11:03
Mannlegi þátturinn
Meðvituð matargerð, Það gýs í Eyjum og talsamband við útlönd
Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins.

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

Dóra Svavarsdóttir er matreiðslumeistari og eigandi Culina, sem stendur fyrir ýmis konar námskeiðum og fræðslu sem tengist matreiðslu. Dóra hefur meðal annars staðið fyrir matargöngutúrum með túrista, útbúið jóladagatal með vörum frá smáframleiðendum og haldið utan um námskeið í samstarfi við Vakanda, Landvernd og Kvenfélagasamband Íslands sem hún kallar Eldað úr öllu. Í þessum mánuði heldur hún utan um svipað námskeið í Hússtjórnarskólanum, sem hún kallar Matur og loftlagsbreytingar. Markmið námskeiðanna er að kenna fólki leiðir til þess minnka matarsóun og velja hráefni sem bera ekki með sér þung kolefnisspor. Við ræddum við Dóru í þættinum og fengum hana til þess að gefa okkur einhver ráð í þessum málum.

Á mánudaginn næsta, 23. janúar, eru fimmtíu ár liðin frá gosinu í Heimaey þegar íbúar Vestmannaeyja voru vaktir um miðja nótt og þurftu að yfirgefa heimili sín í snarhasti. Gosið hófst um klukkan 2 um nótt en útsending Ríkisútvarpsins hófst tveimur tímum síðar þegar starfsmenn voru ræstir til vinnu í útvarpshúsinu við Skúlagötu. Í þættinum Það gýs í Eyjum eru fyrstu klukkustundirnar í útsendingu Ríkisútvarpsins teknar saman og þannig dregin upp sú brotakennda mynd sem hlustendum útvarpsins var miðlað á fyrstu klukkustundum atburðanna. Við fengum Guðna Tómasson, sem hefur umsjón með þættinum, til að segja okkur betur frá honum.

Og síðasta mánudag, 16.jan. sögðum við frá því í upphafi þáttarins þegar við vorum að rifja upp sögu dagsins að þann dag, 16 janúar árið 1947 hafi verið opnað talsímasamband milli Íslands og Bandaríkjanna í fyrsta sinn. Sigurður Harðarson rafeindavirki heyrði þetta og sendi okkur hljóðupptöku af þessu fyrsta talsímtali vestur um haf auk kafla úr bókinni Rafeindatækni í 150 ár, þar sem þessum viðburði er lýst. Við höfðum samband við Sigurð og fengum hann til að koma í þáttinn til að segja okkur betur frá þessu og við heyrðum brot af þessari merku upptöku frá árinu 1947.

Tónlist í þættinum í dag:

Drullukalt / Langi Seli og skuggarnir (Axel Hallkell Jóhannesson, Jón Þorleifur Steindórsson (Jón Skuggi))

Heimaey / Brynjólfsbúð (Árni Sigfússon)

Grænmetisvísur / Úr sýningu Þjóðleikhússins (Thorbjörn Egner og Kristján frá Djúpalæk)

Í síma / KK (Ólafur Haukur Símonarson)

UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG MELKORKA ÓLAFSDÓTTIR

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 50 mín.
,