RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Aðalfundur, ársreikningur og ársskýrsla 2020

Mynd með færslu
 Mynd:
Árið 2020 einkenndist af mikilli notkun landsmanna á miðlum RÚV, ánægju með þjónustu og auknu trausti

Aðalfundi Ríkisútvarpsins, sem haldinn var í Útvarpshúsinu við Efstaleiti, lauk rétt í þessu. Í ársreikningi kemur fram að reksturinn var neikvæður í fyrsta sinn frá 2014. „Ríkisútvarpið á ríkt erindi við þjóðina og sinnir á hverjum degi mikilvægu hlutverki í þágu landsmanna allra. Þetta var undirstrikað með skýrum hætti á því fordæmalausa ári 2020,“ sagði Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.

Þjónusta RÚV og notkun 

Mikill meirihluti þjóðarinnar nýtti sér þjónustu RÚV árið 2020 og notkun jókst mjög frá fyrra ári. Daglega nota 70% landsmanna miðla RÚV og 92% í hverri viku samkvæmt mælingu Gallups. Viðhorf landsmanna til RÚV er áfram afar jákvætt, 72% eru mjög jákvæð eða jákvæð í garð RÚV. Fréttastofan nýtur mikils trausts sem jókst enn meira á undanförnu ári og langflestir telja að RÚV sé mikilvægasti fjölmiðill þjóðarinnar.  

Stefnu- og áherslubreytingar birtast enn á ný í samantekt á þróun dagskrárefnis. Á síðustu fimm árum hefur framboð á íslensku efni aukist um 66% og norrænu efni um 112% en bandarískt efni hefur dregist saman um 42%. Með áherslubreytingum á undanförnum misserum hefur þjónusta við börn og ungt fólk stóraukist, m.a. með öflugri starfsemi KrakkaRÚV, UngRÚV og MenntaRÚV. Þá hefur áhersla á menningu og listir verið aukin, sem og áhersla á stafræna miðlun, samstarf og þróun.

Afkoma RÚV neikvæð í fyrsta sinn frá 2014 vegna COVID-19

Samkvæmt rekstrarreikningi og yfirliti um heildarafkomu var tap á rekstri RÚV að fjárhæð 209 milljónir króna eftir skatta á árinu 2020. Í árslok námu heildareignir 8.340 milljónum króna, eigið fé var 1.923 milljónir króna og eiginfjárhlutfall var 23,1% í árslok 2020. Vísað er til eiginfjáryfirlits í ársreikningnum um breytingar á eiginfjárreikningum. Fjöldi ársverka var 266.

RÚV er fjármagnað með þjónustutekjum og tekjum af samkeppnisrekstri skv. lögum. Auglýsingamarkaður hefur dregist saman á undanförnum árum og var samdrátturinn mun meiri á árinu 2020 í samanburði við þróun fyrri ára  og má rekja það til áhrifa COVID-19. Dreifing tekna hefur einnig breyst töluvert og sífellt stærri hluti auglýsingatekna rennur til erlendra aðila með sölu auglýsinga á netinu og samfélagsmiðlum samkvæmt greiningum Hagstofunnar. Óvissa ríkir um þróun á næstu árum. Ljóst er að frekari þrengingar á auglýsingamarkaði munu hafa áhrif á tekjur félagsins og möguleika þess til að sinna þjónustuhlutverki sínu.

Auglýsingatekjur lækka um tæplega 200 m.kr. milli ára og því er raunlækkun töluverð. Möguleikar RÚV til að afla auglýsingatekna hafa verið takmarkaðir á undanförnum árum auk þess sem auglýsingamarkaðurinn er að breytast. Ljóst er að lækkun auglýsingatekna hefur mikil áhrif á fjármögnun RÚV þar sem fjármögnun almannaþjónustunnar byggist að hluta til á tekjum af sölu auglýsinga. Í árslok 2019 var stofnað dótturfélagið RÚV Sala ehf. sem sér um starfsemi samkeppnisrekstrarhluta RÚV frá og með árinu 2020.

Nýr þjónustusamningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið var undirritaður á árinu og gildir frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2023. Með samningnum er RÚV tryggður nauðsynlegur stöðugleiki hvað varðar þjónustutekjur, sem gerir félaginu betur kleift að gera áætlanir til lengri tíma.

Í stuttu innleggi Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra á aðalfundinum kom fram að á síðasta ári var tekist á við alls kyns nýjar áskoranir og bregðast hafi þurft skjótt við breyttum aðstæðum vegna heimsfaraldurs sem hófst á fyrri hluta ársins. Það hafi reynst gæfa RÚV að vinna eftir skýrri stefnu þar sem markmið og hlutverk Ríkisútvarpsins eru vel skilgreind sem og þeim áherslum sem fram koma í þjónustusamningi við mennta- og menningarmálaráðherra.

Ársskýrsla RÚV er nú líkt og undanfarin ár gefin út á rafrænu formi og hefur verið hætt að prenta hana. Hún er alfarið unnin innanhúss af starfsfólki RÚV. Hægt er að nálgast ársskýrsluna hér: http://www.ruv.is/arsskyrsla/   

Ný stjórn RÚV  

Þann 12. apríl kaus Alþingi stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/123 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Í stjórn sitja Ragnheiður Elín Árnadóttir, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Mörður Árnason, Jón Ólafsson, Guðlaugur Sverrisson, Brynjólfur Stefánsson, Mörður Áslaugarson, Marta Guðrún Jóhannesdóttir og Björn Gunnar Ólafsson. Fulltrúi starfsmanna í stjórn RÚV er Hrafnhildur Halldórsdóttir.