Breska tónskáldið Edward Elgar fæddist árið 1857 og lést 1934. Í þessum þætti verður fjallað um eitt frægasta verk hans, „Enigma-tilbrigðin“ sem hann samdi á árunum 1898-99. Þetta er hljómsveitarverk, stef og 14 tilbrigði, en hvert tilbrigði vísar til einhvers af vinum Elgars og gefur tónskáldið í skyn um hvern sé að ræða hverju sinni með því að setja upphafsstafi eða gælunafn við hvert tilbrigði. Elgar sagði að „Enigma“ eða „Ráðgáta“ væri nafnið á stefinu og önnur ráðgáta væri líka falin í verkinu: sjálft stefið væri kontrapunktur við alþekkt lag. Ýmsir tónlistarmenn hafa reynt að komast að því hvaða lag sé átt við, en engin endanleg lausn fundist á þeirri ráðgátu. Í þættinum verður verkið leikið í nokkrum köflum svo að hlustendur geti áttað sig betur á einkennum hvers tilbrigðis. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir.