11:03
Mannlegi þátturinn
Tæknilæsi eldri borgara, endurminningaleikhús og Vilborg lesandinn
Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins.

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

Það hefur verið talsvert fjallað um tæknilæsi eldri borgara og leiðir til að efla það. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar býður upp á námskeið í tæknilæsi á félagsmiðstöðvum borgarinnar. Markmið verkefnisins er að kenna fullorðnum, þá helst eldri borgurum, á tækni og veita þeim aðstoð við að sækja stafrænar þjónustur og markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun og bæta aðgengi að samfélagsþátttöku. Við litum inná eitt slíkt námskeið í Gerðubergi og ræddum við nokkra þáttakendur og kennara.

Við hringdum austur á Djúpavog í Andreu Katrínu Guðmundsdóttur, leiklistarkennara og leikstjóra og fengum hana til að segja okkur frá því hvað svokallað endurminningaleikhús er. Hún er sem sagt búin að koma slíku á fót fyrir austan og einhverra hluta vegna virðast konurnar á staðnum vera viljugri til að deila minningum sínum í svona leikhúsi en karlarnir. Andrea sagði okkur meira frá endurminningaleikhúsi í þættinum í dag.

Lesandi vikunnar var leikkonan og ljóðskáldið Vilborg Halldórsdóttir en ljóð hennar og upplestur í þáttunum Heima með Helga Björns, vöktu heilmikla athygli og nú var komið að Vilborgu að segja hlustendum Mannlega þáttarins frá hennar uppáhaldsbókum og höfundum og hvað hún hefur verið að lesa undanfarið.

UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 50 mín.
,