman við 10 ára afmæli Hörpu og tónleikar sendir þaðan í beinni útsendingu um kvöldið.

Frumflutningur tónlistar og fjölbreytt efnisval

Hlutfall íslenskrar tónlistar hefur líklega aldrei verið hærra á Rás 2 en 2021 enda var hávært kall frá bæði listafólki og almenningi um að sýna þessum hópi stuðning við erfiðar aðstæður. 60-65% af allri tónlist var íslensk árið 2021. Þá má þess geta að hlutfall tónlistar þar sem konur eru í aðalhlutverki fór yfir 40% árið 2020 og í rúm 45% árið 2021. Mest spilaða lagið var Spurningar með Birni og Páli Óskari

Rúmlega 800 ný íslensk lög voru frumflutt í Undiröldunni og Popplandi og 50 nýjar íslenskar plötur voru fluttar í heild sinni í Plötu vikunnar. Þar af voru 45% plötur þar sem konur eru í aðalhlutverki eða verk eftir konur. Yfir sumarði voru svo á dagskrá sérstakar tónlistarseríur þar sem farið var yfir sögu Hip hops á alþjóðavísu ásamt því að Krummi Björgvinsson gerði sérstaka seríu um sveitatónlist og kántrí. Þessar seríur héldu svo áfram í haust og vetur. Þær eru á dagksrá á sunnudagsmorgun þar sem focusinn hefur verið á sérstakar tónlistarstefnur eins og t.d. sveitatónlist, sálar og funk tónlist svo eitthvað sem nefnt. Að lokum má geta þess að 65 ný íslensk jólalög voru send inn í jólalagakeppni Rásar 2.

Númiðladeild

Fréttir, menning, íþróttir og áhugaverð dagskrá

RÚV.is

Notkun RÚV.is náði nýjum og óþekktum hæðum á árinu þegar eldgos hófst í Geldingadölum. Það bættist við mikinn lestur á fréttum af kórónuveirufaraldrinum og stórum viðburðum eins og kosningum og því var slegið nýtt met á RÚV.is. Þá hefur notkun á spilurum og öppum RÚV aukist jafnt og þétt og ljóst áhersla sem lögð var á ólínulega miðlun hefur skilað verulegum árangri. 

Eldgosið sló öll met 

Fljótt varð ljóst að áhugi á eldgosinu í Geldingadölum náði ekki aðeins til Íslendinga. Vefmyndavélar sem settar voru upp nálægt eldstöðvunum urðu gríðarlega vinsælar og á þremur dögum í mars kom nærri ein og hálf milljón gesta inn á vefinn. Stór hluti þeirra var utanlands en áhuginn var engu að síður mikill hér á landi eins og sást á áhorfi á RÚV 2 þegar vefmyndavélarnar voru þar í línulegri dagskrá. 

Þjóðin leitar til RÚV þegar mikið liggur við. Vefurinn er þar engin undantekning og notkunin sló öll met árið 2021. Notendum fjölgaði um 41% frá árinu áður og flettingum um tæp 15%. Skýrist það meðal annars af því hversu margir nýir notendur komu inn eingöngu til fylgjast með streymi frá eldgosinu í Geldingadölum. Nokkuð fleiri sóttu efni á RÚV.is gegnum samfélagsmiðla en árið áður og um 30% af allri umferð á vefnum kom þar í gegn,  langstærstum hluta frá Facebook. Hlutur símtækja í notkun RÚV.is heldur áfram aukast og eru tveir þriðju hlutarnir af umferðinni í gegnum þau. Hlutfall hefðbundinna tölva stendur í stað en aukin notkun símtækja er á kostnað spjaldtölva. 

Almannaþjónustan

Enn sést nauðsyn þess hugað vefnum sem einni meginstoðinni í efnisdreifingu RÚV. Almenningur velur hvenær hann vill neyta efnisins og ljóst almannaþjónustumiðill þarf bregðast við þeirri kröfu með markvissari ólínulegri dreifingu. Einnig sýnir þetta nauðsyn þess vefurinn skilgreindur sem hluti af almannavarnahlutverki RÚV enda er hann oft fyrsti viðkomustaður fólks þegar hætta steðjar . 

in_20210924_002540

Númiðlasvið 

Vinna við endurforritun ruv.is hófst af krafti í lok árs 2021 og stendur til að nýr vefur verði opnaður haustið 2022. Einnig fór gríðarlega mikil vinna í undirbúning kosninga sem leiddi í ljós ákveðna veikleika í ferlum og öryggi vefsíðunnar. Með nýjum vef verður tekið fast á öllum öryggiskröfum auk þess sem hann er hannaður með aðgengi í huga. Kallað hefur verið eftir breytingum til að gera öllum hópum kleift að ferðast um vef RÚV með einföldum hætti, þar með talið blindum og sjónskertum sem reiða sig á tæknilausnir til að finna efni. Þessi þjónusta verður bætt til muna með nýjum vef. 

unnamed

RÚV-app og uppfærsla á vef

Áfram var unnið að endurbótum á ýmsum kerfum sem tengjast ólínulegri dreifingu en ljóst er að á næstu árum þarf að ráðast í verulegar endurbætur enda mörg þeirra komin á tíma. Leggja þarf mikla áherslu á að gera alla meðferð hljóð- og myndefnis einfaldari með það að markmiði að miðlun þess verði markvissari og einfaldari. Jafnframt þarf að tryggja að sú tækni sem starfsfólk hefur til að miðla efni á vef og samfélagsmiðlum standist þær kröfur sem gerðar eru til fjölmiðlafyrirtækis í fremstu röð. 

