RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Vera Illugadóttir hlaut viðurkenningu á degi íslenskrar tungu

Mynd með færslu
 Mynd:
Vera Illugadóttir, umsjónarmaður Í ljósi sögunnar á Rás 1, sem er jafnframt vinsælasta hlaðvarp landsins, hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember.

Í umsögn dómnefndar segir að Í ljósi sögunnar höfði öðrum fremur til fólks á öllum aldri og með mjög mismunandi áhugasvið. „Með grípandi framsetningu söguefnis hverju sinni nær Vera eyrum hlustenda vítt og breitt um samfélagið. Hún segir sögur sínar á frjóu og fallegu máli og miðlar fróðleik sínum á tilgerðarlausan en áhrifaríkan hátt.“

„Mér finnst mjög gaman að gera efni á íslensku og segja sögur sem ekki hafa verið sagðar á íslensku áður,“ segir Vera. „Heimildirnar sem ég nota eru aðallega erlendar og  það er gaman að miðla þeim til fólks sem kannski les ekki sögubækur á erlendum málum, og leyfa þeim að njóta þessara frásagna.“  

Í ljósi sögunnar nýtur fádæma vinsælda hjá fjölbreyttum hópi.

„Já, ég fæ mikil viðbrögð við þáttunum, frá ungu fólki, krökkum og unglingum og upp í eldra fólk. Ég hef aldrei getað fest fingur á hverjir mínir aðalhlustendur eru. Þegar ég byrjaði í útvarpinu hélt ég að það væri aðallega eldra fólk sem sæti og hlustaði á Rás 1 en það hefur ekki verið raunin.“  

Hlaðvörp njóta sífellt vaxandi vinsælda og Vera segir að ekki megi gera lítið úr framlagi þeirra til íslenskunnar. „Það er mikilvægt að það sé til efni á íslensku fyrir þennan hóp sem má segja að sé orðinn sjúkur í að vera alltaf að hlusta á eitthvað. Það er gott að fólk sé ekki bara að hlusta á ensk hlaðvörp og mikilvægt að bjóða upp á fjölbreytta möguleika, hvort sem það eru þættir eins og ég er að gera eða spjall og viðtöl. Þannig að það er mjög gaman að sjá þessa miklu hlaðvarpsgerjun.“

 

 

18.11.2021 kl.11:34
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni