Skýringar Samherja dugðu ekki DNB

Norski bankinn DNB sleit viðskiptum við Samherja þar sem skýringar fyrirtækisins á millifærslum til þriggja aflandsfélaga og félags tengdasonar sjávarútvegsráðherra Namibíu þóttu ófullnægjandi.

Skýringar Samherja dugðu ekki DNB

Gögn sem lögð hafa verið fyrir dómara í Namibíu varpa nýju ljósi á aðdraganda og ástæður þess að norski bankinn DNB sagði upp viðskiptum við Samherjafélög sem höfðu verið með reikninga í bankanum. Í síðustu viku tilkynnti bankinn að hann ætti yfir höfði sér sekt upp á jafnvirði 5,7 milljarða íslenskra króna vegna lélegra peningaþvættisvarna. Norska efnahagsbrotalögreglan hefur rannsakað bankann vegna þessa eftir uppljóstrun Samherjaskjalanna.

Í lýsingu á samskiptum norsku efnahagsbrotalögreglunnar, Økokrim, við DNB sem norsk yfirvöld sendu namibískum yfirvöldum í ágúst á þessu ári er atburðarás síðastliðins hausts rakin og þar koma einnig fram upplýsingar um efnisatriði rannsóknarinnar.

Í skýrslu Elisabeth Myre rannsakanda hjá Økokrim til kollega sinna í Namibíu þann 22. ágúst á þessu ári lýsir hún upphafi rannsóknar norskra yfirvalda á málinu.

Degi eftir seinni þátt Kveiks um Samherjaskjölin, þann 28 nóvember í fyrra, þar sem meðal annars var fjallað um samskipti DNB bankans og Samherja, sendi Økokrim, bréf til bankans og tilkynnti DNB að í ljósi upplýsinga sem opinberaðar hafa verið í tengslum við meintar mútugreiðslur til namibískra áhrifamanna, í gegnum greiðslur af bankareikningum í DNB, hefur Økokrim ákveðið að til staðar sé rökstuddur grunur sem réttlæti það að hefja rannsókn á bankanum.

Þetta bréf Økokrim virðist hafa hreyft við norska bankanum, sem strax degi síðar, 29. nóvember sendi fimm dótturfélögum Samherja sem stunduðu viðskipti við bankann, bréf og kallaði eftir upplýsingum. Um var að ræða fjögur félög Samherja á Kýpur, Esju Seafood, Esju Shipping, Noa Pelagic og Heinaste Investments, auk eins pólsks, útgerðarfélagsins Atlantex.

Bréfin voru nánast samhljóða og fólu í sér beiðni um upplýsingar og skýringar á tilteknum millifærslum sem vakið höfðu spurningar.

Starfsmaður DNB sendi bréfin en í þeim sagði að í samræmi við norsk lög um varnir gegn peningaþvætti bæri bankanum að framkvæma áreiðanleikakannanir á viðskiptavinum sínum með reglubundnum hætti:

„Við höfum ástæðu til að ætla að þær upplýsingar sem DNB hefur varðandi Atlantex séu úreldar eða rangar.”

Síðan segir í bréfi DNB að sérstaklega sé hér átt við nýframkomnar upplýsinar Wikileaks og umfjallana Kveiks um fyrirtækið Samherja og meinta ólögmæta starfshætti þess og starfsmanna í afríku; mútugreiðslur, spillingu, skattaundanskot og peningaþvætti, sem hafi líka falið í sér að DNB bankinn og reikningar fyrirtækja Samherja í bankanum hafi veirð misnotaði til þess að framkvæma ólöglegar greiðslur.

Með fylgdu svo beiðnir um upplýsingar um ársreikninga, skattskil og stjórnendur hvers og eins félaganna fimm. Auk þess sem óskað var eftir lista yfir stærstu birgja og viðskiptavini félaganna og upplýsingar um tilgang viðskipta við þá.