Samfélagsmiðlar

Áhorf á efni RÚV á samfélagsmiðlum dróst saman milli áranna 2020  og 2021 enda erfitt að halda í við sprenginguna sem varð í allri netnotkun þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst. Áhorf og viðbrögð, svo sem athugasemdir, læk og deilingar, á Facebook-síðu RÚV drógust saman um 36-39% prósent en þess ber að geta að tölurnar hækkuðu um 210-220% árið á undan. Fylgjendum á Facebook og Instagram-síðum RÚV heldur áfram að fjölga. Tæplega 60.000 fylgja Facebook-síðu RÚV í dag en voru 26.000 í september 2019. Rúmlega 20.000 fylgja Instagram-síðu RÚV en voru 16.000 á sama tíma í fyrra. Loks er gaman að sjá hversu vel Facebook-síða RÚV virkar sem samfélagsmiðill. Áhorfendur hafa verið geysiduglegir að segja sína skoðun, deila og líka við.

Fréttastofa RÚV

Traustar fréttir allan sólarhringinn

Stórt fréttaár

Heimsfaraldurinn var áfram stærsta fréttamál ársins enda setti hann daglegt líf allra úr skorðum. Fréttastofan fjallaði ítarlega um faraldurinn og þróun hans, sóttvarnaráðstafanir og aðrar ákvarðandir stjórnvalda, bólusetningar og áhrifin á samfélagið og efnahagslífið. Upplýsingum var miðlað með því að senda út upplýsingafundi almannavarna en auk þess var fjallað ítarlega um faraldurinn í fréttatímum og fréttaskýringaþáttum fréttastofunnar, Kastljósi, Kveik, Heimskviðum og Speglinum.

Það reyndi á almannavarnahlutverk RÚV í byrjun árs þegar jarðskjálftahrina hófst í nágrenni Grindavíkur. Að kvöldi 19. mars hófst eldgos í Geldingadölum á Reykjanesskaga. Skömmu síðar hófst fréttaútsending í sjónvarpi og útvarpi og næstu vikur og mánuði var ítarlega fjallað um eldgosið og þróun þess. RÚV setti upp vefmyndavélar við gosstöðvarnar svo sjónvarpsáhorfendur og netnotendur um allan heim gátu fylgst með eldstöðvunum í beinni útsendingu. Því var gríðarlega vel tekið og mikið notað.

Kosningar til Alþingis

Þann 25. september var kosið til Alþingis. Fréttastofan skipulagði kosningaumfjöllun þar sem rætt var við fulltrúa allra framboða, formenn flokka mættust í sjónvarpssal, oddvitar framboða í hverju kjördæmi mættust í útvarpssal og að kvöldi kjördags voru úrslitunum gerð góð skil í kosningavöku. Þar að auki var boðið upp á kosningavef með kosningaprófi og að auki þau nýmæli að fréttastofan, Rás 1 og Rás 2 gerðu í sameiningu kosningahlaðvarp þar sem fjallað var um kosningarnar frá ýmsum hliðum og rætt við frambjóðendur. Kosningahlaðvarpinu var mjög vel tekið.

Fréttastofan var á faraldsfæti á árinu. Fréttamenn sinntu störfum sínum hérlendis sem erlendis, meðal annars í Bandaríkjunum þegar nýr forseti tók við embætti, í Þýskalandi þegar kosið var til þings og Angela Merkel lét af völdum og í Glasgow þegar loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin.

Verðlaun og viðurkenningar

Fréttamenn RÚV fengu fjórar tilnefningar til blaðamannaverðlauna ársins 2020, þar á meðal fréttamenn Kveiks fyrir rannsóknarblaðamennsku og ritstjórn Heimskviða fyrir umfjöllun ársins. Þórhildur Þorkelsdóttir, fréttamaður RÚV, hlaut blaðamannaverðlaun ársins fyrir vönduð fréttatengd viðtöl þar sem sjónum er beint að einstaklingum í erfiðum aðstæðum.
Fréttaskýringaþátturinn Kveikur hlaut Edduverðlaun sem besti frétta- eða viðtalsþáttur ársins. Þá hlaut Helgi Seljan, fréttamaður Kveiks, Edduverðlaun sem sjónvarpsmaður ársins.

Málefni Samherja

Kveikur fjallaði um málefni Samherja í Namibíu haustið 2019. Sumarið 2020 hóf fyrirtækið að birta myndbönd með ásökunum á hendur fréttamönnum Kveiks um fréttafalsanir og önnur óheiðarleg vinnubrögð. Birting þessara myndbanda hélt áfram fram á árið 2021. Að auki kærði Samherji ellefu starfsmenn RÚV til siðanefndar RÚV vegna ummæla og virkni á samfélagsmiðlum. Niðurstaða siðanefndar barst í lok mars. Hún hreinsaði tíu starfsmenn af ásökunum Samherja en í einu tilfelli komst nefndin að þeirri niðurstöðu að starfsmaður hefði brotið siðareglur RÚV. Í kjölfarið barst krafa til stjórnenda og stjórnar RÚV um að viðkomandi yrði áminntur í starfi og meinað að fjalla frekar um málefni fyrirtækisins. Þeirri kröfu var vísað frá enda stendur fréttaflutningurinn óhaggaður og var ekki til umfjöllunar hjá siðanefndinni. Í yfirlýsingu fréttastjóra vegna þessa sagði m.a.: „Hvort sem menn telja ummæli Helga Seljan á samfélagsmiðlum viðeigandi eða ekki er fráleitt að slíta þau úr samhengi við þá aðför eða herferð sem fulltrúar Samherja hafa skipulagt gegn frétta- og blaðamönnum sem fjallað hafa um málefni fyrirtækisins síðustu misseri. Aðför sem hefur þann eina tilgang að kæfa gagnrýna umræðu og koma í veg fyrir að fréttamenn geti sinnt starfi sínu. Að skjóta sendiboðann svo upplýsingar skili sér ekki til almennings.“

