Vatnajökull hefur minnkað um þúsund ferkílómetra. Það er bara byrjunin.

Útlit er fyrir að árið 2020 verði eitt af þremur hlýjustu árum á jörðinni síðan mælingar hófust. Það eru sérstaklega vondar fréttir fyrir náttúrufyrirbæri úr ís.

Vatnajökull hefur minnkað um þúsund ferkílómetra. Það er bara byrjunin.

Jöklar jarðar rýrna nú hratt og því fylgja mikil umskipti.

Á heimsvísu hækkar sjávarborð með tilheyrandi flóðahættu fyrir milljónir manna.

Nærri bráðnandi jökli rís land þegar farg jökulsins minnkar, og landsvæði birtast þegar hann hopar. Rennsli jökuláa breytist líka, sem hefur áhrif á virkjanir, og ár geta færst til, sem getur haft áhrif á samgöngumannvirki.

Stærsti íslenski jökullinn, Vatnajökull, hefur minnkað um meira en þúsund ferkílómetra síðan í lok 19. aldar. Hann gæti orðið óþekkjanlegur innan nokkur hundruð ára ef ekki verður dregið verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Svona eru útlínur Vatnajökuls taldar hafa verið um 1890.

Gögnin eru byggð á ummerkjum eftir jökulinn í landslagi. Ártalið er ekki nákvæmt heldur notað til viðmiðunar.

Strax 1945-1946 hafði jökullinn víða hopað verulega.

Þetta er árið 1973, og sést að áfram hélt bráðnunin.

Athygli vekur að stærsti skriðjökullinn, Brúarjökull, nær lengra út en á fimmta áratugnum. Ástæðan er að hann hljóp fram 1963-1964.

Árið 2000 höfðu orðið minni breytingar á Vatnajökli.

En síðan hafa jöklar hopað mikið, og svona leit Vatnajökull út 2019.

Hér sést hve mikið jökullinn hefur hopað bara frá árinu 2000.

Lögun sporðs Skeiðarárjökuls er nú allt önnur en við aldamót.

Ein afleiðing af hopi jökulsins er að jökulár hafa skipt um farveg.

Að lokum sést hér hve mikið Vatnajökull hefur minnkað frá lokum 19. aldar.

Flatarmálið segir þó ekki allt, því jökullinn þynnist líka hratt.

Bráðnun Vatnajökuls er dæmi um þær magnþrungnu breytingar sem eru að verða af völdum loftslagsbreytinga. Í nýútkominni grein vísindamanna er áætlað að íslenskir jöklar hafi misst um 540 milljarða tonna af ís frá um 1890.

Hátt í helmingur bráðnunarinnar hefur verið á síðasta aldarfjórðungi eða svo, að meðaltali næstum 10 milljarðar tonna á ári.

Áætlað er að Vatnajökull einn hafi misst í kringum 360 milljarða tonna af ís síðan í lok 19. aldar. Ef öllu bræðsluvatninu væri dælt yfir byggðina á höfuðborgarsvæðinu yrði það um 3,6 kílómetra djúpt.

Vísindamenn hafa nú safnað saman á einn stað upplýsingum um útlínur íslenskra jökla í gegnum tíðina á stafrænu formi. Á þeim byggja kortin af Vatnajökli hér að ofan.

Hrafnhildur Hannesdóttir, jöklafræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að gögnin hafi legið hér og þar, ýmist í skýrslum eða verið birt í einstaka greinum eða nemendaritgerðum. „Auðvitað er upplausn gagnanna mismunandi og gæði og svo framvegis, en þetta gefur svona heildarmyndina.“

Náttúran breytist sífellt. Eitt sinn var Ísland hulið ís, en svo hlýnaði og fyrir um 7.000 árum er talið að litlir sem engir jöklar hafi verið hér. Svo kólnaði aftur og jöklar tóku að myndast á ný og stækkuðu svo enn á litlu-ísöld, kuldaskeiði sem hófst um 1450.

Helgi Björnsson, jöklafræðingur á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir að rétt fyrir aldamótin 1900 hafi jöklar náð mestri stærð frá því í lok síðasta jökulskeiðs. Þeir hafi svo farið að rýrna og nú minni þeir kannski á það sem þeir voru um 1700.

