*

Óttuðust að rannsakendur fyndu leynifélag í Dúbaí

Einn þeirra sem nú situr í fangelsi í Namibíu, vegna aðildar að Samherjamálinu, átti í samskiptum við starfsmann Samherja um áhyggjur af því að yfirvöld kæmust á snoðir um leynigreiðslur til Dúbaí.

Samsung S9 plús er ekki sími sem skar eða sker sig mikið úr og markaði engin tímamót þegar hann var kynntur til sögunnar árið 2018. Gagnrýnendur töldu hann litlu bæta við forvera hans ,,áttuna”. Það var sem sagt fátt um hann að segja. Kannski helst að hann þætti dýr, að mati gagnrýnenda úr hópi blaðamanna sem sérhæfa sig í nýjustu símtækni.

Síminn sem hér er til umfjöllunar vakti enda ekki mikla athygli rannsóknarlögreglumanna sem tóku hann til handargagns í lögregluaðgerð í Namibíu fyrir rúmu ári. Miðað við annað sem fannst í aðgerðinni og lagt var hald á, veltu þeir verðmæti þessa ríflega árs gamla farsíma tæpast mikið fyrir sér, eða hvort hann væri of dýr.

Þegar farið var að rannsaka innihald hans kom þó eitt og annað í ljós. Þar voru upplýsingar sem gátu skipt töluverðu máli við rannsókn stærsta spillingarmáls í sögu Namibíu.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýlegri kyrrsetningarkröfu ríkissaksóknara Namibíu. Í henni er farið fram á að eignir sex Namibíumanna og tíu félaga á þeirra vegum verði kyrrsettar á grundvelli laga um varnir gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Beiðnin tekur líka til fimm félaga Samherja í Namibíu og kröfu um kyrrsetningu tveggja skipa Samherja, togaranna Heinaste og Sögu. Sú krafa er rökstudd þannig að skipin hafi verið nýtt til að afla ólögmæts ávinnings fyrir Samherja í Namibíu, og þannig verið nýtt til að fremja lögbrot.

Söluandvirði Heinaste hefur verið kyrrsett í stað togarans. (Mynd Kveikur/Al Jazeera)

Togarinn Heinaste er enn í Namibíu en var nýlega seldur þarlendri útgerð. Namibíska ríkið hefur kyrrsett söluandvirðið. Togarinn Saga er hins vegar búinn að liggja við bryggju í Las Palmas á Kanaríeyjum síðan honum var skyndilega siglt burt, nafni hans breytt og heimahöfn færð frá Namibíu til Belís í byrjun þessa árs. Saga hafði verið í eigu namibísks félags Samherja frá árinu 2018 og veitt kvóta sem Samherji er talinn hafa aflað sér ólöglega í landinu.

Þegar félag Samherja á Kýpur seldi félaginu í Namibíu togarann árið 2018 var kaupverðið sagt 21 milljón bandaríkjadollara. Landsbanki Íslands var þá sagður eiga veð í skipinu fyrir 13 milljón dollara skuldabréfi, sem namibíska félagið tók yfir. Ekki liggur fyrir hvort það veð sé enn á skipinu. Saga var eftir kaupin skráð með heimahöfn í Namibíu en með því fæst verulegur afsláttur af veiðigjöldum sem lögð eru á hvert veitt tonn í Namibíu.

Eftir að Samherjamálið komst í hámæli í nóvember í fyrra og togarinn Heinaste var kyrrsettur vegna ólöglegra veiða í landhelgi Namibíu, var togaranum Sögu skyndilega siglt til Kanaríeyja. Namibískir áhafnarmeðlimir lýstu því þannig í samtölum við fjölmiðla, að þeir hefðu fengið SMS-skilaboð um að fara þegar um borð í skipið, sem lá þá við festar í höfninni í Walvis Bay, og ná í eigur sínar. Skipið væri á leið til Las Palmas á Kanaríeyjum í slipp.

Stuttu síðar var skipinu siglt frá Walvis Bay til Las Palmas þar sem það hefur legið síðan. Í viðtölum við áhöfnina kom fram að þeir teldu söguna af slippnum hafa verið fyrirslátt hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins, því aldrei hafi staðið til að skipið kæmi aftur til baka til Namibíu.

Togarinn Saga sem í dag heitir Vasiliy Filippov og er staddur við höfn í Las Palmas. 