Traust og aukið áhorf

Traust er öllum fjölmiðlum nauðsynlegt en það er hvorki sjálfgefið né sjálfsagt og fréttastofan er þakklát fyrir það aukna traust sem almenningur ber til hennar. Í nóvember 2021 sögðust 70% aðspurðra bera mikið traust til fréttastofunnar. Því þarf að viðhalda með faglegum og góðum vinnubrögðum alla daga ársins.
Þegar á reynir leitar þjóðin til fréttastofu RÚV og það sést glöggt á niðurstöðum áhorfs- og hlustunarmælinga. Meðaláhorf á sjónvarpsfréttir klukkan 19 var um 26% árið 2021 samanborið við 28% árið 2020 og 22% árið 2019. Mest áhorf var á sjónvarpsfréttatíma sem tengdust jarðskjálftahrinunni á Reykjanesskaga og eldgosinu í Geldingadölum og fór áhorf þá mest í 41,3%. Meðaláhorf á fréttir kl. 22 var 17,2% samanborið við 19% árið 2020 og 18% árið 2019.
Meðalhlustun á hádegisfréttir RÚV var 11,7% sem er töluverð aukning frá 2019 þegar meðalhlustun var 10,6% en þó lægra en árið 2020 þegar hún var 13,5%. Meðalhlustun á Spegilinn var 6,6%.
Meðaláhorf á Kastljós var 17,3% á árinu og 18,5% á Kveik.
Vefur RÚV er fjórði mest sótti vefur landsins og umferð um hann heldur áfram að aukast. Þegar eldgos hófst í Geldingadölum og búið var að setja upp vefmyndavél við gosstöðvarnar jókst umferð um vefinn til muna og mars varð stærsti mánuður á vefnum frá upphafi mælinga.

Áhrif COVID-19 á starfsemina

Ein af stóru áskorunum ársins voru þær hömlur sem sóttvarnaráðstafanir settu á samfélagið allt og fréttastofuna þar á meðal. Í upphafi árs var fréttastofan enn á tvískiptum vöktum sem aldrei hittust sín í milli. Strangar umgengnisreglur, hólfaskipting, fjöldatakmarkanir og grímuskylda settu svip á starfsárið. Þessar hömlur höfðu áhrif á fréttavinnsluna.

Kastljós

Heimfaraldur og kosningar settu mark sitt á Kastljós á árinu. Í þættinum gefst færi á lengri og ítarlegri viðtölum en í fréttatímum og þau verða gjarnan sjálfstætt fréttaefni. Stjórnmál, heilbrigðismál og ýmis samfélagsmál eru rædd í viðtölum sem ætlað er að komast að kjarna málsins með beittum spurningum.

Spegillinn

Fréttaskýringaþátturinn Spegillinn er rótgróinn og mikilvægur liður í fréttaþjónustu RÚV. Daglega geta hlustendur Rásar 1 og 2 leitað þangað eftir djúpri og umfangsmikilli umræðu um öll helstu samfélagsmál. Ofarlega á baugi á árinu voru farsóttin og áhrif hennar, kjaramál, umhverfis- og loftslagsmál og erlend málefni. Spegillinn nýtur liðsinnis pistlahöfunda í nágrannalöndunum sem fjalla um helstu mál í sínum löndum.

Kveikur

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur leitaði víða fanga á árinu. Sagðar voru sögur af fólki sem lent hefur í svokölluðum ástarsvikum á netinu, börnum sem hafa orðið fórnarlömb stafræns kynferðisofbeldis, fólki sem hefur fengið framheilaskaða og baráttu þess við kerfið og börnum sem glíma við offitu. Velt var upp spurningunni hvort og hvenær fólk, sem hefur verið útskúfað úr samfélaginu vegna hegðunar sinnar eða ásakana um brot, eigi afturkvæmt. Í kjölfarið spratt upp mikil umræða í tengslum við #metoo-byltinguna. Kveikur ræddi líka við nýjan eiganda WOW air og dró allar fullyrðingar um endurreisn félagsins í efa. Þá hélt Kveikur áfram umfjöllun um Samherja og afhjúpaði flókið net eignarhalds og umsvifa félagsins erlendis. Kveikur afhjúpaði líka viðskipti tengd, Jóakim, tölvukerfi lífeyrissjóðanna en lykilstjórnendur í fyrirtæki sem þjónustaði kerfið hafa hagnast um hundruð milljóna á viðskiptum við sjálfa sig. Loks afhjúpaði Kveikur opinberar greiðslur til sérfræðilækna en í þeirri umfjöllun kom fram að í nokkrum tilvikum hafa þessar greiðslur verið óeðlilega háar.

