11:03
Mannlegi þátturinn
Hljóðrýmishermun, Gamla bókabúðin og kuldaveðurspjall
Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins.

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Helga Arnardóttir

Sprotafyrirtækið Treble Technologies hefur safnað 8 milljónum evra, eða jafnvirði 1,2 milljarða króna, frá fjárfestum til að koma á markað nýrri tækni í hljóðhönnun. Tæknin sem Treble Technologies þróar þykir bylting í því hvernig hægt er að hanna hljóð og skapa hljóðupplifanir og nýtist í mörgum greinum. Finnur Pind, doktor í hljóðverkfræði, er stofnandi og framkvæmdastjóri Treble, kom í þáttinn í dag og útskýrði fyrir okkur hvað þetta er sem þau eru að hanna og söguna á bak við hugmyndina.

Bræðurnir Eyjólfsson er einstök verslun á Flateyri sem hefur verið í rekstri frá árinu 1914 og er elsta upprunalega verslun Íslands. Allar innréttingar eru upprunalegar, sem og mörg verslunartæki sem eru enn í notkun. Verslunin er rekin af Eyþór Jóvinssyni, hann er langafasonur stofnanda verslunarinnar og er því fjórði ættliður fjölskyldunnar sem tekur við rekstrinum. Auk þess að selja notaðar bækur eftir vigt er verslunin með gott úrval nýrra bóka ásamt vestfirskum gæðavörum. Þá flytur verslunin inn mörg erlend vörumerki sem eiga það öll sameiginlegt að hafa starfað í meira en 100 ár. Í Gömlu bókabúðinni er einnig hægt að ferðast 70 ár aftur í tímann með því að heimsækja kaupmannsíbúðina sem er í sama húsnæði, en hún hefur haldið sér nánast óbreytt frá því að verslunarstjórinn Jón Eyjólfsson lést árið 1950. Við hringdum í Eyþór Jóvinsson í þættinum í dag.

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur kom svo í sitt vikulega veðurspjall í dag. Í dag talaði hún við okkur um kuldakastið þessa dagana og svo litum við aðeins til jólaveðursins.

Tónlist í þættinum í dag:

Allt er gott um jólin / Bjarni Arason (Bjarni Arason og Kristinn G. Bjarnason)

Tendrun / Katrín Halldóra Sigurðardóttir (Hjörtur Ingvi Jóhannsson og Katrín Halldóra Sigurðardóttir)

Christmas time is coming / Dolly Parton (Benjamin Franklin Logan)

And so it goes / Tommy Emmanuel (Billy Joel)

UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 50 mín.
,