,,Nú heyrum við að skipið eigi ekki að koma til baka. Þeir notuðu það að fara með skipið í slipp til Las Palmas eingöngu sem afsökun til þess að geta komið skipinu út úr namibískri landhelgi,” sagði einn áhafnarmeðlima í viðtali við The Namibian þann 31. janúar á þessu ári. Forystumenn verkalýðs- og sjómannafélaga lýstu þungum áhyggjum af málinu, sem lauk með því að Samherji samdi um að greiða áhöfninni uppsagnarfrest sinn.

Samkvæmt gögnum sem lögð hafa verið fram af ríkissaksóknara Namibíu, barst svo skyndilega tilkynning til namibískra yfirvalda í apríl síðastliðnum um að Samherjafélagið sem keypt hafði Sögu af því kýpverska, hygðist skila því til fyrri eigenda sinna og afskrá það í Namibíu. Ástæðan var sögð vanefndir á greiðslum namibíska félagsins til þess kýpverska.

Ríkissaksóknari Namibíu telur þær skýringar ekki standast skoðun. Skipið sé eign namibísks félags, sem hafi greitt fyrir það að fullu, samkvæmt gögnum sem fyrirtækið gaf sjálft út. Aðgerðir Samherja til að færa skipið af namibísku flaggi og á nýtt flagg, hafi verið ólögmætar. Skipið hafi í fjögur ár stundað veiðar við Namibíu og verið nýtt til að veiða kvótann sem sagður er ólöglega fenginn í gegnum spillt samband Samherja og áhrifamanna í landinu.

Af þeim sökum fer ríkissaksóknarinn þess á leit í greinargerð sinni að spænskum yfirvöldum verði send krafa um kyrrsetningu togarans og hann svo afhentur namibískum yfirvöldum. Takist það eru verðmæti haldlagðra eigna Samherja í höndum namibíska ríkisins hátt í 5 milljarðar íslenskra króna, miðað við söluverðmætið á Heinaste og það verðmat sem Samherji studdist við síðast í viðskiptum með togarann Sögu milli landa.

Úr rökstuðningi ríkissaksóknara Namibíu.

Eins og áður segir eru gögnin sem nú hafa verið birt, hluti málsgagna sem lögð voru fram vegna kyrrsetningarbeiðnar ríkissaksóknara Namibíu á dögunum. Þau eru hluti af sakamálarannsókn sem nú fer fram í Namibíu og skipt hefur verið upp í tvö aðskilin mál.

Það sem nú er til umfjöllunar snýr að því hvernig ávinningi af milliríkjasamningi Angóla og Namibíu var ráðstafað. Svokallaðri Angólafléttu, því sem sakborningar lýstu sem áætluninni sem lögð var upp í stjórnarherbergi Samherja á Akureyri haustið 2013.

Þessi sami hópur manna er einnig til rannsóknar í tengslum við kvótaviðskipti Samherja og ríkisútgerðarinnar Fishcor. Það mál er rannsakað sérstaklega og forstjóri Fishcor situr nú inni og bíður ákvörðunar um ákæru. Hann var hnepptur í gæsluvarðhald í janúar síðastliðnum.

Mike Nghipunya, forstjóri Fishcor, situr líka í varðhaldi en vegna annars anga málsins. (Mynd The Namibian)

Samkomulagið byggðist á því að nágrannaríkin Angóla og Namibía skiptust á hrossamakrílsvóta, í lögsögum beggja ríkja. Slíkir samningar eru ekki óalgengir.

Í nóvember 2013 kynnti Sacky Shanghala hugmynd fyrir Samherja, sem fól í sér hjáleið að kvóta við Afríkustrendur.

Leiðin snerist um að fá sjávarútvegsráðherra grannríkjanna Angóla og Namibíu til þess að gera milliríkjasamning um kvótaskipti. Í samningnum yrði gert ráð fyrir að namibískt fyrirtæki nyti þess sem í samkomulaginu fælist. Það félag yrði þó sett upp til málamynda, svo heimamenn tækju við kvótanum, sem síðan rynni rakleitt til Samherja sem fengi tíu þúsund tonna kvóta árlega, tryggðan til fjölda ára.

Fámenn valdaklíka og Samherji eru þannig sögð hafa komist ólöglega yfir og nýtt sér 50 þúsund tonna kvóta, eingöngu vegna pólitískra tengsla á tíma þar sem enginn kvóti var fáanlegur í landinu, eins og það var orðað í tölvupóstum milli Namibíumannanna og yfirmanna Samherja.

