15:03
Orð um bækur
Orð*um umdeilda hvíldarlækningu, hvítan úlf og handrit að fegurð
Orð um bækur

Orðanna origami á Rás 1. Hugað að öllu mögulegu á sviði bókmenntanna.

Kóperníka heitir nýútkomin skáldsaga úr smiðju Sölva Björns Sigurðssonar hjá Sögur útgáfu. Bókin segir frá tilraunum Finns Kóperníkusar til að hafa uppi á óhugnanlegum morðingja sem nemur líffæri úr fólki. Sagan gerist í Kaupmannahöfn árið 1888, sífílísfaraldurinn geysar, íslenskir strákar rausa um kúgun danaveldis og konur í borginni hittast á stórum fundum og leggja drög að baráttu fyrir auknum réttindum. Sölvi Björn segir frá bókinni í þætti dagsins.

Fyrir mánuði síðan fjallaði Melkorka Gunborg Briansdóttir um bókina Herland eftir bandaríska rithöfundinn Charlotte Perkins Gilman. Í þættinum flytur hún okkur annan pistil um verk Gilmans, að þessu sinni um smásöguna Gula veggfóðrið eða The Yellow Wallpaper. Sagan er skrifuð í lok nítjándu aldar og fjallar um upplifun ungrar konu á fæðingarþunglyndi og þeirri afar umdeildu meðferð sem læknirinn John stingur uppá.

Soffía Bjarnadóttir sendi á dögunum frá sér sitt fimmta skáldverk. Ljóðabókinni Verði ljós, elskan, sem gefin er út af Angústúru, var fagnað með pompi og prakt í Bókabúðum máls og menningar í síðustu viku. Bókin er stórt ljóðverk þar sem kveður sannarlega við nýjan og spennandi tón hjá skáldinu. Við stingum inn eyra í Bókabúðinni í þætti dagsins og heyrum Soffíu segja frá og lesa upp úr verkinu ásamt harmonikkutónum og leiklestri.

Umsjón: Tómas Ævar Ólafsson og Jórunn Sigurðardóttir

Var aðgengilegt til 13. desember 2022.
Lengd: 51 mín.
,