RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Páskadagskráin á RÚV

Mynd: RÚV / RÚV
Að vanda er boðið upp á fjölbreytta og vandaða dagskrá á öllum miðlum RÚV um páskana. Nýtt íslenskt efni og skemmtun fyrir alla fjölskylduna verður í öndvegi.

Á skírdag verður sýndur fyrsti hluti af þremur af heimildarmyndinni Lagið um hatrið. Í myndinni er fylgst með ferðalagi Hatara, allt frá því að þau sigruðu í Söngvakeppninni á RÚV 2019. Á föstudaginn langa er kvikmyndin Tryggð frumsýnd í sjónvarpi en myndin er byggð á skáldsögunni Tryggðarpantur eftir Auði Jónsdóttur. Á páskadagskvöld er sjónvarpsmyndin Sóttkví frumsýnd en myndin gerist í Reykjavík í miðri fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins. Síðar um kvöldið er komið að heimildarmynd um Hússtjórnunarskólann í Reykjavík og kvöldinu lýkur á verðlaunamyndinni Hvítur, hvítur dagur í leikstjórn Hlyns Pálmasonar. Að kvöldi annars í páskum er komið að heimildarmyndinni Hvernig Titanic varð björgunarbáturinn minn sem fjallar um hvernig Brynjari Karli tókst að sigrast á einkennum einhverfu og verða virkur þátttakandi í samfélaginu með því að smíða Titanic-líkan úr LEGO-kubbum.

Mynd: Tattarrattat / RÚV

Sérvalið efni fyrir alla fjölskylduna er á dagskrá frá morgni til kvölds um páskana, þar á meðal Múmínálfarnir, Börnin í Ólátagarði, Paddington II, Úr bálki hrakfalla (Lemony Snicket’s Series of Unfortunate Events) að ógleymdri upptöku á leikritinu Mamma klikk! úr smiðju Gunnars Helgasonar. 

Að venju er páskahám í spilaranum og þar má nálgast heilar þáttaraðir með áherslu á innlent og norrænt efni, heimildar- og fræðsluefni.

Fjölbreytt og forvitnileg dagskrá á Rás 1 um páskana

Mynd: RÚV / RÚV

Minning Jóns Múla Árnasonar, sem hefði orðið 100 ára 31. mars, er heiðruð í þættinum Djassprófessorinn og hlýðum á tónleika Stórsveitar Reykjavíkur í Hörpu. Ágúst Ólafsson rifjar upp sprenginguna á Borgarfirði eystra árið 1942 og Anna Marsibil Clausen fær til sín góða gesti í hljóðver og kíkir með þeim inn í veröld Walts Disney. Matthías Tryggvi Haraldsson veltir upp áhugaverðum hugmyndum um dauðann í þáttunum Allir deyja og Fanney Benjamínsdóttir og Hallveig Eiríksdóttir kynna okkur fyrir fólki sem hefur valið að fara óhefðbundnar leiðir í lífinu í þáttunum Lífsformið.

Frumflutt verður glænýtt útvarpsleikrit, Vorar skuldir, eftir leikhópinn Kriðpleir og söngvarinn ástsæli Björgvin Halldórsson rekur lífshlaup sitt og tónlistarferil í þáttunum Þó líði ár og öld.

Tómas Ævar og Snorri Rafn færa okkur þáttaröðina Ratsjá: Eftirlit en í þáttunum er eftirlit rannsakað út frá hlutverki, sögu og áhrifum tækninnar. Ævar Kjartansson fræðir okkur um Magnús Eiríksson sem var einhver afkastamesti höfundur Íslands um guðfræðileg efni. Hann var ákaflega gagnrýninn á margt í samtíð sinni og tók þátt í umræðu um kvenfrelsismál og pólitík auk meginviðfangsefnis lífs síns, að gagnrýna ríkjandi kenningar í guðfræði samtímans.

