Árið 1697 kom út í París ævintýrabók með titlinum „Sögur gæsamömmu“. Bókin var þýdd yfir á ensku snemma á 18. öld og skömmu síðar voru ensk þjóðkvæði fyrir börn gefin út undir heitinu „Söngur gæsamömmu“. Eftir það hafa ensk barnakvæði verið gefin út margsinnis í bók undir heitinu „Gæsamamma“ (Mother Goose). Mörg Gæsamömmukvæðin hafa verið þýdd yfir á íslensku og hafa þar komið til þýðendur á borð við Stefán Jónsson, Kristján frá Djúpalæk og Böðvar Guðmundsson. Hið alþekkta barnakvæði „Kisa mín, kisa mín, hvaðan ber þig að?“ er til dæmis eitt af kvæðunum úr Gæsamömmusafninu. Í þessum þætti verður flutt tónlist við Gæsamömmukvæðin, hlustendur fá að heyra ensku þjóðlögin sem fylgja þeim, en einnig lög sem Atli Heimir Sveinsson, Ólafur Gaukur og Magnús Þór Sigmundsson hafa samið við íslenskar þýðingar á kvæðunum. Þá verða flutt verk sem tengjast Gæsamömmu eftir tónskáldin Robert Schumann og Maurice Ravel. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir, en lesari er Björn Þór Sigbjörnsson.