Efnisval Kveiks er fjölbreytt en markmiðið er ávallt að fá dýpri og ítarlegri umfjöllun en unnt er að veita í daglegum fréttum. Fréttaskýringar Kveiks eru alla jafna nokkrar vikur eða mánuði í vinnslu og vekja verðskuldaða athygli. Nauðsynleg samfélagsleg umræða fer iðulega af stað í kjölfar þeirra.

Heimskviður

Heimskviður er eini fréttaskýringaþáttur landsins sem setur erlend málefni í brennidepil. Á árinu rýndu þáttastjórnendur í stöðuna þar sem kastljósinu er sjaldan beint að, til dæmis í Afríku og Suður-Ameríku. Samhliða því að skýra helstu erlendu fréttirnar hverju sinni með ítarlegum hætti og hjálp sérfróðra viðmælenda er fjallað um erlend málefni sem sjaldan rata í fréttir hér heima. Þátturinn er unninn í samstarfi fréttastofu og Rásar 1.

Fréttastjóri lætur af störfum

Í lok árs 2021 lét Rakel Þorbergsdóttir af störfum sem fréttastjóri RÚV. Hún tilkynnti þessa ákvörðun með nokkrum fyrirvara. Rakel starfaði í 22 ár á fréttastofu RÚV, þar af rúmlega sjö ár sem fréttastjóri. Fréttastofan þakkar henni farsælt og öflugt starf á liðnum árum.

RÚV íþróttir

Vönduð umfjöllun um íþróttir

Íþróttadeild RÚV 

RÚV fylgir afreksfólki Íslands eftir og birtir íþróttaefni sem sameinar íslensku þjóðina. Við fjöllum um fjölbreyttar íþróttagreinar og allar mögulegar hliðar á íslensku íþróttalífi. RÚV leggur mikla áherslu á að fjalla um íþróttaiðkun beggja kynja og ólíkra hópa. Með þessu varðveitum við íþróttasögu Íslands og hvetjum til aukinnar íþróttaiðkunar meðal þjóðarinnar.

HM karla og kvenna í handbolta

HM karla í handbolta var haldið í Egyptalandi í janúar. Vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar var leikið án áhorfenda og öll umgjörð mótsins var ólík því sem við eigum að venjast. Ísland tapaði fyrsta leik sínum gegn Portúgal en eftir sigur á Alsír og Marokkó komst liðið í milliriðil. Ljóst var fyrir lokaleik Íslands í milliriðli við Noreg að Ísland kæmist ekki í átta liða úrslit. Þrátt fyrir hörkuleik tókst Norðmönnum sigla í höfn með tveggja marka sigri, 35-33. Ísland endaði í 20. sæti og hefur aldrei í sögunni verið neðar á HM. Framtíðin er hins vegar björt og margir ungir og efnilegir leikmenn komu við sögu á HM. RÚV sýndi einnig frá HM kvenna í handbolta í desember en því miður komst íslenska kvennalandsliðið ekki á mótið. Noregur, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, stóð uppi sem sigurvegari og var það þriðji heimsmeistaratitill Noregs undir stjórn Þóris.

Undankeppni HM kvenna og karla í fótbolta

Allir leikir í undankeppni HM karla 2022 voru í beinni útsendingu á RÚV. Eftir frábæran árangur undanfarinna ára náði íslenska liðið sér ekki á strik og verður ekki meðal þjóða á HM í Katar 2022. RÚV fékk mikið hrós frá UEFA fyrir útsendingar frá heimaleikjum landsliðsins en miklar kröfur eru jafnan gerðar til rétthafa um útsendingar í sjónvarpi. Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hóf í haust leik í undankeppni heimsmeistaramótsins sem haldið verður sumarið 2023 í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi. Upphaf undankeppninnar var strembið því fyrstu mótherjar voru Evrópumeistarar Hollands. Þrátt fyrir ágætis spretti í leiknum voru Hollendingar sterkari og lokatölur 0-2. Íslenska liðið vann næstu tvo heimaleiki gegn Tékkum og Kýpur og lauk svo árinu með öruggum útisigri á Kýpverjum í lok nóvember. Liðið spilar næst í apríl í undankeppninni við Hvít-Rússa og Tékka. Næsta sumar spilar íslenska liðið svo í lokakeppni EM. Dregið var í riðla í haust og ljóst að Ísland verður í riðli með Frakklandi, Ítalíu og Belgíu. EM kvenna í fótbolta verður í beinni útsendingu á RÚV.

Ólympíuleikar í Tókýó

Stærsta verkefni íþróttadeildar á árinu voru Ólympíuleikar og Ólympíumót fatlaðra sem voru í Tókýó í Japan. Ísland átti fjóra keppendur á Ólympíuleikum og fimm á Ólympíumóti fatlaðra. RÚV fylgdi Íslendingunum hvert fótmál og gerði því dagleg skil í Ólympíukvöldi. Þá voru gerðir sextán hlaðvarpsþættir frá Tókýó um Ólympíuleikana sem vöktu mikla athygli. Þættirnir voru meðal vinsælustu hlaðvarpsþátta landsins á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Beinar útsendingar RÚV frá Ólympíuleikum hafa aldrei verið fleiri og rétt eins og í allri annarri dagskrárgerð íþróttadeildar var gætt jafnræðis um fjölda útsendinga frá keppni kvenna og karla. Auk íslensku þjálfaranna sem fylgdu íslenska íþróttafólkinu voru fimm íslenskir þjálfarar að störfum fyrir aðrar keppnisþjóðir. Tveir þeirra náðu sérlega eftirtektarverðum árangri með sitt fólk. Frjálsíþróttaþjálfarinn Vésteinn Hafsteinsson kom sænsku kringlukösturunum sínum tveimur á verðlaunapall. Daniel Ståhl kastaði manna lengst og varð Ólympíumeistari í kringlukasti. Simon Pettersson varð annar og hlaut þar með silfrið. Sveitungi Vésteins frá Selfossi, handboltaþjálfarinn Þórir Hergeirsson, stýrði norska kvennalandsliðinu á verðlaunapall þriðju Ólympíuleikana í röð. Noregur vann bronsið eftir öruggan sigur á Svíum.

EM í hópfimleikum

Evrópumeistaramótið í hópfimleikum sem átti að vera í Danmörku 2020 fór fram í Portúgal í lok ársins 2021. RÚV sýndi frá keppninni í beinni útseningu auk þess að vera á staðnum og fanga stemninguna sem var rafmögnuð. Unglingaliðin uppskáru vel, blandaða liðið nældi sér í brons og stúlknalið Íslands fékk silfur. Eftir spennuþrungna keppni við Svíþjóð stóð íslenska kvennaliðið uppi sem sigurvegari og er það fyrsta sinn frá 2012 sem Ísland verður Evrópumeistari kvenna í hópfimleikum. Síðastliðin þrjú ár hefur liðið mátt að lúta í lægra haldi fyrir Svíþjóð. Í fyrsta sinn frá 2010 átti Ísland karlalandslið í flokki fullorðinna. Svíarnir unnu nokkuð örugglega en íslensku strákarnir hrepptu silfur. Það eru fyrstu verðlaun sem karlalið Íslands hlýtur á EM.

Landsliðið okkar

Karlalandslið í körfubolta hóf leik í undankeppni HM 2023 í nóvember. Eftir frábæra byrjun þar sem Ísland vann Holland tapaði liðið fyrir Rússlandi. Það verður spennandi að fylgjast með liðinu í riðlakeppninni og allir leikirnir verða í beinni útsendingu RÚV. Kvennalandsliðið í handbolta komst í umspil um sæti á Heimsmeistaramótinu eftir góða frammistöðu í forkeppninni í Norður-Makedóníu í mars. Ísland mætti Slóveníu í tveimur leikjum en eftir tap og jafntefli í apríl var sæti á HM úr sögunni. Í haust hófst undankeppni EM 2022 og var Ísland í snúnum riðli með Svíþjóð, Serbíu og Tyrklandi. Fyrsti leikur liðsins gegn Svíþjóð tapaðist með 13 marka mun en liðið sýndi framfarir sínar gegn Serbíu á heimavelli og lék sinn besta leik í langan tíma. Öflugt serbneskt lið var lagt að velli með 23 mörkum gegn 21 og íslenska liðið er í öðru sæti undanriðils um áramót. Tvö efstu liðin komast í lokakeppni EM en þangað hefur íslenska liðið ekki komist í tíu ár. Íslenska karlalandsliðið lék svo síðustu leiki sína í undankeppni EM 2022 í upphafi sumars. Þar tryggði Ísland sér sæti með Ungverjalandi og Slóvakíu

Bikarúrslit, Skólahreysti og aðrir viðburðir

RÚV hélt áfram að sýna frá Íslandsmótum og bikarúrslitum í hinu ýmsu íþróttagreinum í veglegri umgjörð. Eins og árið 2020 var íþróttaárið 2021 frábrugðið flestum öðrum árum vegna kórónuveirufaraldursins. Vegna mikilla frestana var óljóst með mörg mót en engu að síður tókst að klára nokkra skemmtilega viðburði eins og bikarúrslit kvenna og karla í handbolta, Reykjavíkurleikana, Íslandsmótið í golfi, bikarúrslit í blaki, Meistaradeildina í hestaíþróttum, Skólahreysti og Íslandsmótið í fimleikum svo fátt eitt er nefnt. Verðlaunahátíð Íþróttamanns ársins var haldin í beinni útsendingu í lok árs.

KrakkaRÚV

Úrvalsþjónusta við börn

Fræðandi og fjölbreytt þjónusta við börn og unglinga. 

Fjölbreytt framboð var á efni fyrir börn og ungmenni í öllum miðlum RÚV árið 2021.

Líkt og árið áður var það litað breyttum áherslum vegna faraldursins. Áhersla var lögð á að bregðast við breyttum raunveruleika barna og ungmenna. Beint streymi frá var frá ýmsum viðburðum. Þróun MenntaRÚV hélt áfram, það er nýr vefur með spilaraviðmóti þar sem nálgast má fræðandi og upplýsandi dagskrárefni úr fórum RÚV fyrir öll skólastig, allt frá yngstu grunnskólastigum upp í háskóla. Efnið kann að nýtast við fjarnám, kennslu eða einfaldlega til fræðslu og skemmtunar.

KrakkaRÚV

KrakkaRÚV sinnir börnum að 12 ára aldri. KrakkaRÚV.is er kjarninn í starfsemi þjónustunnar fyrir yngstu áhorfendurna. Þar má nálgast allt innlent barnaefni RÚV, gamalt og nýtt, fjölda myndskeiða úr safni sjónvarps og talsettar teiknimyndir ásamt vönduðum útvarpsþáttum fyrir börn. Jafnframt er lögð mikið áhersla á samstarf við stofnanir sem vinna í þágu barna.

