Síðdegisútvarpið
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.
Oddný Silja Friðriksdóttir er ljósmóðurfræðinemi og þriggja barna móðir sem stofnaði fésbókar hópinn Umhverfisvænar brúðkaupshugmyndir. Oddný ætlaði sjálf að gifta sig árið 2020 en þá kom heimsfaraldur sem stoppaði þær áætlanir. Í brúðkaupsundirbúningnum komst hún að því að það er brjáluð neysla sem fylgir þessum dögum og fór að velta fyrir sér leiðum til að gera brúðkaup umhverfisvænni. Oddný ætlar að koma í Síðdegisútvarpið og fara yfir nokkrar umhverfisvænar brúðkaupshugmyndir með okkur þannig að verðandi brúðhjón geti minnkað kolefnisfótspor síns brúðkaups.
Lífskraftur stendur fyrir vitundarvakningu og sölu á Lífskraftshúfum til stuðnings fjölskyldum og einstaklingum sem glíma við krabbamein og ófrjósemi í kjölfar krabbameinsmeðferðar. Þörfin fyrir stuðning er brýn og mikilvægt að tryggja bæði fræðslu og efla ferla innan heilbrigðiskerfisins. Una Ýr Jörundsdóttur, frá Grundarfirði glímir við ólæknandi/krónískt krabbamein sem er haldið niðri með lyfjameðferð. Una hefur fundið mikinn kraft í gegnum Lífskrafts-verkefnið. Hún er með áhugaverða sögu af erfiðri greiningu en árum saman leitaði hún til læknis án þess að fá greiningu. Hún kemur til okkar á eftir.
Arnheiður Jóhannsdóttir hjá Markaðsstofu Norðurlands mun koma til okkar á eftir til að ræða ferðasumarið fyrir norðan.
Óstöfðandi kærleiksprinsinn, popparinn og góðvinur Síðdegisútvarpssins Herbert Guðmundsson ætlar einnig að kíkja í kaffi með sína einstöku heimsspeki og nýtt lag í þokkabót!
Talið er þúsundir auðkýfinga með auðæfi metin á yfir milljón dollara, muni flýja Rússland á þessu ári. Um hundrað þúsund einstaklingar í Rússlandi eru milljónamæringar. Samkvæmt gögnum frá Henley & Partners hafa rússneskir auðkýfingar verið að flýja land síðustu ár og hefur innrás Rússa í Úkraínu ýtt verulega undir flóttann en talið er að margir milljónamæringar í Rússlandi séu ósáttir við þá ákvörðun Pútíns að ráðast inn í Úkraínu. The Guardian fjallaði um málið á dögunum og þar var ritað að sögulega séð hafi mörg ríki fallið eftir að ríkasta fólkið fór að flýja land. Helgi Steinar Gunnlaugsson kemur til okkar á eftir og ræðir stöðuna í Rússlandi.
Akureyri er þessa stundina að fyllast af allskyns tryllitækjum í formi bíla og mótorhjóla. Það er von á fleiri hestöflum á svæðið þar sem Bíladagar 2022 fara fram um helgina. Einar Gunnlaugsson formaður Bílaklúbbs Akureyrir hefur haft í nógu að snúast þar sem klúbburin heldur hátíðina. Hann er komin til okkar í hljóðver á Akureyri.
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.