Síðdegisútvarpið
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.
Í dag er ár liðið frá því að hoppukastali við Skautahöllina á Akureyri tókst á loft með fjölda barna innanborðs. Nokkur börn voru flutt á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar en ein stúlka sem slasaðist alvarlega var flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Endurhæfing Klöru litlu sem nú er sjö ára er enn í fullum gangi en nú er ljóst að hún muni búa við einhverja hreyfihömlun og málerfiðleika til frambúðar. Ættingar og vinir, fjölskyldu Klöru stofnuðu í kjölfar slyssins áheita- og styrktarsíðuna, Áfram Klara á Facebook. Auk þess er hópur fólks í kringum Klöru sem við höfum heyrt áður í hér í Síðdegisútvarpinu að taka þátt í Landvættum. Þau hafa þegar lokið einhverjum þrautum en eru að fara að hamast aftur núna um helgina. Auðbjörg Björnsdóttir verður á línunni á eftir.
Við fáum kvikmyndarýni á föstudegi en kvikmyndarýnirinn Ragnar Eyþórsson skellti sér í bíó í vikunni til að sjá stórmyndina Elvis. Myndin fjallar eins og titillinn gefur til kynna um ævi goðsagnarinnar Elvis Presley sem leikinn er af Austin Butler og það er enginn annar en stórleikarinn Tom Hanks sem leikur umboðsmann Elvis í myndinni. En meira um það hér á eftir.
Fyrsta stóra ferðahelgi sumarsins er um það bil að hefjast, landinn hefur komið kolagrilli fyrir í skottinu og tjöldum. Lykilspurning er auðvitað hvernig verður veðrið. Sigurður Þ. Ragnarsson eða Siggi stormur eins og alir þekkja hann, ætlar að spá í spilin með okkur í Síðdegisútvarpinu á eftir.
Já, talandi um ferðahelgi! Við tökum við púlsinn á Skagamönnum en bæjarhátíðin írskir dagar hófust þar í gær. Rauðhærðasti Íslendingurinn verður krýndur venju samkvæmt - þétt og mikil dagskrá. Fríða Kristín Magnúsdóttir viðburðarstjóri verður á línunni og fer yfir allt það helsta.
Herbert Guðmundsson er á leið á Þjóðhátíð í Eyjum þar sem hann mun skemmta í fyrsta sinn. Herbert er auðvitað í skýjunum með það, og við eigum von á honum hingað til okkar á eftir í gleðivímu.
Hjólhýsabyggðin á Laugarvatni verður lögð af. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar ákvað í vikunni að ganga ekki að skilyrtu tilboði hjólhýsaeigendanna enda væri sveitarfélaginu það óheimilt. Hjólhýsabyggðin hefur verið á Laugarvatni í 50 ár og haft leigusamning við sveitarfélagið, nú Bláskógabyggð. Margir hjólhýsaeigendur hafa lagt mikla vinnu í að gera fínt í kringum sig og líka byggt skúra, palla og grindverk. Nú eru um 140 hjólhýsi þarna en þau voru tæp 200. Á línunni er Þórður Magnússon hjólhýsaeigandi á svæðinu til margra ára.
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.