Svör Samherjafélaganna fimm fylgja ekki með í gögnunum en þó er ljóst að DNB taldi þau alls ekki fullnægjandi og rifti viðskiptum við félögin fimm. Í bréfum send voru þremur þeirra og fylgja gögnunum, þeim Atlantex og Noa Pelagic þann 10. desember 2019, segir:

„Bankinn hefur yfirfarið upplýsingar og gögn sem móttekin voru frá ykkur, og við tilkynnum ykkur hér með að bankinn telur þau ekki gefa fullnægjandi skýringar á þeim spurningum sem bankinn lagði fram. Eftir ítarlegt mat, hefur DNB banki því ákveðið að loka eftirfarandi reikningum.”

Eins og kom fram í umfjöllun Kveiks um Samherjaskjölin í nóvember 2019, voru það ekki síst greiðslur til félagsins Tundavala Invest ltd í Dúbaí, af bankareikningum tveggja Samherjafélaga í norska bankanum DNB sem urðu tilefni rannsóknar, í Noregi, Namibíu og á Íslandi.

Eigandi þess er James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor. James var einn svokallaðra “hákarla” sem sitja nú í gæsluvarðhaldi í Namibíu.

Í þeim hópi eru ráðherrar, venslafólk og fleiri sem sæta rannsóknum fyrir að hafa beitt áhrifum sínum og völdum í þágu Samherja í skiptum fyrir greiðslur, sem rannsakaðar eru sem mútur.

Tundavala í Dúbaí gegnir lykilhlutverki í þeirri fléttu. Enda greiddi Samherji andvirði um hálfs milljarðs íslenskra króna yfir nokkurra ára tímabil. Útgefnir reikningar fyrir þessum greiðslum, sögðu um að ræða ráðgjafagreiðslur.

Tölvupóstar og önnur gögn frá eiganda félagsins gefa til kynna að það hafi einungis verið fyrirsláttur. Og þannig lítur líka Ríkissaksóknari Namibíu á greiðslurnar. Sem eins og greint var frá í fréttum RÚV nýverið, Samherjamenn og eigandi félagsins í Dúbaí, virtust óttast að uppgötvuðust við rannsókn yfirvalda.

Í beiðnum DNB til Samherjafélaganna er í hverju og einu þeirra spurt um mismunandi millifærslur af reikningum félaganna, sem þykja vekja spurningar að mati bankans. Athygli vekur að í nær öllum tilfellum er spurt um greiðslum Samherjafélaganna til DNB.

Í svokölluðum Company profile-eyðublöðum til félaga sem staðsett eru utan þeirra ríkja sem gefin höfðu verið upp sem viðskiptalönd félaganna, í skriflegum upplýsingaskýringum sem stjórnendum fyrirtækja sem eru í viðskiptum við bankann ber að fylla út reglulega, er sérstaklega kallað eftir upplýsingum til þess að meta hættu af peningaþvætti og öðru ólöglegu athæfi. Ein af spurningunum sem lögð er fyrir viðskiptavininn að svara er sú hvort nýta eigi bankareikninga í DNB til viðskipta í löndum, sem metin eru í meiri hættu á peningaþvætti, en önnur.

Skilgreind aflandssvæði, þar sem leynd og lágir skattar haldast oft í hendur, eru sérstaklega talin hættuleg þegar peningaþvætti er annars vegar.

DNB spyr því hvort fyrirtæki hyggist millifæra peninga til annarra landa en Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu, Nýja-Sjálands, Singapore, Japans eða landa innan evrópska efnahagssvæðisins. Þrátt fyrir að oft og mikið sé millifært af fjármunum til svæða sem eru serstaklega listuð upp af alþjóðastofnunum og samtökum sem berjast gegn peningaþvætti, er spurningunni svarað neitandi af stjórnanda Samherjafélaganna.

