RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Höfundar Áramótaskaupsins 2021

Höfundar Áramótaskaupsins í ár eru þau Vilhelm Neto, Bergur Ebbi, Hugleikur Dagsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Gagga Jónsdóttir og Lóa Hjálmtýsdóttir. Leikstjórn verður í höndum Reynis Lyngdal.
 Mynd: RÚV
Höfundar Áramótaskaupsins í ár eru þau Vilhelm Neto, Bergur Ebbi, Hugleikur Dagsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Gagga Jónsdóttir og Lóa Hjálmtýsdóttir. Leikstjórn verður í höndum Reynis Lyngdals.

 

„Ég og teymið erum mjög upp með okkur að vera treyst fyrir Skaupinu 2021,“ segir Reynir Lyngdal, sem leikstýrt hefur Skaupinu síðustu tvö ár. „Að vinna skaup er fyrst og fremst mjög skemmtileg og gefandi vinna með frábæru og fyndnu fólki.“

Hann er í skýjunum með höfundahópinn í ár. „Þetta er svo svakalega klárt og gott fólk úr ólíkum áttum og stemmningin í hópnum frábær. Skaup er í grunninn svo furðulegt fyrirbæri. Skemmtiþáttur sem á helst að höfða til allra, stinga á kýlum og vera svakalega fyndinn. Við munum leggja okkur öll fram við að gera árinu skil í gríni og söng.“

 

Meiri óþreyja í samfélaginu

Nálgunin verður að einhverju leyti svipuð í ár, segir hann, þó atburðir ársins gefi vitaskuld tóninn. „Ég legg mikið upp úr því að mismunandi raddir höfundanna fái að skína í gegn. Við nálgumst grínið út frá fólkinu, þjóðarsálinni og stemningunni í landi á árinu. Það sem er kannski frábrugðið milli ára er að maður finnur fyrir aðeins meiri óþreyju í samfélaginu á meðan á sama tíma í fyrra var mjög sterk stemmning fyrir sameiningu og að klára þetta saman. Þar spilar meðal annars 4. bylgja covid inn í og svo er þetta kosningaár sem setur alltaf annan tón í þjóðarpúlsinn. Varðandi leikaraval þá er það alltaf undir skrifunum, hvernig það þróast og hverjir verða með, ég hef lagt mikið upp úr því að hafa leikarahópinn sem fjölbreyttastan og hafa sem flesta með innan þess ramma sem okkur er gefinn. Ég hlakka mikið til að takast á við skaupið í ár.“

Krefjandi verkefni þriðja árið í röð

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps, segir að Skaupið hafi í leikstjórn Reynis og framleiðslu Republik heppnast afar vel síðustu ár og viðbrögð almennings verið góð.

„Við erum þess vegna afar glöð með að þau taki þetta krefjandi verkefni að sér þriðja árið í röð. Skaupið er okkar vinsælasta dagskrárefni ár hvert og við höfum fundið fyrir því sérstaklega nú á þessum skrýtnu tímum að það er mikilvægt fyrir þjóðina að það sé vel og fagmannlega gert. Þess vegna er gott að setja þetta verkefni í hendurnar á fólki sem við treystum og það á svo sannarlega við í þessu tilfelli. Við hlökkum mikið til að bjóða þjóðinni upp á afrakstur þessa frábæra fólks á gamlárskvöld.”

Tökur hefjast í nóvember og sér Republik um framleiðsluna. Framleiðendur Skaupsins eru Ada Benjamínsdóttir, Hannes Friðbjarnarson og Lárus Jónsson.

 

 

27.08.2021 kl.14:43
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni