11:03
Mannlegi þátturinn
Húsfundir, sumarblómin og Vitaleiðin
Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins.

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

Nú þegar fleiri mega koma saman þá opnast dyrnar fyrir ýmislegt sem ekki hefur verið hægt að gera í talsverðan tíma. Til dæmis hafa húsfundir í húsfélögum að miklu leyti setið á hakanum, en nú eru húsfélög um allt land að vakna úr dvala og víða eru fyrirhugaðar eru framkvæmdir sem mikilvægt er að standa vel að. Við fengum Tinnu Andrésdóttur lögfræðing hjá Húseigendafélaginu til þess að fara aðeins yfir það helsta sem hafa þarf í huga en félagið er að fá mörg mál inn á borð til sín þessa dagana vegna galla á verkum verktaka og galla í fasteignakaupum þar sem hraðinn er mikill núna á fasteignamarkaðnum.

Það er sannkölluð sumarbyrjun þegar sumarblómin eru komin á Austurvöll sem alltaf skartar sínu fegursta á þjóðhátíðardaginn 17.júní. Karen Hauksdóttir er skrúðgarðyrkjufræðingur og aðstoðarverkstjóri í hverfastöðinni við Fiskislóð. Hún og starfsfólk hennar hafa verið á fullu við að gróðursetja í beðin við Austurvöll og víðs vegar um borgina, en það eru í kringum 180 tegundir og yrki. Í fyrra var það hvítur litur sem var allsráðandi, við hringdum í Karen og spurðum hvaða litur varð fyrir valinu í ár.

Á laugardaginn var ný gönguleið milli Stokkseyrar, Eyrarbakka og Þorlákshafnar formlega opnuð. Leiðin kallast Vitaleiðin og dregur nafn sitt að vitunum þremur, Selvogsvita og Knarrarósvita sem marka upphaf og enda leiðarinnar og svo Hafnarnesvita í Þorlákshöfn. Margrét Blöndal var við vígsluna og fylgdist með þegar klippt var á borðann. Hún talaði við Dagnýju Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðrulands, Gunnhildi Hrólfsdóttur og Sigrúnu Klöru Hannesdóttur úr stjórn Vitafélagins, Gísla H. Halldórsson bæjarstjóra Árborgar og Gest. Þór Kristjánsson forseta bæjarstjórnar Ölfuss.

UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 50 mín.
,