Dæmi um þetta er félag sem greiddu jafnvirði hundruð milljóna króna til félagsins Tundavala Invest í Dúbaí. Esja Seafood millifærði til dæmis 3,5 milljónir bandaríkjadollara til Dúbaí í 11 færslum frá lok árs 2014 og fram til ársloka 2016. Á sama tíma og stjórandi þess sagði bankanum að slíkar millifærslur færu ekki fram af reikningi félagsins.

14. september 2016 undirritaði Ingvar Júlíusson Company-profile-eyðublað á Kýpur þar sem því er svarað neitandi að félagið millifæri nokkra fjármuni til annarra landa en þeirra sem listuð eru upp í spurningunni. Viku síðar millifærði Ingvar hálfa milljón Bandaríkjadollara af reikningi Esju Seafood í DNB til félagsins TundavalaInvestltd í Dúbaí. Tveimur mánuðum fyrr hafði hann millifært samskonar upphæð.

Ekki sjást þess nein merki að einhver þeirra 400 starfsmanna DNB, sem sagðir eru þrautþjálfaðir í að meta og greina hættuna af peningaþvætti, hafi brugðist við þarna, seinna eða fyrr. Enda eru það þessar greiðslur og skortur á því að þær skuli tilkynntar sem grunsamlegar til yfirvalda, í samræmi við lög, sem eru nú til rannsóknar, eins og segir í bréfi Økokrim til namibískra yfirvalda í apríl á þessu ári:

Økokrim rannsakar nú hvort DNB banki hafi mögulega brotið lög með aðkomu sinni að því sem virðast vera mútugreiðslur af bankareikningum fyrirtækja Samherja í DNB. Hingað til hefur rannsóknin beinst að því hvers vegna greiðslur til Tundavala Invest Ltd voru ekki tilkynntar sem til Fjármálaeftirlisins sem grunsamlegar millifærslur, strax og þær voru framkvæmdar.

Svipaða sögu er að segja af öðrum kúnna DNB, Samherjafélaginu, Noa Pelagic á Kýpur. Sem greiddi meira en 1 milljón bandaríkjadollara í 26 millifærslum til félagsins Cape Cod sem skráð er á Marshall-eyjum frá 2015-2017. Auk 69 þúsund Bandaríkjadollara til Tundavala invest í Dúbaí.

Ingvar Júlíusson stjórnandi Noa Pelagic, sagði félagið ekki framkvæma neinar millifærslur til annarra landa en þeirra sem bankinn listaði upp sem örugg á eyðublaði sem bankinn lætur viðskiptavini fylla út, gagngert til að bregðast við hættu af peningaþvætti.

Kveikur hafði samband við DNB banka og óskaði eftir skýringum bankans á því vort bankinn teldi sig hafa brugðist í peningaþvættiseftirliti og/eða hvort bankinn teldi Samherja hafa blekkt bankann með upplýsingagjöf til sín. Vibeke Hansen talsmaður bankans sagði svari til Kveiks að þar sem umrædd mál væru til rannsóknar hjá lögreglu, gæti bankinn ekki svarað neinum spurningum um efnið.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, segir í svari til Kveiks sem barst nú síðdegis að fyrirtækið hafni því alfarið að hafa misnotað bankareikninga hjá DNB. Sömuleiðis því að hafa greitt mútur eða eða innt af hendi nokkrar óeðlilegar greiðslur, í tengslum við rekstur Samherja í Namibíu eða annars staðar.

„Þessi banki hefur verið til rannsóknar hjá Ökokrim og kaus að slíta viðskiptasambandi við félög tengd Samherja í desember 2019. Þetta er því um árs gömul frétt. Ákvörðun DNB bankans hafði engin áhrif á rekstur okkar félaga. Ákvörðunin sem slík kann hins vegar að hafa verið ólögmæt enda töldum við okkur hafa svarað fyrirspurnum bankans með fullnægjandi hætti,” segir í svari forstjóra Samherja.