RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Táknmálstúlkun með kvöldfréttum frá og með 1. september 2021

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýr samningur RÚV við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra tryggir að aðalfréttatíminn kl. 19 verður framvegis túlkaður á táknmál. Samhliða verður einnig byrjað að senda Krakkafréttir út með táknmálstúlkun.

 

Aukinn fréttaflutningur á táknmáli í heimsfaraldri 

Við upphaf kórónuveirufaraldursins tóku almannavarnir að halda sérstaka upplýsingafundi um framvindu faraldursins hér á landi og voru fundirnir túlkaðir á táknmál. Bein útsending var frá fundunum á RÚV og rúv.is. Um svipað leyti var byrjað að senda kvöldfréttir sjónvarps út með táknmálstúlkun á RÚV 2 og rúv.is og var því haldið áfram með hléum á meðan faraldurinn varði.  

Táknmálstúlkaðar fréttir mæltust mjög vel fyrir meðal döff fólks og fékk RÚV þakkir og hrós fyrir að veita döff aðgang að sömu fréttum á sama tíma og öllum almenningi. Könnun sem Félag heyrnarlausra gerði að beiðni RÚV leiddi meðal annars í ljós að flest þeirra sem tala táknmál kjósa að fylgjast með táknmálstúlkuðum fréttum í sjónvarpi og á vef.  

RÚV hefur nú samið við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra um að túlka aðalfréttatíma RÚV í sjónvarpi kl. 19 og hefst túlkunin 1. september 2021. Á sama tíma verður byrjað að senda Krakkafréttir út með táknmálstúlkun á RÚV. 

Með táknmálstúlkuðum fréttatímum er aðgengi döff fólks að fréttum aukið að mun. Sögu sérstakra táknmálsfréttatíma lýkur um leið og táknmálstúlkun með fréttatímum verður tekin upp.  

Táknmál á RÚV í 40 ár 

Árið 1980 var byrjað að flytja fréttir á táknmáli í sjónvarpinu og upp frá því hafa táknmálsfréttir verið á dagskrá hvern dag. Óhætt er að segja að þetta hafi verið bylting fyrir döff fólk á Íslandi sem fram að því hafði ekki haft aðgang að fréttum á móðurmáli sínu.  

Frá upphafi hefur RÚV haft á að skipa úrvals táknmálstalandi þulum sem hafa staðið vaktina alla daga ársins og flutt yfirlit fyrir helstu fréttir dagsins á móðurmáli sínu. 

Aftur á móti hafa nær engar breytingar orðið á táknmálsfréttum frá því að þær hófust fyrir rúmum fjörutíu árum þrátt fyrir að fréttaflutningur í útvarpi og sjónvarpi hafi stóraukist á þessum tíma. Táknmálsfréttatíminn er stuttur, veitir aðeins yfirlit yfir helstu fréttir fyrri hluta dags, og er dagskrársettur innan um barnaefni. Því er löngu tímabært að huga að breytingum. 

RÚV þakkar táknmálsþulunum, þeim Elsu G. Björnsdóttur, Guðmundi Ingasyni, Kolbrúnu Völkudóttur og Sigurlín Margréti Sigurðardóttur, fyrir vel unnin störf.