Namibísku ráðherrarnir eru sakaðir um að hafa blekkt þing og þjóð, brotið lög í samkrulli við angólskan ráðherra og samverkamenn við gerð samnings um gagnkvæmar aflaheimildir ríkjanna tveggja. Þetta hafi þeir gert í samkrulli við Samherja sem hafi fengið að nýta sér auðlindir í skiptum fyrir greiðslur til vina og vandamanna, sömu ráðamanna. Í stað þess að nýtast við efnahagslega uppbyggingu í þágu namibísku þjóðarinnar, líkt og sjávarauðlindinni var ætlað.

Úr rökstuðningi ríkissaksóknara Namibíu.

Hinn ólögmæti ávinningur Samherja sé að mati Ríkissaksóknarans vel á fimmta milljarð króna, sé miðað við uppgefið markaðsverð fyrir afurðir sem Samherji gaf upp á sama tímabili til yfirvalda.

Úr rökstuðningi ríkissaksóknara Namibíu.

Hópur sex Namibíumanna og fimm Íslendinga, undir stjórn Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja, hafi sameiginlega myndað með sér samtök sem hafi stundað kerfisbundin lögbrot með það fyrir augum að hagnast á því persónulega. Og að allir hafi þeir tekið þátt beint og óbeint í þeim lögbrotum; spillingu, aðstöðubraski í opinberum embættum, mútum, fjársvikum, skattsvikum og peningaþvætti.

Úr rökstuðningi ríkissaksóknara Namibíu.

Í skiptum fyrir hinar eftirsóttu aflaheimildir hafi Samherji greitt namibísku samverkamönnum sínum hundruð milljóna króna. Ýmist til félaga í eigu tengdasonar namibíska sjávarútvegsráðherrans eða til dúbaísks aflandsfélags í eigu frænda hans, stjórnarformanns ríkisútgerðarinnar Fishcor.

Sexmenningarnir hafa í nokkur skipti komið fyrir dómara í Namibíu vegna málsins.

Sexmenningarnir hafa þegar verið kærðir fyrir sinn hlut í málinu en samkvæmt greinargerð ríkissaksóknarans hefur alþjóðalögreglunni Interpol verið falið að finna hvar tveir stjórnendur Samherjafélaganna í Namibíu séu staddir en að því loknu verði þeir kærðir og alþjóðlegrar handtökuskipunar krafist svo rétta megi yfir þeim í Namibíu.

Úr rökstuðningi ríkissaksóknara Namibíu.

Meðal þess sem lagt var fyrir dóm í Namibíu á dögunum eru upplýsingar um samskipti sem áttu sér stað stuttu fyrir uppljóstrun Samherjaskjalanna og handtökur í Namibíu. Samskipti sem ríkissaksóknarinn namibíski telur sýna svo ekki verður um villst að menn hafi óttast að upp um þá kæmist og því hafi verið lagt á ráðin um að reyna að fela það sem í raun hafði farið fram.

Eins og fram kom í umfjöllun Kveiks fyrir ári hafði Samherji greitt háar fjárhæðir til aflandsfélags í Dúbaí í tengslum við Angólafléttuna svokölluðu. Allt til félags hvers einu tekjur frá stofnun þess fimm árum fyrr voru tæplega hálfs milljarðs króna ráðgjafagreiðslur sem greiddar voru af bankareikningum tveggja kýpverkskra Samherjafélaga í norska bankanum DNB.

Skráður eigandi félagsins í Dúbaí var James Hatuikulipi, þáverandi stjórnarformaður ríkisútgerðarinnar Fishcor í Namibíu, og einn svokallaðra hákarla í Samherjamálinu.

Tölvupóstsamskipti og framburður Jóhannesar Stefánssonar bentu til þess að greiðslur Samherja inn á þetta félag væru fyrir kvótann sem fékkst út úr Angólafléttunni, sem James var lykilmaður í að flétta. Nafn James var þó hvergi sjáanlegt í neinni samningagerð Samherja um greiðslur fyrir afnot af þeim kvóta. Engu að síður fór langhæsta upphæðin til hans í gegnum félagið í Dúbaí.

James Hatuikulipi sést hér ásamt Bernhardt Esau og Sacky Shanghala. 

Í kæru ríkissaksóknarans er hlutur James og félagsins í Dúbaí sagður hafa verið lykilatriði í lögbrotunum enda hafi félagið verið búið til gagngert til að taka við og koma áfram peningum til þeirra sem komið höfðu málinu í gegn á bak við tjöldin. Til ráðherranna tveggja sem nú sitja í gæsluvarðhaldi í Namibíu.

26. nóvember var farið að búgarðinum Dixie, í því skyni að handtaka þar þá Sacky Shanghala og James Hatuikulipi. Meðal þess sem lagt var hald á þar var persónulegur farsími James, Samsung S9plus. Við rannsókn á símanum fundust meðal annars tölvupóstsamskipti milli James og starfsmanns Samherja frá 28. maí 2019, nokkrum mánuðum áður en fjölmiðlar hófu umfjöllun um málið en rannsókn þess var þá þegar hafin í Namibíu.

James sendi þennan dag tölvupóst úr símanum sínum, en notaði til þess tilbúið tölvupóstfang undir dulnefninu Petrus Aashonge. Þar segist hann telja nauðsynlegt að eitthvert félag Samherja gefi út reikninga sem sýni að greitt hafi verið með veiddum fiski til angólsks félags, en ekki í peningum til félags hans í Dúbaí. Allt virðist þetta snúast um að dylja greiðslur sem Samherji greiddi honum út úr landinu.

Úr rökstuðningi ríkissaksóknara Namibíu.

Samdægurs barst tölvupóstur frá Jóni Óttari Ólafssyni, sem verið hefur launaður ráðgjafi og sagður rannsakandi Samherja, undanfarin ár og starfaði meðal annars á vegum Samherja í Namibíu. Í töluvpósti Jóns Óttars segir:

Úr rökstuðningi ríkissaksóknara Namibíu.

„Ok, ég skil...Er einhver hætta á því að upphæðirnar sem greiddar voru „fyrir utan“ uppgötvist? Við viljum ekki búa til neina pappíra sem fjalla um fiskflutninga og svo finni þeir peningaslóðina.”

Og stuttu síðar skrifaði hann:

„Ég held að þeir muni ekki hafa uppi á þeim greiðslum sem greiddar voru úr landi. Við höfum lokað þeim reikningum. Auk þess hafa þeir ekki burði til þess að fara á eftir flóknum aflandsviðskiptum.“

Þessi samskipti telur ríkissaksóknarinn til marks um að rannsókn yfirvalda í Namibíu hafi á þessum tíma verið farin að gera málsaðila taugaveiklaða og þeir óttast að í ljós kæmi að meirihluti greiðslna fyrir hinn ólöglega kvóta hefði verið sendur til félagsins í Dúbaí og því hafi komið upp hugmyndir um að gefa út nýja reikninga og reyna þannig að villa um fyrir rannsakendum. Enda hafi tilgangurinn alltaf verið sá að fela greiðslurnar fyrir yfirvöldum.

Jón Óttar ásamt sjávarútvegsráðherranum Esau. (Mynd Kveikur/Wikileaks)

Í svari Samherja vegna beiðni um svör fyrirtækisins við því sem fram kemur í greinargerð Ríkissaksóknarans og rannsóknargögnum sem henni fylgja, neitaði Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóri félagsins, að svara nokkru um tölvupóstsamskipti Jóns Óttars Ólafssonar og James Hatuikulipi:

„Í tengslum við rannsókn á starfseminni í Namibíu, sem ráðist var í með fulltingi norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein, voru þúsundir tölvupósta yfirfarnir. Við ætlum ekki að fara í opinbera rökræðu við Ríkisútvarpið um einn þessara tölvupósta.“

Kveikur óskaði eftir viðbrögðum frá Jóni Óttari Ólafssyni, starfsmanni Samherja, í dag. Jón Óttar svaraði ekki þeirri beiðni.

Samherjamálið er nú til rannsóknar í Angóla og á Íslandi, auk Namibíu. Auk þess er einn angi þess til rannsóknar í Noregi og beinist að því hvort norski bankinn DNB hafi brotið lög um peningaþvættisvarnir með því að tilkynna ekki um millifærslur nokkurra Samherjafélaga í bankanum, til aflandsfélaga. Meðal annars til Tundavala Investments, sem fjallað var um hér að ofan.

Fimm manns hafa réttarstöðu sakbornings í rannsókn Héraðssaksóknara á Samherjamálinu. Þar eru til rannsóknar meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og auðgunarbrot. Skattrannsóknarstjóri hefur einnig til rannsóknar möguleg skattalagabrot Samherja í tengslum við starfsemi félagsins í Namibíu og víðar. Settur forstjóri Samherja hafnar því sem fyrr að félagið hafi greitt mútur eða aðrar óeðlilegar greiðslur, hvort heldur sem er í Namibíu eða annars staðar.

„Við lítum svo á að greiðslur, í tengslum við reksturinn í Namibíu, séu lögmætar frá sjónarhóli félaga sem tengjast Samherja,“ segir í svari Samherja.

