Síðdegisútvarpið
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.
Inniviðaráðherra hefur ákveðið að fjölga leigubílaleyfum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum um hundrað. Breytingarnar eru gerðar til að koma til móts við óskir í samfélaginu um meiri þjónustu á leigubílamarkaði. Daníel O. Einarsson formaður Frama segir fjölgun atvinnuleyfa muni ekki leysa neitt, fjölga þyrfti leigubílstjórum. Það þurfi líka hafa strangara eftirlit til að koma í veg fyrir svartan akstur. Daníel kemur til okkar á eftir og ræðir stöðu leigubílamála á íslandi.
Hvað er hraunbrú? Magnús Rannver Rafnsson, verkfræðingur hjá Línudansi ehf. veit allt um það en Magnús setti fram hugmyndir um hraunbrú þegar eldgosið í Fagradalsfjalli stóð sem hæst. Um er að ræða mannvirki, eða stokk, sem lagður er yfir vegi eða lagnir sem Magnús segir að sé sérstaklega hentugur valkostur til að verja hitaveitulagnir og aðra línulega formaða innviði með varanlegum hætti.
Nú á dögunum hófst prufukeyrsla strætóskólans en markmið þess verkefnis er að kenna grunnskólabörnum á aldrinum tíu til tólf ára á strætó svo þau geti orðið sjálfstæðir notendur. Um er að ræða samstarfsverkefni Vistorku, Orkusetursins og Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar. Í skólanum læra börn um ávinning þess að nota strætó, bæði umhverfis- og fjárhagslegan. Þá læra þau einnig að lesa úr tímatöflum, leiðakerfum og hvernig sé best að skipuleggja ferðir sínar. Eyrún Gígja Káradóttir verkefnastjóri fræðslumála hjá Vistorku segir okkur frá þessu.
Fíflar og birkilauf eru það ekki bara fíflar og birkilauf ? Nei ekki segir Dísa Óskars sem ætlar að segja fólki hvað hægt sé að gera úr þessum hráefnum. Við heyrum í Dísu í þættinum.
Það var mikil spenna í loftinu í dag þegar Airbus 319-vél Niceair kom frá Portúgal og lenti á Akureyrarflugvelli. Fjöldi fólks var viðstaddur þegar vélin lenti í fyrsta skipti á vellinum þar sem félagið rekur nú starfsemi sína. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson framkvæmdarstjóri Niceair verður á línunni.
Ekki eru allir sammála um hvort lúsmýið sé mætt þetta sumarið. Kolbrún Björnsdóttir grasalæknir segir lúsmýið sannarlega komið á sumarbústaðasvæði við Heklu, þar sem hún á sumarbústað. Undanfarin sumur hafa margir verið illa bitnir af lúsmýinu og notast við hin og þessi ráð til þess að forðast bit. Meindýraeyðir segir lúsmýið komið til að vera hér á landi og að við þurfum að læra að lifa með því. Eru til einhver ráð eða töfrlausnir í sambúð með lúsmýinu. Kolbrún Björnsdóttir grasalæknir er hingað komin.
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.