06:50
Morgunvaktin
Úkraína, útivist og lofstlagsmál, Heimsglugginn o.fl.
Morgunvaktin

Umsjónarmenn eru Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir.

Sameiginleg útsending rásar 1 og rásar 2.

Jón Björgvinsson, fréttaritari RÚV, hefur verið í Úkraínu undanfarna daga. Í gær ræddi hann við óbreytta borgara við landamæri landsins sem voru ekki að flýja til vesturs heldur að halda gegn straumnum til austurs til að berjast í Úkraínu. Við ætlum að ræða við Jón um stöðuna í landinu og almennt um störf hans en hann hefur farið víða á undanförnum árum, og fjallað um átök í Nagorno Karaback, Afganistan eftir valdatöku Talibana og styrjöldina í Jemen, svo fátt eitt sé nefnt.

Þau sem stunda útivist hafa sum hver séð áhrif loftslagsbreytinga með eigin augum. Til dæmis hörfandi jöklar og aðrar breytingar á náttúru og veðurfari sem greina má betur með hverju árinu sem líður. Ferðafélag Íslands og Stofnun Sæmundar Fróða við Háskóla Íslands standa í kvöld fyrir viðburði fyrir fólk sem hefur áhuga á fjallamennsku en vill tryggja það að það gæti að umhverfisvernd, og sérstaklega loftslagsmálunum, þegar útivistin er stunduð. Til okkar koma Hafdís Hanna Ægisdóttir forstöðumaður stofnunar Sæmundar Fróða og Matthildur Óskarsdóttir sem hefur titilinn Loftslagsleiðtogi.

Fréttir berast nú af óbreyttum borgurum sem falla í innrás Rússa í Úkraínu, að sprengjur falli á skóla og að innviðir á borð við rafmagnslínur, vatnsleiðslur og vegir séu eyðilagðir. Allt þetta er verndað af alþjóðlegum manníðarlögum, Genfarsamningunum og þremur viðbótarbókunum við þá, en Alþjóðaráð Rauða krossins er verndari þeirra, eins og Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi, benti á í grein í gær. VIð ætlum að ræða við hana um lög í stríði og starf samtakanna í átökum sem þessu.

Bogi Ágústsson ræðir um heimsmálin í Morgunvaktinni á hverjum fimmtudegi - og á því er engin undantekning í dag. Umfjöllun um innrás Rússa í Úkraínu voru fyrirferðamikil að þessu sinni.

Maður vex aldrei upp úr góðri fjársjóðsleit er það nokkuð? 13. mars næstkomandi frumsýnir RÚV nýja íslenska heimildamynd um leitarverkefni sem er í gangi þar sem markmiðið er að staðsetja hið nánast goðsagnakennda kaupskip, Het Wapen Van Amsterdam sem fórst árið 1667 á Skeiðarársandi með gífurlegt magn verðmæta um borð. Hátt í 200 manns fórust í strandinu og er þetta enn í dag mannskæðasta sjóslys við Ísland fyrr og síðar. Til okkar koma Jón Ársæll Þórðarson sjónvarpsmaður og Gísli Gíslason en hann átti frumkvæðið að því að fá nokkra vel efnaða kunningja til að fjármagna þessa miklu leit.

Umsjón: Ingvar Þór Björnsson og Snærós Sindradóttir.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,