Saxófón- og klarínettleikarinn, tónskáldið og útsetjarinn Haukur Gröndal fagnar 50 ára afmæli með stórtónleikum í Norðurljósasal Hörpu annað kvöld. Haukur á að baki yfir þrjátíu ára feril í íslensku og alþjóðlegu tónlistarlífi, þar sem hann hefur skapað sér einstakan sess fyrir frumlega rödd. Við fórum aðeins með honum yfir ferilinn í dag og hann sagði okkur frá tónleikunum.
Blekfjelagið er félag meistaranema í ritlist og árlega kemur út bók fyrir jólin sem heitir einfaldlega jólabókin. Þetta er í fjórtanda sinn sem jólabókin kemur út, sú fyrsta kom árið 2012 og þá máttu sögurnar einungis innihalda 100 orð auk titils. Á hverju ári fækkar orðunum um eitt og fyrir vikið mega sögurnar í ár einungis innihalda 87 orð. Í ár er þemað "Kyngja", og samanstendur bókin af örsögum og ljóðum eftir 17 höfunda. Undanfarin ár hafa þau komið í Mannlega þáttinn og lesið upp verkin sín og svo er einnig í ár. Við heyrðum fyrri hluta örsagnanna í dag og svo verður seinni hlutinn á dagskrá í þættinum á morgun. Höfundar í fyrri hluta: Móeiður Helgadóttir, Sigurlína Hermannsdóttir, Sturla Óskarsson, Ásta H. Ólafsdóttir, Jóhannes Árnason, Áslaug Ýr Hjartardóttir, Inga Maren Rúnarsdóttir, Lovísa Rut Kristjánsdóttir og Vala Hauks.
Svo fengum við Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafa, sem hefur leitt okkur í gegnum mannlegu samskiptin á fimmtudögum í þættinum, enda geta samskipti verið afar flókin. Nú eru að koma áramót og því skoðaði Valdimar ýmislegt sem kemur upp á slíkum tímamótum og hvernig getur verið gott að snúa sér.
Tónlist í þættinum:
Þá komu jólin / Sigurður Guðmundsson og Memfismafían (Roy Orbison og Joe Melson, texti Bragi Valdimar Skúlason)
A Trip to Florina / Byzantine Silhouette (Byzantine Silhouette)
Better Than Snow / Laufey og Norah Jones (Laufey & Norah Jones)
Fairytale of New York / The Pogues & Kirsty McColl (Jem Finer & Shane MacGowan)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON