06:50
Morgunútvarpið
19. jan - hláka, danska, málfrelsi og konutogarinn
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Rúnar Róbertsson.

Útlit er fyrir að opnað verði safn í Selárdal á sunnanverðum Vestfjörðum um einsetumanninn Gísla á Uppsölum. Búið er að tryggja þrjá fjórðu hluta fjármagnsins til verksins en það kom frá laxeldisfyrirtækinu Arnarlaxi. Við ræddum við forsvarsmann Félags um safn Gísla á Uppsölum, Kára Schram.

Í þeirri hlákutíð sem veðurspár gera ráð fyrir um helgina má gera ráð fyrir að álag á fráveitukerfi verði með þeim hætti að þau hafi ekki undan vatnsflaumnum sem slíkar aðstæður geta skapað. Við ræddum við Jón Trausta Kárason, forstöðumann Vatns- og fráveitu hjá Veitum, um hvað fólk getur gert til að bregðast við auknu álagi á lagnir og fráveitukerfi um helgina.

Nýleg rannsókn Norrænu ráðherranefndarinnar leiddi í ljós að yfir áttatíu prósent íslenskra ungmenna tali ensku við fólk frá einhverju hinna Norðurlandanna. Þar kom fram að íslensk ungmenni eru rögust við að tala Norðurlandatungumál og að þrátt fyrir að börn læri dönsku, norsku eða sænsku virðist enska hafa nær alveg tekið yfir sem samskiptamál ungs fólks. Við ræddum þessa þróun við Sigríði Ölmu Guðmundsdóttur, formann Félags dönskukennara.

Súsanna Margrét Gestsdóttir, brautarformaður menntunar framhaldsskólakennara við Háskóla Íslands, skrifaði grein í gær þar sem hún fjallaði um ljósmyndir af glærum úr kennslustundum framhaldsskóla sem hafa ratað í fréttir og vakið mikið viðbrögð undanfarið. Hún segir ekkert nýtt að kennarar, ekki síst í samfélagsgreinum þar sem stjórnmálafræði er kennd, séu sakaðir um að ætla að kasta ryki í augu nemenda sinna í pólitískum tilgangi. Það sé áhyggjuefni að hávær krafa sé um þöggun og ritskoðun.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kíkti til okkar í dag en tillögur starfshópa Auðlindarinnar okkar, sem starfa á vegum Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, gera meðal annars ráð fyrir því að fundin verði útgerð sem tilbúin er að gera út togara þar sem amk þriðjungur fiskara eru konur eða kynsegin fólk með það að augnamiði að handstýra sjávarútveginum í átt til aukins jafnréttis.

Málefni tveggja heilbrigðisstarfsmanna eru mjög í deiglunni þessa dagana. Annars vegar var í vikunni þingfest mál hjúkrunarfræðings sem grunuð er um að vera valdur dauða konu á Landspítalanum og hinsvegar hafa mál læknis sem sætir lögreglurannsókn og er grunaður er um að hafa sett sex sjúklinga í tilhæfulausa lífslokameðferð á heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Við ræddum flókin alvarleg atvik við Theódór Skúla Sigurðsson formann félags sjúkrahúslækna.

Var aðgengilegt til 19. janúar 2024.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,