18:00
Spegillinn
Spegillinn 13.desember 2021
Spegillinn

Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.

Spegillinn 13.desember 2021

Umsjón: Kristján Sigurjónsson

Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna alvarlegs öryggisgalla sem uppgötvaðist fyrir helgi. Hann getur valdið tjóni á mikilvægum innviðum en líklega ekki hjá almenningi.

Brýnt er að bólusetja börn á aldrinum fimm til ellefu ára segir sóttvarnalæknir. Bólusetning þeirra hefst fljótlega eftir áramót.

Gert er ráð fyrir aukinni aðsókn í farsóttahús fyrir jólin. Börnum fjölgar í hópi þeirra sem dvelja þar í einangrun.

Tveir menn eru í haldi sænsku lögreglunnar vegna rannsóknar á sjóslysi á Eystrasalti í nótt þegar breskt flutningaskip sigldi á danskan dýpkunarpramma.

Mikil hálka hefur verið á Akureyri síðustu daga eins og víðar á landinu. Læknir á bráðamóttöku segir slysin í raun mjög fá miðað við aðstæður.

Dóra Ólafsdóttir frá Kljáströnd í Grýtubakkahreppi náði í dag hærri aldri en nokkur annar Íslendingur hefur gert, svo vitað sé. Hún er orðin 109 ára og 160 daga gömul

Lengri umfjöllun:

Eins og fram kom í fréttahluta Spegilsins var óvissustigi Almannavarna lýst yfir nú síðdegis vegna alvarlegs öryggisgalla í algengum tölvuhugbúnaði sem uppgötvaðist fyrir helgi. Um helgina varaði netöryggissveitin CERT-IS við því að herjað væri á íslenska innviði erlendis frá; reynt að finna þjóna og kerfi sem væru mögulega berskjölduð fyrir árásum tölvuþrjóta vegna galla í kóðasafni. Svipað mál kom upp í haust, fjöldi fyrirtækja lenti þá í hremmingum þegar hrappar nýttu sér veikleika til að taka gögn í gíslingu. Guðmundur Arnar Sigmundsson forstöðumaður CERT-IS segir að gallinn hafi uppgötvast í kóðasafni sem margir þeirra sem bjóða þjónustu á netinu nýta. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við Guðmund.

Eins og fram hefur komið felst í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar talsvert viðamiklar breytingar á stjórnráði Íslands, hvernig verkefni skiptast og flytjast á milli ráðuneyta of fleira. Þetta breytir ýmsu í vinnu og vinnuaðstöðu hundruð starfsmanna stjórnarráðsins og annara stofnana sem þessar breytingar ná til. Margir þeirra eru í félögum innan BHM og því í mörgu að snúast fyrir fomann bandalagsins Friðrik Jónsson. Kristján Sigurjónsson ræddi við Friðrik í dag um þessar breytingar og kjaraviðræður bandalagsins á næsta ári.

Í breska Íhaldsflokknum gengur allt á afturfótunum. Skoðanakannanir sýna að stærsti sjórnarandstöðuflokkurinn, Verkamannaflokkurinn hefur skotist fram úr Íhaldsflokknum í fylgi en Verkamannaflokknum gengur þó brösuglega að fóta sig í meðbyrnum. Sigrún Davíðsdóttir segir frá.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 30 mín.
,