Mannlegi þátturinn

Árljóð á nýársdag, seinni hluti örsagna og Júlía og þríþrautin á Heilsuvaktinni

Á fyrsta degi ársins 2026 munu þrjátíu íslensk skáld standa fyrir óslitinni ljóðadagskrá, Árljóðum, frá sólarupprás til sólarlags. Þetta verður níunda árið sem dagskráin fer fram, og í þetta sinn í Hljómskálanum. Þar munu skáldin lesa, kveða og þylja meðan lesbjart er frá kl.10 morgni 1. janúar. Tveir fulltrúar skáldanna og sýningarstjórar viðburðarins, Ragnar Helgi Ólafsson og Kristín Ómarsdóttir, komu í þáttinn og sögðu okkur betur frá.

Við heyrðum svo seinni hluta örsagna Blekfjelagsins, félags meistaranema í ritlist en árlega kemur út bók fyrir jólin sem heitir einfaldlega jólabókin. Þetta er í fjórtanda sinn sem jólabókin kemur út, fyrsta kom árið 2012 og þá máttu sögurnar einungis innihalda 100 orð. Á hverju ári fækkar orðunum um eitt og fyrir vikið mega sögurnar einungis innihalda 87 orð. Í ár er þemað „kyngja“, og samanstendur bókin af smásögum og ljóðum eftir 17 höfunda. Við heyrðum fyrri hluta örsagnanna í gær og í dag var seinni hlutinn fluttur. Höfundar sagnanna í dag voru Katrín Mixa, Ágúst Elí Ásgeirsson, Elías Knörr, Arnhildur Hálfdánardóttir, Birta Svavarsdóttir, Margrét Seema Takyar, Sólveig Hauksdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir.

Svo fengum við í dag síðustu Heilsuvakt ársins með Helgu Arnardóttur. Júlía Þorvaldsdóttir gaf sjálfri sér í fimmtugsafmælisgjöf klára hálfan járnkarl í október síðastliðnum. Keppnin fór fram í Portúgal og fól í sér ótrúlegan fjölda kílómetra í þremur greinum, þ.e. hlaupi, sundi og á hjóli. Júlía hafði ekki keppt í íþrótt síðan hún var 12 ára eða hlaupið í 35 ár. Júlíu tókst hins vegar klára þetta mikla afrek. Við heyrðum fyrri hlutann af þeirra spjalli í dag en seinni hlutinn verður fluttur í næstu Heilsuvakt 13.janúar.

Tónlist í þættinum:

Ferðalangur til framtíðar / Stefán Hilmarsson (Stefán Örn Gunnlaugsson, texti Friðrik G. Sturluson)

June in January / Dean Martin (Leo Robin & Ralph Rainger)

UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Frumflutt

30. des. 2025

Aðgengilegt til

Rennur ekki út

Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins. Okkur er ekkert mannlegt óviðkomandi. Alla virka daga milli kl. 11-12 á Rás 1.

netfang: [email protected]

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

Þættir

,