Hraðinn er „óskaplega mikill,“ segir Helgi. Vatnajökull rýrni til dæmis að meðaltali um einn metra á ári, jafnt dreift yfir hann allan, og hann sé ekki nema um 350 metra þykkur að meðaltali. „Þannig að jafnvel ef við tækjum bara einn metra á ári þá sjáum við hvernig það er,“ segir Helgi. „En það gerist auðvitað miklu hraðar,“ segir hann, því yfirborðið lækki og færist þannig niður í hlýrra loft.

„Ísland er eiginlega svona víti til varnaðar hvað varðar þetta,“ segir Helgi. „Einnig það að menn geta komið til Íslands og séð þetta bara með berum augum, þurfa ekkert að vera að fara til Suðurskautslandsins eða Grænlands til þess.“

„Hingað þurfa þeir sem efast að koma til að sjá hvað er að ske.“

Kvíárjökull er einn af skriðjöklum Vatnajökuls, um hálftíma akstur austur frá Skaftafelli.

Hann steypist frá Öræfajökli, niður í kví, afmarkaða af miklum jökulgörðum.

Fyrir ekki svo löngu fyllti jökullinn kvína, en nú fer því fjarri.

Á kyrrlátum nóvemberdegi er Snævarr Guðmundsson kominn hingað til að skrásetja breytingar á sporði Kvíárjökuls.

Jökullinn hefur hopað og djúpt lón myndast fyrir framan hann, svo Snævarr kemst ekki að sporðinum.

Hann notast því við staðsetningartæki og sérstakan fjarlægðarkíki til að mæla hve mikið jökulröndin hefur hreyfst.

Snævarr, sem er sérfræðingur á Náttúrustofu Suðausturlands, hnitar jaðarinn eftir gervitunglamynd sem er tekin í haust:

„En það er ákveðin óvissa í þeim gögnum, upp á svona um 15 metra eða svo. Með því að koma á staðinn og mæla í ákveðna punkta í jaðrinum, þá get ég lagfært þessa óvissu þannig að hún verði bara um fimm metrar.“

Kvíárjökull er skýrt dæmi um hvernig jöklar hafa þynnst um leið og þeir hafa hopað.

Fyrir 100-120 árum síðan var jökulyfirborðið um 150 metrum ofar en það er núna, segir Snævarr.

Á síðasta áratug hefur syðri hluti sporðs Kvíárjökuls hopað, á meðan sá nyrðri hefur gengið fram.

Skýringin er að nyrðri hluti sporðsins er klæddur náttúrulegri einangrun: jökulaur sem er nógu þykkur til að verja hann.

En að baki aurklædds sporðsins heldur jökullinn áfram að rýrna.

„Einn góðan veðurdag þá á þetta eftir að sitja hérna eftir sem bara eins konar íseyja í lóninu,“ segir Snævarr.

Þegar jöklar hopa geta ár skipt um farveg.

Eitt sinn rann vatn frá Kvíárjökli í Svarthamralæk og Eystri-Kvíá.

Þær ár eru nú báðar horfnar.

Kvíá er ein eftir, því jökullinn hefur lækkað svo mikið að vatnið hefur ekki aðra undankomuleið.

Grunnvísindin að baki loftslagsbreytingum hafa verið þekkt síðan á 19. öld:

Sólargeislar hita jörðina, ljóst yfirborð eins og jöklar endurkasta hluta þeirra aftur út í geim, en aðra dregur jörðin í sig og geislar svo frá sér sem ósýnilegu innrauðu ljósi: hita.

En aðeins lítill hluti hitans kemst óhindrað út, því gróðurhúsalofttegundir í andrúmsloftinu hefta för hans. Sem betur fer, því annars væri meðalhiti á jörðinni undir frostmarki.

En mannkyn hefur nú spúið svo miklu af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið að jörðin hitnar hratt.

Áhrifin á jökla eru mikil. Sumarið er ekki bara hlýrra en áður. Á veturna snjóar líka minna og rignir í staðinn meira. Því kemur fyrr að sumri í ljós undan snjónum gamall, skítugur jökull, sem endurkastar minna sólarljósi en hreinn snjórinn, og bráðnar því fyrr. Áfram eru sveiflur í veðurfari, en þetta er stóra myndin.

Jöklarnir hopa þó mishratt. „Meginástæðan er náttúrulega sú að sumir jöklar eru lægra í landi, þar sem hlýrra er, og þess vegna bráðna þeir hraðar en aðrir,“ segir Helgi.

„Þannig að jöklarnir sem ganga suður úr Vatnajökli hopa miklu hraðar heldur en þeir sem fara norður úr.“

Hraðinn er nánast áþreifanlegur á Breiðamerkursandi, sunnan Vatnajökuls. Áhrif loftslagsbreytinga eru líklega óvíða í alfaraleið jafn áberandi og þar.

Fyrir ekki svo löngu teygði Breiðamerkurjökull sig að hluta yfir núverandi vegstæði Þjóðvegar 1. En nú skilur allt að átta kílómetra langt og hyldjúpt Jökulsárlón að veginn og jökulinn.

„Hann er að tapa miklum massa og mikið hraðar heldur en aðrir jöklar,“ segir Snævarr Guðmundsson.

Ein ástæðan sé að inn í lónið leiti sjór, sem sé hlýr og saltur, og hann hvetji eða örvi í raun bráðnunina.

„Hér hreinlega streymir jökullinn ofan í lónið,“ segir Snævarr. „Hann hefur í raun og veru enga viðstöðu, og það brotnar og brotnar af honum.“

„Honum er eiginlega að blæða út.“

Þar sem jökulstálið mætir nú lóninu reis Breiðamerkurjökull áður hátt og hafði grafið sig langt niður fyrir sjávarmál.

„Um aldamótin 1900 þá stóð yfirborð jökulsins 350 metrum ofar, fyrir ofan vatnsborðið,“ segir Snævarr. „Ef þú hugsar um það að jökullinn gróf sig niður um 200 metra til 300 metra, þá erum við að tala um hálfs kílómetra þykkan jökul sem var hérna.“

Samkvæmt tölum sem ná fram til 2010 er áætlað að bráðnunin hafi verið svo hröð að hún jafngildi því að 20 feta flutningagámur hafi verið fylltur af jökulvatni aðra hverja sekúndu í 120 ár. Og allt útlit er fyrir að þetta sé bara byrjunin.

Því er spáð að Jökulsárlón eigi eftir að teygja sig miklu lengra inn í land—að minnsta kosti 15 kílómetra í viðbót.

Vísindamenn reyna að spá fyrir um framtíð jöklanna með sérstökum reiknilíkönum.

Þessi spá, sem var birt í fyrra, sýnir mögulega framtíð Vatnajökuls.

Nokkurn veginn svona leit hann út árið 1980 í líkaninu.

Svona gæti hann litið út árið 2100, ef tekst að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Þessar myndir sýna aðeins breytingu á flatarmáli jökulsins, en áætlað er að hann þynnist það mikið að rúmmálið minnki mun meira.

Svona gæti staðan verið árið 2200.

Og svona árið 2300.

Jökullinn myndi sem sagt minnka þótt dregið verði verulega úr losun—og um helmingur rúmmálsins gæti tapast.

En ef ekki verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda gæti farið miklu verr.

Svona gæti jökullinn þá litið út árið 2100.

Árið 2200.

Og árið 2300.

Vatnajökull yrði ekki svipur hjá sjón miðað við árið 1980, og meira en 80 prósent af rúmmálinu farin.

Helgi Björnsson, sem kom að gerð Vatnajökulslíkansins, segir að slík líkön séu ágæt. „Ekki vegna þess að maður trúi bókstaflega öllu sem þau segja, en hins vegar vísa þau veginn, og það þarf auðvitað stöðugt að halda áfram að vinna með þau.“

Hann bendir á að í náttúrunni séu ferlar sem séu keðjuverkandi. „Ef þeir fara af stað, það er erfitt að sjá það fyrir,“ segir hann.

„Eins geta ýmsir ferlar farið yfir einhver mörk, og þá kemur bara einhver þröskuldur, og þá hrapar þetta niður.“

Helgi segir að ef eitthvað er hafi jöklarýrnun orðið hraðari en menn þorðu að ætla fyrir um 20-30 árum.

„Þetta er eitthvað sem við erum búin að vita svo lengi, og samt höfum við ekki brugðist við,“ segir Hrafnhildur Hannesdóttir á Veðurstofunni.

„Ég vona að þessi nýi heimsfaraldur sýni okkur að við getum ýmislegt ef við tökum höndum saman og bara ákveðum í sameiningu að við ætlum að gera þetta öðruvísi.“

Framleiðandi vefútgáfu: Aðalsteinn Kjartansson.
Önnur myndataka: Freyr Arnarson.

Kortin eru unnin upp úr gögnum frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Landmælingum Íslands, Náttúrustofu Suðausturlands o.fl. Veðurstofan, Jarðvísindastofnun, Landmælingar og Náttúrustofan fá þakkir fyrir aðstoð við úrvinnslu.