Krakkafréttir

Krakkafréttir halda áfram að festa sig í sessi. Þar eru fluttar skýrar og hnitmiðaðar fréttir af því helsta sem gerist í íslensku samfélagi og heiminum öllum. Í fréttatímum má meðal annars finna fréttir af vísindum, íþróttum, menningu og krökkum sem gera garðinn frægan. Gunnar Hrafn Kristjánsson gekk til liðs við krakkafréttateymið þegar Mikael Kaaber hvarf til annarra verkefna. Tveir krakkafréttamenn bættust einni í hópinn, Elfa Rún Karlsdóttir og Vilhjálmur Hauksson sem eru fréttamenn á vettvangi á Norðurlandi og í Reykjavík. Krakkafréttaárinu lauk á Krakkafréttaannál með nýju sniði í stúdíói þar sem Gunnar og Kolbrún fóru yfir fréttir ársins og ræddu við ungu fréttamennina. Hljómsveitin Jón Arnór og Baldur fluttu lagið Partý í kvöld sem sendi áhorfendur inn í nýja árið í partýskapi.

Stundin okkar

Krakkar stýrðu áfram Stundinni okkar á fyrri hluta ársins. Þátturinn var byggður upp í smáseríuformi þar sem íslenskt mál, sköpun, vísindi, umhverfisvernd og líkamlegt og andlegt heilbrigði var í forgrunni. Haustið 2021 var breytt um stefnu og leikið efni sett í forgrunn. Ungir og upprennandi höfundar, Arnór Björnsson, Mikael Emil Kaaber og Óli Gunnar Gunnarsson, fengu það verkefni að skrifa um álfana Bolla og Bjöllu sem búa á skrifborði Bjarma, 11 ára. Ásthildur Úa Sigurðardóttir og Níels Thibaud Girerd fara með hlutverk Bolla og Bjöllu og leikstjóri er Gunnar Helgason. Ný og stærri útgáfa af FRÍMÓ kom í sýningu á árinu. Þættirnir voru lengdir og Iðunn Ösp Hlynsdóttir og Mímir Bjarki Pálmason tóku við sem kynnar. Börn hvaðanæva af landinu tóku þátt í keppninni og klapplið mætti á staðinn með hverju liði. Í lok árs var þátturinn tekinn út úr Stundinni okkar og gerður að sjálfstæðum þætti. Sýningar hefjast í apríl 2022.

Húllumhæ

Húllumhæ hefur notið mikillar velgengni og það hélt áfram í stjórn Iðunnar Aspar Hlynsdóttur. Aukið var við menningarumfjöllun og Árni Beinteinn bættist í hóp dagskrárgerðamanna. Þannig gefst tækifæri til að fjalla ítarlega um listir og menningu. Árni Beinteinn heimsækir leikhús, listamenn, söfn og tónlistarhús um allt land. Samstarf við List fyrir alla hélt áfram og sýnd voru myndbönd með kvikmyndakennslu og viðtölum við kvikmyndafólk.

Krakkaskaupið 

Krakkaskaupið var sýnt að kvöldi, á besta mögulega sýningartíma, 30. desember 2021. Áhorfið á þáttinn var frábært og viðtökur góðar og mikil viðbrögð á samfélagsmiðlum. Þátturinn var, eins og árið 2019, byggður upp á innsendum myndböndum frá krökkum í bland við atriði sem þáttastjórnendurnir Berglind Alda Ásþórsdóttir og Mikael Kaaber skrifuðu og léku ásamt þekktum leikurum.

Útvarp KrakkaRÚV

KrakkaRÚV framleiðir fjóra útvarpsþætti í hverri viku. Þættirnir eru frumfluttir á Rás 1 kl. 18.30 mánudaga til fimmtudaga. Á mánudögum er Krakkakiljan þar sem fjallað er um barnabækur og rætt við höfunda. Á þriðjudögum er Krakkakastið. Fríða María Ásbergsdóttir, 11 ára, ræddi við þjóðþekkta íslendinga og krakka sem búið hafa erlendis. Á miðvikudögum og fimmtudögum sagði Ingibjörg Fríða Helgadóttir þjóðsögur og hún sá líka um þáttinn Í ljósi krakkasögunnar sem er systurþáttur Í ljósi sögunnar með Veru Illugadóttur.
Upptakturinn, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna, fékk líka sinn sess í útvarpsdagskrá KrakkaRÚV. Þar gefst börnum á höfuðborgarsvæðinu kostur á að senda inn tónsmíð sem síðan er flutt af fagfólki.

KrakkaKiljan

Krakkakiljan hélt áfram og stækkaði. Bókaormarnir Emma Nardini Jónsdóttir og Auðunn Sölvi Hugason fjölluðu um uppáhaldsbækurnar sínar og aðrar nýútkomnar bækur. Þau ræddu við höfunda, þýðendur og myndhöfunda bókanna í nýju og uppstríluðu Kiljusetti. Viðtölin voru sýnd í Húllumhæ og gerðir voru útvarpsþættir. Bókaumfjöllun fyrir börn hefur því aldrei verið meiri og ítarlegri.