Björgólfur tók við forstjórastarfinu tímabundið af Þorsteini Má. Þeir eru nú báðir forstjórar fyrirtækisins. (Mynd RÚV)

Á mánudag ræðst hvort enn verði framlengt gæsluvarðhald yfir alls níu einstaklingum sem setið hafa inni vegna Samherjamálsins í Namibíu. Dómari gaf ákæruvaldinu frest til 14. desember til þess að ljúka rannsókn málsins og taka ákvörðun um útgáfu ákæru, annars yrði níumenningunum sleppt gegn tryggingu. Rannsókn málsins yrði því að klárast án þess að þeim yrði haldið, á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Verði rannsókninni lokið og formleg ákæra lögð fram, er talið líklegt að gæsluvarðhald yfir þeim verði framlengt.

Rúmt ár er síðan sexmenningarnir sem lengst hafa verið í haldi, voru handteknir. Í þeim hópi eru meðal annars tveir fyrrverandi ráðherrar, tengdasonur annars þeirra og stjórnarformaður ríkisútgerðarinnar Fishcor. En síðan hafa bæst í hópinn forstjóri ríkisútgerðarinnar og einstaklingar sem sakaðir eru um að hafa reynt að múta lögreglu í skiptum fyrir aðgang að kreditkortum sem haldlögð voru í málinu og lögreglumaður sem grunaður er um að hafa tekið við mútum og ætlað að afhenda kortin.

Í svari Samherja við fyrirspurn Kveiks í dag segir að ekkert nýtt sé falið í fréttum af kröfum um kyrrsetningu togarans Sögu og að ásakanir Ríkissaksóknarans til stuðnings slíkri kyrrsetningu hafi verið og séu ósannaðar.

Svar Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra Samherja, í heild sinni:

Eins og svo oft áður, þegar umfjöllun Ríkisútvarpsins um málefni tengd Samherja er annars vegar, þá felur fréttin sem þú ert að vinna í sér endurvinnslu á gömlum ásökunum og afbökun staðreynda. Fyrsta atriðið sem þú nefnir, um að Ríkissaksóknari Namibíu hafi óskað eftir kyrrsetningu á skipi sem áður hét Saga, hefur ítrekað verið til umfjöllunar í bæði namibískum og íslenskum fjölmiðlum. Ríkissaksóknari Namibíu hefur sett fram fjölda ásakana til stuðnings kröfu um kyrrsetningu. Þetta eru í meginatriðum sömu ásakanirnar og fyrst var greint frá í nóvember á síðasta ári. Ekki hafa verið færðar sönnur á neina þeirra á því rúma ári sem liðið er frá þeim tíma.

Stjórnendur og starfsfólk Samherja eru staðráðin í því að verja fyrirtækið og tengd félög af krafti. Þá einsettum við okkur að leggja niður starfsemina í Namibíu í samræmi við lög og í góðri sátt við namibísk stjórnvöld. Skýr birtingarmynd þess er nýlegur samningur félaga sem tengjast Samherja við namibísk stjórnvöld og varðar afléttingu kyrrsetningar á togaranum Heinaste.

Við höfum alfarið neitað því að félög tengd Samherja hafi greitt mútur eða aðrar óeðlilegar greiðslur. Hvort sem það er í tengslum við reksturinn í Namibíu eða annars staðar. Við lítum svo á að greiðslur, í tengslum við reksturinn í Namibíu, séu lögmætar frá sjónarhóli félaga sem tengjast Samherja. Í tengslum við rannsókn á starfseminni í Namibíu, sem ráðist var í með fulltingi norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein, voru þúsundir tölvupósta yfirfarnir. Við ætlum ekki að fara í opinbera rökræðu við Ríkisútvarpið um einn þessara tölvupósta. Sérstaklega í ljósi þess að Ríkisútvarpið hefur ítrekað og kerfisbundið slitið upplýsingar úr samhengi í því skyni að valda Samherja skaða, eins og dæmin sanna. Við hvetjum fréttastofuna hins vegar til að einbeita sér að þeirri hlið sögunnar sem hún hefur hingað til virt að vettugi.

Frá því ásakanir á hendur Samherja voru fyrst settar fram höfum við ráðist í ítarlega og krefjandi rannsókn, með aðstoð lögmanna og endurskoðenda, til að komast til botns í ásökunum er snúa að starfseminni í Namibíu. Í gegnum allt þetta ferli höfum við unnið náið með þar til bærum yfirvöldum og hagsmunaaðilum fyrirtækisins og munum gera það áfram.

Virðingarfyllst,
Björgólfur Jóhannsson
forstjóri Samherja