Þar sem áreiðanlegar rannsóknir liggja fyrir, kemur í ljós að um það bil einn af hverjum fimm fullorðnum einstaklingum, upplifir námsörðugleika eins og lesblindu (dyslexia), reikniröskun (dyscalculia) eða áskoranir sem tengjast athygli, minni eða öðrum hugrænum ferlum. Þessir erfiðleikar hverfa ekki eftir að skólagöngu lýkur. Þeir hafa áhrif á daglegt líf fjölda fólks og hvernig því gengur í samfélaginu. Stafræn umbreyting, sjálfvirkni, og þörfin fyrir stöðuga endurmenntun setja vaxandi kröfur á alla starfsmenn. Í þessu umhverfi geta óþekktir námsörðugleikar orðið falin hindrun, hindrun sem hefur áhrif á atvinnu, vellíðan og jafnrétti. Guðmundur S. Johnsen er formaður félags lesblindra á Íslandi og hann kom í þáttinn í dag.
Magnús Eiríksson tónlistarmaður er fallinn frá. Hann var auðvitað risi í íslensku tónlistarlífi sem samdi gríðarlegt magn af lögum og textum sem eru samofin íslensku þjóðarvitundinni. Öll lögin í þættinum í dag voru af þessu tilefni eftir Magnús og svo töluðum við við Ágúst Guðmundsson leikstjóra, en heimildarmynd um Magnús Eiríksson sem hann og Jón Þór Hannesson hafa verið að vinna í undanfarin tvö ár er á lokametrunum. Við fengum hann til að segja okkur aðeins frá Magnúsi og þessari heimildarmynd.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var svo Sigríður Björg Tómasdóttir miðlunarstjóri Kópavogs. Við byrjuðum á því að forvitnast um hvað miðlunarstjóri gerir og svo sagði hún okkur auðvitað frá því hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina. Sigríður Björg talaði um eftirfarandi bækur og höfunda:
Móðurást - Sólmánuður e. Kristín Ómars
Huldukonan e. Fríða Isberg
Fyrir vísindin e. Anna Rós Árnadóttir
Um veturinn e. Karl Ove Knausgaard
Clear e. Carys Davies
Andrabækurnar eftir Pétur Gunnarsson
Astrid Lindgren
Tónlist í þættinum:
Kóngur einn dag / Magnús Eiríksson og KK (Magnús Eiríksson)
Þú gerir allt svo vel / Mannakorn (Magnús Eiríksson)
Ég er á leiðinni / Brunaliðið (Magnús Eiríksson)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON