Viðmælandi okkar í fyrri hluta Tengivagnsins í dag er Eyjólfur Eyjólfsson, tónlistarmaður og þjóðfræðingur. Eyjólfur ástríðumaður um íslenska langspilið og hefur farið óvenjulegar leiðir til þess að auka veg þess síðustu ár. Hann valdi tónlist eftir þema þáttarins, sem í þetta skipti er strengir. Heyrum lagið Heimildaskrá, með þjóðlagatríóinu Gadus Morhua.
Heiglar hlakka til heimsendis er ný bók eftir myndlistarkonuna Ingibjörgu Sigurjónsdóttur, sem var að koma út hjá Tunglinu forlagi. Bókin er óvenjuleg blanda ljóðabókar og sjónlistarverks: Myndir og texti tvinnast saman og kallast á og úr verður Myndlistarbók, ljóðabók eða skáldsaga, bókverk á einhverjum óræðum mærum. Við hittum Ingibjörgu og báðum hana um að lesa aðeins fyrir okkur úr bókinni.
Katelin Marit Parsons er nýdoktor við Árnastofnun og rannsakar handrit skálda og vesturfara. Í þessum pistli er sagt frá nýjum rannsóknum á fyrstu kynnum fólks af pappír hér á Íslandi og víðar. Pappír þótti ekki þarfaþing hérlendis en átti eftir að gjörbreyta sambandi okkar við ritað mál.
Viðtalið í Víðsjá frá árinu 1997. Hjálmar Sveinsson veltir fyrir sér spreylist, graffíti, veggjakroti, fyrirbæri, sem var á þeim tíma mikið hitamál. Hjálmar hitti tvo spreylistamenn, þá Trausta Skúlason og Þorstein Helgason á Café Au Lait.