Síðdegisútvarpið
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.
Decca Records, sem er í eigu Universal Music Group, hefur gert útgáfusamning við íslenska tónskáldið Gabríel Ólafs. Gabríel, sem er 23 ára, er fyrsti Íslendingurinn sem gefur út verk sín undir merkjum Decca Records en frá árinu 1928 hafa þekktustu tónlistarmenn sögunnar á sviði klassískrar tónlistar og djass gefið út plötur sínar á vegum þess. Gabríel kemur til okkar í Síðdegisútvarpið á eftir.
Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó segir að þrátt fyrir háværa gagnrýni í garð fyrirtækisins á samfélagsmiðlum hafi í heildina gengið vel að ferja fólk niður í bæ á Menningarnótt. Margir hverjir kvörtuðu sáran yfir því að vagnar væru ýmist of fáir, of seinir eða keyrðu oftar en ekki fram hjá fólki. Frítt var í vagnana á laugardaginn var, en það er orðin hefð fyrir slíku á Menningarnótt. Jóhannes Svavar mætir til okkar á eftir og ræðir við okkur.
Í morgun hófst alþjóðlegt siglingarmót á Pollinum við Akureyri. Mótið heitir Rs Aero Arctic og sstendur það til miðvikudags. Þetta er fyrsta alþjóðlega mótið í kænusiglingum á Íslandi í aldarfjórðung, síðan Smáþjóðaleikarnir fóru fram í Reykjavík 1997, og það fyrsta á Akureyri. Siglingarfélagið Nökkvi heldur utan um mótið og við heyrum í formanni félagssins, Tryggva Jóhanni Heimissyni.
Fyrir skemmstu opnaði Hafnartorg Gallery, nýr áfangastaður með áherslu á mat, menningu og verslun dyr sínar við Geirsgötu í Reykjavík með glænýjum verslunum og veitingastöðum í hjarta miðborgarinnar. Opnunin markar tímamót í uppbyggingu svæðisins milli Lækjartorgs og Hörpu sem hefur staðið yfir í um 10 ár en er senn að ljúka. Í tilefni af tímamótunum heyrum við í Finni Boga Hannessyni þróunarstjóra Hafnartorgs á sjötta tímanum.
Kastljós hefur göngu sína að nýju að loknum fréttum í kvöld. Baldvin Þór Bergsson ritstjóri Kastljóssins kemur til okkar á eftir og ræðir það sem framundan er.
En við byrjum á þessu. Ekki hefur verið virkni í gígnum í Meradölum síðan í gærmorgun. Ekki er ósennilegt að gosrásin sé að stíflast, að sögn hópstjóra náttúruvár á Veðurstofu Íslands. Fluglitakóði hefur verið færður úr appelsínugulum yfir í gulan og björgunarsveitarmaður segir færri leggja leið sína að gosstöðvunum. Á línunni er Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdarstjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.