18:00
Spegillinn
Vill selja meira í Íslandsbanka
Spegillinn

Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.

Framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala segir mikilvægt að vinna að úrbótum til að atburðir eins og hópsmitið á Landakoti gerist ekki aftur. Hann segir samhljóm í skýrslu embættis Landlæknis og Landspítala um málið.

Fjármálaráðherra vill halda áfram að losa um eignarhald ríkisins yfir Íslandsbanka á næsta ári ef markaðsaðstæður leyfa. Hann segir nýlokið útboð hafa gengið framar vonum og að áhugi erlendra fjárfesta hafi vakið sérstaka athygli.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að fyrsti fundur hans með Joe Biden Bandaríkjaforseta hafi verið uppbyggilegur á ýmsum sviðum. Fundurinn var styttri en reiknað hafði verið með.

Eimskip viðurkenndi í dag alvarleg brot á samkeppnislögum og greiðir einn og hálfan milljarð króna í sekt. Ætluð brot Samskipa eru enn til rannsóknar.

Talið er að fjórðungur þeirra sem fengið hafa COVID glími við langvinn einkenni, segir framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi. Margir þeirra sem fara í COVID endurhæfingu á Heilsustofnun í Hveragerði eru býsna illa haldnir. Framkvæmdastjóri lækninga þar, segist jafnvel hafa gefið þau læknisráð að fólk láti af því að setja í uppþvottavélina og sinna öðrum heimilisstörfum, svo það hafi einfaldlega orku til að tala við börnin sín. Ragnhildur Thorlacius tala við Birnu Guðmundsdóttur og Stefán Yngvason.

Samherji stefnir að því að reisa fiskeldisstöð á Reykjanesi sem gæti innan 11 ára framleitt um 40 þúsund tonn af laxi. Fyrrverandi formaður Landssambands fiskeldisstöðva og framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis segir að framleiðsla í sjókvíaeldi geti á næstu 10 árum auðveldlega farið í 200 til 300 þúsund tonn á ári. Fiskeldi jókst um 20% í fyrra. Arnar Páll Hauksson segir frá og talar við Jens Garðar Helgason og það heyrist í Jóni Kjartani Jónssyni.

Í Bretlandi hefur mikil orka farið í að koma Brexit frá, klára útgönguna úr ESB. En það er líka enn eins og breska stjórnin hafi ekki fundið sér sinn samastað í alþjóðasamfélaginu, utanríkisstefnan enn óskýr. Sigrún Davíðsdóttir segir frá.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 30 mín.
,