Sögur – verðlaunahátíð barnanna

Sögur er stórt samstarfsverkefni margra stofnana sem allar vinna að barnamenningu og sköpun. Verkefnið hófst 2017 og hefur stækkað ár hvert. Markmiðið er að auka læsi og áhuga á íslenskum barnabókum og sögum og upphefja í leiðinni barnamenningu á Íslandi. Sögur hófust í byrjun október þegar KrakkaRÚV skoraði á krakka að senda inn smásögu, lag og texta, stuttmyndahandrit eða leikrit. Höfundar þeirra sagna sem voru valdar tóku þátt í skapandi smiðjum þar sem fagfólk leiðbeindi og ævintýrin lifnuðu við. Sumar sögur enduðu í rafbók á vegum Menntamálastofnunar, aðrar í stuttmynd, nokkur lög lifnuðu við og leikrit litu dagsins ljós á fjölum Borgarleikhússins. Það eru nefnilega engin takmörk á því hvar góð saga getur endað.

Sögur – verðlaunahátíð barnanna var haldin 5. júní og var lokapunktur þessa stóra samstarfsverkefnis. Þar voru verk barnanna verðlaunuð auk þess sem þau fengu tækifæri til að verðlauna það menningarefni sem þeim fannst hafa skarað fram úr. Hátíðin var sýnd í beinni útsendingu frá Hörpu og þrjú lög eftir krakka voru útsett og flutt á lokahátíðinni. Ingvar Alfreðsson sá um útsetningar og Tara Mobee, Haukur Heiðar og GDRN fluttu lögin. Önnur skemmtiatriði og afhending verðlauna voru í höndum barnanna. Að verkefninu standa Borgarbókasafnið, Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, menntamálaráðuneytið, Menntamálastofnun, skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Borgarleikhúsið og fleiri.

Stuttmyndir á Sögum

KrakkaRÚV framleiddi þrjár stuttmyndir eftir handritum krakka í tengslum við Sögur. Í ár voru það myndirnar Heimsókn til ömmu, Hvít spor og Björgunarleiðangurinn. Leikstjórn var í höndum Heklu Egilsdóttur, Sturlu Hólm Skúlasonar og Bergs Árnasonar.

Söguspilið

Óhætt er að segja að Söguspilið hafi slegið í gegn. Það er ævintýralegur spurninga- og þrautaþáttur sem varð til í tengslum við Sögur. Þættirnir eru settir upp sem ævintýraspil þar sem krakkar keppa og þurfa að svara spurningum og leysa þrautir sem tengjast barnabókum og sögum fyrir börn. Átta lið hefja keppni og eitt stendur uppi sem sigurvegari. Viskubrunnur reynir að villa um fyrir þeim, galdraseyði kemur við sögu og alls kyns verur og furðuverk líta dagsins ljós. Þættirnir eru framleiddir í samstarfi við Menntamálastofnun.

Barnamenningarhátíð heim til þín

Í ljósi þess að ekki var hægt að halda Barnamenningarhátíð með eðlilegum hætti var gerður stórskemmtilegur fjölskylduþáttur teileinkaður listum og menningu barna og ungmenna. Í þættinum var meðal annars flutt frumsamið píanóverk eftir 12 ára snilling og nýtt lag með söngkonunni Bríeti, Emmsjé Gauti og Johnny boy ræddu rapp og margt fleira. Kynnar þáttarinns voru Sigyn Blöndal og Mikael Emil Kaaber. Þátturinn var gerður í samstarfi við Reykjavíkuborg.

Handritin til ykkar

Listamenn og skemmtikraftar tóku höndum saman um að kynna helsta dýrgrip Íslendinga, Konungsbók Eddukvæða. Fram komu Gugusar, Begga og Mikki, miðaldafréttamennirnir Snorri og Jakob, Donna Cruz og Blær Jóhannesdóttir. Steiney Skúladóttir skemmtikraftur hélt utan um dagskrána. Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi ungmennahandrit í handritasamkeppni sem Árnastofnun stóð fyrir meðal grunnskólanema.

UngRÚV

Þjónusta fyrir unglinga

UngRÚV

UngRÚV er þjónusta fyrir ungmenni í áttunda, níunda og tíunda bekk grunnskóla. Lögð er áhersla á dagskrárefni fyrir unglinga og eftir unglinga, beinar útsendingar frá viðburðum og vandað efni sem framleitt er af RÚV. Á UngRÚV starfar ungmennaráð sem sér um hugmyndavinnu, framleiðslu og aðrar dagskrártengdar ákvarðanir. UngRÚV er samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og RÚV. 

UngRÚV skólinn  

UngRÚV skólinn er starfræktur í samstarfi við Vinnuskóla Reykjavíkur. Unglingum er boðið að koma og vinna við dagskrágerð í fjórar vikur. Unnið er eftir aðferðafræðinni „að læra með því að gera“, eða reynslunámi. Unglingarnir byrja að vinna saman í hópum og koma sér saman um hugmynd sem þau vilja framleiða. Árið 2021 var sumarði vel nýtt og framleiddu nemendur sína eigin þætti í þáttaröðinni Rauði sófinn. Þau fengu til sín áhugavert fólk og tóku viðtal við það um málefni sem þeim fundust áhugaverð. Á seinni hluta námskeiðsins lærðu nemendur hlaðvarpsgerð og fengu að skyggnast inn í þann nýja og hratt vaxandi miðil. Nemendur gerðu svo sína eigin hlaðvarpsþætti. Kennarar í UngRÚV skólanum voru Hafsteinn Vilhelmsson og Snærós Sindradóttir.  

