Síðdegisútvarpið
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.
Styttunni af Guðríði Þorbjarnardóttur var í síðasta mánuði stolið af stöpli á Laugarbrekku á Snæfellsnesi. Síðar kom í ljós að verkið sem heitir Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku hafði verið tekið og notað í nýtt verk eftir þær Bryndísi Björnsdóttir og Steinunni Gunnlaugsdóttir og nefndu þær verkið Farangursheimild og var því stillt upp fyrir framan Nýlistasafnið. Lögreglan fjarlægði í kjölfarið verkið en hvar er Guðríður nú ? Á línunni verður Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar.
Veisla eru nýir lífstíls og matarþættir sem hafa hafið göngu sína á RÚV en í þáttunum ferðast Dóri DNA um landið ásamt Gunnari Karli Gíslasyni Michelin kokki. Falleg náttúra, mannlif, matur og tónlist kemur við sögu í þáttunum sem þykja vel heppnaðir. Dóri verður gestur okkar í Síðdegisútvarpinu á eftir.
Á morgun hefst viðamikil vorráðstefna sem hefur yfirskriftina Börn með fatlanir - Virkni og velferð. Það er Ráðgjafar- og greiningarstöð eða RGR sem stendur fyrir ráðstefnunni og á dagskrá verða mörg ólík málefni sem snerta fötluð börn og börn með þroskaraskanir. Þar verður rætt um íþróttastarf fyrir fötluð börn, tónlitsarkennslu fyrir börn með sérþarfir, svefnvanda og bragðlaukaþjálfun. Auk þess verða kynntar niðurstöðurrannsóknar á áhrifum samkomutakmarkana á líðan barna með sérþarfir. Soffía Lárusdóttir forstjóri RGR og Dóra Magnúsdóttir fræðslu og kynningarstjóri RGR koma til okkar á eftir og fara yfir þessi mál með okkur.
Veiðikortið er að hefja sitt átjánda starfsár. Allt frá fyrsta degi hefur Veiðikortinu verið mjög vel tekið enda hefur verið boðið upp á frábæra valkosti í vatnaveiði. Ingimundur Jón Bergsson hjá Veiðikortinu verður á línunni síðar í þættinum en við ætlum að ræða við hann um þetta fyrirbæri Veiðikortið.
Ólafur Heiðar Helgason hefur áralanga reynslu af hlaupum og útivist og mikla þekkingu á íslenskri náttúru og staðháttum. Í nýrri bók Hlaupahringir á íslandi sem Ólafur var að senda frá sér er fjallað um úrval íslenskra hlaupaleiða ásamt sögulegum fróðleik og nákvæmum leiðarlýsingum. Ólafur kemur til okkar í Síðdegisútvarpið.
Rússar halda enn uppi þungum árásum á úkraínsku hafnarborgina Odesa við Svartahaf. Vestrænir embættismenn og sérfræðingar hafa varað við því, að hafnbann og árásir Rússa á borgina séu ógn við mataröryggi allrar heimsbyggðarinnar. Markús Þórhallsson fréttamaður kemur til okkar.
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.