06:50
Morgunútvarpið
1. des - Orð, bjór og rafmyntir
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Rúnar Róbertsson.

Við héldum áfram að skoða áætlanir um vindorkugarða. Fyrirtækið Zephyr hefur tvöfaldað áform sín um byggingu vindorkuvers á Fljótsdalshéraði og ef ítrustu áætlanir næðu fram að ganga myndi þar rísa vindorkuver sem beislað gæti orku á við tvær Búrfellsvirkjanir eða tvo þriðju af því sem Kárahnjúkavirkjun tekur til sín. Við ræddum við Ketil Sigurjónsson framkvæmdastjóra Zephyr.

Hvað ætla landsmenn að gefa ástvinum sínum um jólin? Nú þegar er komin ansi skýr mynd á jólaverslunina enda mörg verið dugleg að nýta sér afsláttardaga vefverslana. Rannsóknarsetur verslunarinnar kortleggur kortaveltuna og jólaverslunina ár hvert og slumpar meðal annars á það hver jólagjöf ársins verður - og við fengum að heyra betur af henni þegar forstöðumaður Rannsóknarsetursins, Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir, kom til okkar.

Í gær var fjallað um mál þekkts einstaklings sem leitaði til Persónuverndar og sóttist eftir því að fá eytt upplýsingum um sig sem birtar voru í leitarniðurstöðum í leitarvél Google um meint einelti hans. Það var hins vegar niðurstaða Persónuverndar að með hliðsjón af atvinnu mannsins sem kvartaði til stofnunarinnar og hlutverki hans í þjóðlífinu, þá vegi hagsmunir almennings af því að hafa aðgang að umræddum upplýsingum þyngra en einkalífshagsmunir kvartanda. Við ræddum þetta mál og þær reglur sem gilda um réttinn til að gleymast við Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar.

Gengi rafmyntarinnar Bitcoin hefur haldist nokkuð stöðugt undanfarnar vikur en það vakti nokkra athygli í gær þegar sérfræðingar Seðlabanka Evrópu líktu myntinni við fjárhættuspil og ítrekuðu að eftirlitsaðilar og fjármálastofnanir ættu ekki að veta henni lögmæti. Við ræddum stöðu og framtíð stafrænna gjaldmiðla og rafmynta við Kristján Inga Mikaelsson, stjórnarformann í Rafmyntaráði Íslands.

Það eru ansi margir fastir liðir eins og venjulega svona í árslok - tilnefningar til bókmenntaverðlaunanna verða tilkynntar í dag, fljótlega hefja fjölmiðlarnir leit að manneskju ársins og svo framvegis - en í dag hefst líka leitin að orði ársins. Hvað skyldi það nú verða? Anna Sigríður Þráinsdóttir málfarsráðunautur RÚV kíkti til okkar.

Rétt fyrir níu eruð þið, hlustendur góðir, vonandi flest búin með morgunkaffið og farin að huga að næsta drykk - jólabjórnum. Við fórum yfir úrvalið með Laufey Sif Lárusdóttur formanni Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa.

Var aðgengilegt til 01. desember 2023.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,