Tónlistin skipar einnig stóran sess í páskadagskránni á Rás 1. Hallveig Rúnarsdóttir syngur Travesing the Void, Í gegnum tómið, eftir Hildigunni Rúnarsdóttur í hljóðritun frá tónleikum Kammermúsíkklúbbsins. Flutt verður hljóðritun frá tónleikum í Langholtskirkju þar sem Jóhannesarpassía Bachs var flutt á einstæðan hátt. Einnig verður leikin upptaka á tónleikum í Salnum í Kópavogi með framúrskarandi flutningi Jóhanns Kristinssonar og Ammiel Bushakevitz á Des Knaben Wunderhorn eftir Gustav Mahler.

Af tónlistartengdum þáttum má nefna Óperuna okkar þar sem Árni Kristjánsson kannar hræringar í heimi óperulistarinnar á Íslandi með góðum gestum. Guðni Tómasson og Árni Heimir Ingólfsson fjalla um lífshlaup fransk-flæmska tónskáldsins Josquin des Prez en hann var eitt helsta tónskáld endurreisnartímans og fyrsta súperstjarna vestrænnar tónlistarsögu. Þetta og margt fleira á dagskrá Rásar 1 um páskana.

Að vanda býður Rás 2 upp á fjölbreytta tónlistar-, fræðslu- og skemmtidagskrá alla páskana

Mynd: RÚV / RÚV

Felix Bergsson vaknar með hlustendum á skírdag og föstudaginn langa í þættinum Bergsson í beinni. Í þættinum fær Felix áhugaverði gesti í heimsókn og heyrir í hlustendum um land allt. Heiðin er spennuþrunginn sakamálaþáttur þar sem Snærós Sindradóttir fjalla um tvo unga menn sem hurfu á Steingrímsfjarðarheiði í mars 1991. Heiðin er á dagskrá strax eftir hádegisfréttir á skírdag, föstudaginn langa og laugardag um páska. Jón Ólafsson verður á léttu nótunum með þátt sinn Fjölskylduplöturnar á skírdag þar sem hann fjallar um og spilar tónlist af eftirlætisfjölskylduplötum Íslendinga í áranna rás. Fjallið ræður eru nýir þættir úr smiðju Hólmfríðar Dagnýjar Friðjónsdóttur þar sem hún ræðir við íbúa Seyðisfjarðar og færir hlustendum ósagðar sögur í kjölfar aurskriðunnar semféll á bæinn í desember 2020. Fjallið ræður er á skírdag, föstudaginn langa og páskadag kl. 17. 

Á föstudaginn langa ræðir Vigfús Egill Vigfússon við tónskáldið Atla Örvarsson um poppstjörnuárin á Íslandi og tímana í Hollywood í þættinum Frá L.A. til Akureyrar. Úrslit ráðast í tónlistarútgáfu Heilahristings og Atli Már segir okkur frá uppruna páskahátíðarinnar í sérútgáfu af Þú veist betur. Á annan í páskum fjallar Rúnar Róberts um tónskáldið Freddie Mercury og spilar mörg af bestu lögum þessa vinsæla tónlistarmanns. Sama dag verður Gígja Hólmgeirsdóttir í beinni frá Akureyri. Hún fær til sín góðan gest hringir hringinn í kringum landið og athugar hvernig páskarnir fóru í fólk þetta árið. 

Fastir liðið verða einnig á sínum stað. Þossi og Doddi litli stýra páskavaktinni þar sem þeir sérvelja tónlist og heyra í hlustendum. Óli Palli verður í rokkgír í Füzztudeginum langa, Salka Sól skapar þægilega kaffistemningu og Atli Már tekur á móti óskalögum á laugardaginn. Matthías Már velur svo brot af því besta úr tónleika- og viðtalsþáttunum Tónatali. Þeir Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson sjá svo til þess að engum leiðist á meðan að páskamaturinn er snæddur yfir Tvíhöfða.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV Grafik - RUV
31.03.2021 kl.11:54
vefritstjorn's picture
Vefritstjórn
Birt undir: Í umræðunni