16:05
Síðdegisútvarpið
19.janúar
Síðdegisútvarpið

Þau Valur Grettisson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Læknadagar 2023 voru settir 16. jan. í Hörpu. Mörg áhugaverð málþing eru á dagskrá Læknadaga og gefst okkur nú ekki tími til að þylja upp yfirskrift þeirra allra en svo við nefnum eitthvað þá er til dæmis fjallað um áhrif snjalllausna á heilbrigðisþjónustu, líðan lækna, skyndidauða íþróttamanna, spurningunni um hvort Ísland sé heilsuspillandi er varpað fram, fjallað er um þjónustu við transfólk og svo langlífi. Á morgun er málþing sem hefur yfirskriftina ASIA-heilkenni - tengsl við sílikon í brjóstapúðum. Til okkar í þáttinn kemur Kristján Erlendsson ónæmisfræðingur sem er einn þeirra sem stendur að því málþingi en hann var einnig einn viðmælenda í fréttaskýringarþættinum Kveik fyrr í vikunnu þar sem teknar voru fyrir meintar heilsuspillandi afleiðingar brjóstapúða. Við ræðum við Kristján strax eftir fimm fréttir.

Fríða Rún Þórðardóttir næringafræðingur og formaður frjálsíþróttadeildar ÍR mætir til okkar á eftir og segir okkur frá stórmóti ÍR í frjálsum íþróttum sem fer fram um helgina. Öll þau sem setja Íslandsmet á mótinu fá borgað í peningum. Meira um það og mótið sjálft hér á eftir.

Það spáir asahláku á morgun eftir mikla kuldatíð. Hvernig getum við sem best undirbúið okkur undir það. Sigurjón Hendriksson varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu verður á línunni hjá okkur en hann starfar í aðgerðastjórn höfuðborgasvæðisins og ætti því að geta hjálpað okkur að huga að forvörnum.

Atli Fannar Bjarkason samfélagsmiðlastjóri RÚV kemur til okkar í dagskrárliðnum Meme vikunnar en þar verður fjallað um áhrif samfélagsmiðla á vinsældir íþróttadykkjarins PRIME

Kristján Jóhannsson stórsöngvari Kristján Nói Sæmundsson veitingamaður og þjónn koma til okkar. Þeir eru komnir í óvænt samstarf á Grazie Trattoria á Hverfisgötu þar sem að Kristján treður upp fyrir gesti á meðan að matreiðslumenn elda uppáhaldsmatinn hans Kristjáns og bera svo fram. Kristján og Kristján hér á eftir.

Í kvöld verður fyrsti þáttur af sex í þáttaröðinni Ímynd - Svipur þjóðar sýndur hér hjá okkur á ruv. Í þáttunum er fjallað um sögu ljósmyndunar á Ísland og ferli íslensku frumkvöðlanna. Hrafnhildur Gunnarsdóttir framleiðir þættina og hún segir okkur frá tilurð þeirra og ástæðunni fyrir því að ráðist var í gerð þeirra.

En við byrjum á þessu: Alexander Kristjánsson fréttamaður er hingað kominn til að fara yfir það helsta sem er að frétta utan úr heimi.

.

Var aðgengilegt til 19. janúar 2024.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,