06:50
Morgunútvarpið
13. des. - Unicef, afrekshundur, lyfjanotkun, plastfjall, Jólastjarnan
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir, Rúnar Róbertsson og Hulda G. Geirsdóttir.

Unicef hefur selt svokallaðar sannar jólagjafir í áratug en þær verða vinsælli með hverju árinu, enda sannarlega í anda jólanna að gefa til barna sem minna mega sín í heiminum. Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi, kíkti til okkar og sagði okkur hvað sé í jólapökkunum þegar fólk gefur sannar gjafir.

Tíkin Líf var fyrir skemmstu útnefnd afrekshundur ársins hjá Hundaræktarfélagi Íslands, en Líf hefur sinnt björgunarstörfum frá unga aldri og er sennilega reynslumesti útkallshundur landsins um þessar mundir. Hulda heimsótti Líf ásamt eiganda hennar Guðrúnu Katrínu Jóhannsdóttur, heyrði af afrekum hennar og væntanlegum arftaka.

Samkvæmt tölum Landlæknisembættisins fengu 11,3 prósent íslenskra unglingsstúlkna, á aldrinum 12-17 ára, uppáskrifað þunglyndis eða kvíðalyfjum á síðasta ári. Sú tala hefur vaxið hratt ár frá ári en aldrei verið hærri en árið 2020. Til okkar kom Björn Hjálmarsson, geðlæknir á BUGL, til að tala um þennan viðkvæma hóp og vanlíðanina sem virðist töluverð.

Á föstudag greindi Stundin frá sannkölluðu plastfjalli sem íslensk endurvinnslufyrirtæki hafa komið til Svíþjóðar í endurvinnslu. Úrvinnslusjóður og Umhverfisstofnun hafa talið það með í tölum um endurvinnslu og íslensk endurvinnslufyrirtæki rukkuðu um 100 milljónir króna fyrir að koma því í réttan farveg, en ekkert gerðist. Guðlaugur Þór Þórðarson nýr umhverfis, orku- og loftslagsráðherra, kom til okkar og ræddi þessi mál.

Margir kannast við leitina að Jólastjörnunni, keppni ungra söngvara sem fram fer fyrir jól ár hvert. Fjöldinn allur af bráðefnilegum söngvurum tók þátt og kom fram í áheyrnarprufum í sjónvarpi. Sigurvegarinn í ár hefur nú verið valinn og mun viðkomandi stíga á svið á stórtónleikum Björgvins Halldórssonar, Jólagestum, um komandi helgi. Jólastjarnan sjálf, Fríður París Kristjánsdóttir, kom í heimsókn.

Og svo voru það íþróttir helgarinnar. Gunnar Birgisson íþróttafréttamaður mætti galvaskur í sportspjall með okkur undir lok þáttar og ræddi magnaðan endasprett í formúlunni.

Tónlist:

Sigurður Guðmundsson og Sigríður Thorlacius - Það eru jól.

Silk Sonic - Smokin out the the window.

Sverrir Bergmann og Elísabet Ormslev - Það koma alltaf jól.

Eddie Vedder - Long way.

Baggalútur og Dísa Jakobs - Styttist í það.

John Mellencamp og Bruce Springsteen - Wasted days.

Paul McCartney - The Christmas song.

Var aðgengilegt til 13. desember 2022.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,