22:08
Mannlegi þátturinn
Vinir með söngleikjastæla, samskipti á vinnustaðnum og Eyjólfur og langspilið

Um litróf mannlífsins. Okkur er ekkert mannlegt óviðkomandi. Alla virka daga milli kl. 11-12 á Rás 1.

netfang: [email protected]

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

Leikararnir Bjarni Snæbjörnsson og Vala Kristín Eiríksdóttir kynntust á spunanámskeiði fyrir 10 árum og þau tengdu svo vel að Bjarni spurði hana formlega hvort hún vildi vera vinkona hans. Síðan þá hafa þau ferðast saman, unnið saman og verið til staðar ef eitthvað bjátar á. Við ræddum við þau í þættinum í dag um þennan góða vinskap og ást þeirra á tónlist úr söngleikjum og teiknimyndum, en þau, ásamt Karli Olgeirssyni eru með það sem þau kalla söngleikjastæla í Salnum á næstunni.

Svo voru það mannlegu samskiptin með Valdimari Þór Svavarssyni. Hann tók upp þráðinn frá því í síðustu viku, þegar hann var að tala um samskipti á vinnustaðnum, að vera helgaður, eða óhelgaður í vinnunni og svo hvernig meðvirkni getur litað samskiptin þar eins og annars staðar.

Eyjólfur Eyjólfsson tenórsöngvari fjallaði um Langspilið og notagildi þess í námi í grunnskóla, í meistaraverkefni sínu í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Í dag hefur Langspilið nánast yfirtekið líf hans með ýmsum hætti, hann rekur tónlistarsmiðju þar sem hann kennir á Langspilið, bæði á grunnskólastigi og háskólastigi. Smiðjunni er einnig ætlað að vekja börnin tilumhugsunar um menningararf og alþýðumenningu fyrri tíðar. Eyjólfur kom með langspilið, spilaði fyrir okkur og leyfði okkur meira að segja að prófa.

Tónlist í þættinum:

Í kjallaranum / Óðinn Valdimarsson og KK sextettinn (Jón Sigurðsson)

Þú ert ungur enn / Erling Ágústson (Price og Logan, texti Erling Ágústsson)

Limbó Rokk / Ragnar Bjarnason (erlent lag, texti Valgeir Sigurðsson)

UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 50 mín.
,