RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Rakel Þorbergsdóttir lætur af starfi fréttastjóra um áramótin

Mynd með færslu
 Mynd:
Rakel Þorbergsdóttir hefur ákveðið að láta af starfi fréttastjóra Ríkisútvarpsins um næstu áramót. Rakel hefur gegnt starfi fréttastjóra frá því í apríl 2014.

Hún hefur á þessum tíma leitt fréttastofuna í gegnum miklar breytingar, einkum í starfsumhverfi fréttastofunnar en einnig ásamt starfsfólki verið leiðandi í miðlun frétta og viðhaldið og byggt upp traust til fréttastofunnar sem mælst hefur mikið í öllum samanburði undanfarin ár. Á þessum tíma hafa miklar breytingar verið gerðar á tækniumhverfi fréttastofu, þar á meðal með nýju og tæknivæddu sjónvarpsmyndveri. Aukin áhersla hefur verið lögð á ítarlegar og vandaðar fréttaskýringar, meðal annars með fréttaskýringaþættinum Kveik sem varð til undir hennar stjórn á fréttastofunni.

Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri: ,,Um áramót verða tæp átta ár síðan ég tók við fréttastjórastarfinu og 22 ár sem ég hef starfað á fréttastofum RÚV. Þessi ár hafa verið afar lærdómsrík, krefjandi og skemmtileg. Ákvörðun mín var því ekki auðveld, fréttastofan er frábær vinnustaður en það er öllum hollt að breyta til og takast á við nýjar áskoranir. Starfsemin er í traustum höndum úrvals samstarfsfólks sem hefur staðið sig frábærlega á mjög krefjandi tímum. Allar mælingar staðfesta að fréttastofa RÚV er sá miðill sem þjóðin reiðir sig á, treystir og leitar til, sérstaklega þegar mikið liggur við. Ég er gríðarlega stolt af frammistöðu okkar fólks og það hefur verið heiður að fá að stýra þessari öflugu og rótgrónu fréttastofu síðustu ár. Ég kveð með söknuði og hlýju í garð minna góðu félaga á RÚV.“

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri: „Rakel hefur leitt fréttastofuna undanfarin ár af mikilli fagmennsku og öryggi og fest hana í sessi sem þann fréttamiðil sem fólk ber mest traust til. Hún hefur sýnt framsýni í störfum sínum og lagt mikilvægan grunn undir starfsemi fréttastofunnar til næstu ára. Fyrir hönd Ríkisútvarpsins færi ég henni hlýjar kveðjur og þakkir fyrir hennar mikilvæga framlag og frábæru störf á liðnum árum og óska henni alls hins besta í framtíðinni.“

Starf fréttastjóra verður auglýst laust til umsóknar fljótlega á nýju ári. Heiðar Örn Sigurfinnsson varafréttastjóri gegnir starfi fréttastjóra frá því að Rakel lætur af störfum um áramótin og þar til nýr fréttastjóri hefur verið ráðinn.