Í skólanum fá ungmennin  ekki aðeins að spreyta sig á framleiðslu, þáttastjórnun, kvikmyndatöku og hljóðupptöku heldur fá þau líka innsýn í starfið á RÚV. Í framhaldinu verða þau hluti af UngRÚV-ráðinu sem sér um að skipuleggja og móta samfélagsmiðla UngRÚV. 

Skrekkur

Skrekkur er hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík.  Skrekkur var á sínum stað eins og önnur ár mikið fjör, mikið gaman og mikið um hæfileika. UngRÚV heimsótti alla skóla sem tóku þátt í Skrekk og gerði kynningarinnslög sem sýnd voru milli atriða á undanúrslitakvöldunum sem voru í beinu streymi á ungruv.is. Lokakvöldið var sýnt í beinni útsendingu á RÚV og á vef Ungrúv í nóvember. Fyrir úrslitin voru tekin upp ný kynningarinnslög í stúdíói A með þeim skólum sem komust í úrslit. Öll atriði Skrekks birtust svo á vef UngRÚV að keppni lokinni.  

Upptakturinn 

Með Upptaktinum, tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, gefst ungu fólki tækifæri til að senda inn tónsmíð og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með listnemum og listamönnum. UngRÚV hefur verið partur af Upptaktinum frá upphafi ásamt tónlistarhúsinu Hörpu, Barnamenningarhátíð Reykjavíkur, Tónlistarborginni Reykjavík og Listaháskóla Íslands.

UngRÚV sá um upptöku og framleiðslu á kynningarinnslögum þar sem viðtal var tekið við höfunda laganna. Tónleikarnir voru sýndir á vef UngRÚV.   

Danskeppni Samfés  

Undanfarin ár hefur áhugi á dansmenningu fólki farið vaxandi meðal ungs fólks. Í danskeppni Samfés býðst öllum félagsmiðstöðvum að senda inn atriði. Keppnin í ár var haldin í Gamla bíói og var keppt í einstaklings- og hópdönsum. Tuttugu atriði voru í keppninni sem var sýnd í beinu streymi á UngRÚV.  

 

Skólar og félagsmiðstöðvar  

Í samstarfi við skóla- og frístundasvið hefur UngRÚV hvatt félagsmiðstöðvar og skóla að nýta UngRÚV.is til að miðla efni sínu á einum stað. Á þessu ári hafa félagsmiðstöðvar þó nokkrum sinnum verið lokaðar vegna fjöldatakmarkana og því hefur verið erfitt að halda þessu uppi. Verkefnið er mikilvægt verkefni og fullur vilji til að halda áfram með.

 

Draumur í dós 

Lára Sigurðardóttir læknir hefur rannsakað neyslu ungs fólk á orkudrykkjum og skaðsemi hennar. Hún kom til okkar með sex tilbúna þætti sem birtir voru á vef UngRÚV ásamt umfjöllun á RÚV.is  

 

Skjálfti á Suðurlandi

Skjálfti er hæfileikakeppni grunnskóla á Suðurlandi sem byggð er á Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík. Keppnin var nú haldin í fyrsta sinn. Hún var í Þorlákshöfn og átta skólar af Suðurlandi skráðu sig til leiks. UngRÚV ákvað að vera með í þessari fyrstu keppni og hún var tekin upp og birt á UngRÚV.is  

Unglingar gegn ofbeldi 

Unglingar gegn ofbeldi er samstarf UngRÚV og ngmennaráðs Samfés um að vekja athygli á ofbeldi meðal unglinga, andlegu og líkamlegu, og mikilvægi þess að virða mörkin sín og annara. Í fyrra voru framleidd fjögur myndbönd þar sem unglingar töluðu um að virða mörkin og voru þau birt á Samfestingnum og á UngRÚV.is. Í ár framleiddi Samfés myndböndin sem voru birt á UngRÚV.is ásamt því að tekin voru viðtöl við ungmenni og athygli vakin á verkefninu.  

#Hvað finnst okkur  

Markmið  átaksins #Hvað finnst okkur er að skapa vettvang þar sem ungt fólk getur komið á framfæri spurningum, hugmyndum, upplýsingum og tilvitnunum er varða þau.

Skólaheimsóknir  

Hluti af samstarfi UngRÚV og Reykjavíkurborgar eru skólaheimsóknir 10. bekkinga. Vikulega koma unglingar úr skólum í Reykjavík og fræðast um sögu, starfsemi og hlutverk RÚV. Áhersla er lögð á að gera heimsóknirnar spennandi. Miklar takmarkanir voru í Efstaleiti og ekki stóð til boða að koma með hópa í hús á árinu.  

 

Fréttamenn framtíðar 

Ungir fréttamenn er samstarfsverkefni UngRÚV, Krakkafrétta og Reykjavíkurborgar sem gengur út á að vekja áhuga ungs fólks á fréttum og fréttamennsku. Nemendur á unglingastigi grunnskóla sækja námskeið þar sem þeim gefst tækifæri til að hitta reynda fulltrúa RÚV og læra allt um vinnubrögð fréttamanna, viðtalstækni og framsögu ásamt undirstöðuatriðum við myndbandsupptöku. Ungu fréttamennirnir fara svo á stúfana og kynna sér spennandi dagskrá Barnamenningarhátíðar í Reykjavík og flytja fréttir af hátíðinni sem sýndar eru í Krakkafréttum.