Á meðan Reykvíkingar og gestir þeirra á Menningarnótt ýmist hlupu maraþon eða stunduðu maraþonskemmtun í ágúst 2014, lauk stífum fundarhöldum á þrettándu hæð Höfðatorgs með samkomulagi.

Samherjaskjölin

Afskipti af innanríkismálum

Samherjaskjölin

Afskipti af innanríkismálum

Í nóvember 2013 hafði Sacky Shanghala kynnti Samherja hugmynd, sem fól í sér hjáleið að kvóta við Afríkustrendur. Leiðin snerist um að fá sjávarútvegsráðherra grannríkjanna Angóla og Namibíu til þess að gera milliríkjasamning um kvótaskipti.

Í samningnum yrði gert ráð fyrir að namibískt og angólskt fyrirtæki nyti þess sem í samkomulaginu fælist. Það félag yrði þó sett upp til málamynda, svo heimamenn tækju við kvótanum, sem síðan rynni rakleitt til Samherja sem fengi tíu þúsund tonna kvóta árlega, tryggðan til fjölda ára.

Í nóvember árið 2013 bauð Samherja því fimm manns frá Angóla og Namibíu til Íslands. Á mynd sést Þorsteinn Már stilla sér upp í Hafnarfjarðarhöfn með James og Sacky, ráðgjafa sjávarútvegsráðherra Angóla auk sonar angólska ráðherrans og tengdasonar þess namibíska.

Þorsteinn Már stilla sér upp í Hafnarfjarðarhöfn með James og Sacky, ráðgjafa sjávarútvegsráðherra Angóla auk sonar angólska ráðherrans og tengdasonar þess namibíska. (Wikileaks)

Mikilvægi þessarar ferðar lýsti James Hatuikulipi með vísan í „leikplanið sem sett var upp í stjórnarherbergi Samherja á Akureyri“.

„Það eru stórir og miklir pólitískir hagsmunir í húfi og ég treysti því að þið virðið það. Tækifæri sem gera okkur kleift að komast yfir rétt til að nýta auðlindir í Namibíu á sama tíma og slíkt er mjög eftirsótt en stendur öðrum ekki til boða.”.  

„Við búum yfir sambandinu við hæst settu aðilana í málinu.“

Sacky og ráðgjafi angólska ráðherrans, gerðu síðan allt nema skrifa undir milliríkjasamninginn. Undirbjuggu hann og sendu sameiginlegt meðmælabréf til ráðherranna þar sem Samherji fékk þeirra bestu meðmæli. James lýsti því svona í töluvpósti til Samherjamanna:

„Ráðherrar beggja landanna, Angóla og Namibíu, hafa unnið að því fyrir okkur að tryggja þetta aðgengi að kvótanum og  virkjað allt ríkisbatteríið til þess að staðfesta samkomulagið,“ sagði James í einum af tölvupóstum sínum til Samherjamanna.

Samningurinn fyrir Samherja

Jóhannes, sem sat fundinn með hákörlunum og Þorsteini Má í Katrínartúni, segir að tilgangurinn hafi verið skýrt.

„Þarna var bara skapað milliríkjasamkomulag, undir fölskum forsendum, svo að hákarlarnir kæmust í aflaheimildir sem þeir gætu síðan selt Samherja og hagnast á sjálfir. Og þeir náttúrulega þurftu að fá aðila með sér inn í þetta frá Angola eins og sjávarútvegráðherrann og fleiri sem fengu þá hluta af kökunni líka,“ segir Jóhannes.

„Til að koma á svona milliríkjasamkomulagi þá þurfti náttúrulega að fóðra marga vasa og það þarf gríðarlegan pólitískan stuðning. Það þarf náttúrulega að keyra þetta í gegnum ríkisstjórnina. Það voru lagðar inn 50 milljónir inn á félag Tamson, því það þurfti að borga háttsettum aðilum sem voru að hjálpa þeim að keyra þetta í gegn, bara þeim æðstu í landinu eins og ég skyldi það, ég skyldi það að það væri forsetinn og fólk í kringum hann.“

Jóhannes segir þetta hafi verið gert í samráði við forstjórann. „Allar greiðslur eins og þessar 50 milljónir, þá geri ég allt í samráði við Þorstein Má, ég gerði ekkert án hans aðkomu.“

Bestu fréttir í heimi

Þessi greiðsla fór frá Samherja til enn eins félags tengdasonarins, sem í staðinn gaf út reikning fyrir ráðgjöf. Á sama tíma voru þó Tamson og félagar að minna á að þeir væru engir aðstoðarmenn Samherja í viðskiptunum, heldur beinir þátttakendur:

„Það vorum við sem bjuggum til þetta tækifæri fyrir Samherja sem viðskiptafélagar og ætlumst til þess að komið sé fram við okkur sem slíka,“ sagði í bréfi James Hatuikulipi til Samherjamanna síðar. Enda var fögnuður þeirra yfir því þegar kvótinn var í höfn, eftir því.

„Herrar mínir, við erum komnir í samstarf,“ sagði embættismaðurinn Sacky og vinur hans stjórnarformaður ríkisfyrirtækisins, svaraði um hæl: „Bestu fréttir í heimi.“

Þess vegna var blásið til fundar í aðdraganda menningarnætur árið 2014. Til að skipta ávinningi milliríkjasamningsins, sem yrði mun meiri en áður. Hákarlarnir vildu nú að Samherji greiddi þeim þrjá fjórðu hluta kvótaverðsins erlendis. Einn fjórði færi til namibíska félagsins sem fékk kvótanum úthlutað en seldi áfram til Samherja.

Sacky lagði áherslu á hvað hefði áunnist í glærukynningu sem hann hafði með til Íslands, og var merkt Þorsteini Má.

„Við þurfum að tryggja að jafnvel þó skipt verði um ráðherra verði ekki hreyft við samningnum. Tækifærin sem við fáum í Namibíu og Angóla standa ekki öllum til boða og áður en aðrir kveikja á perunni þurfum við að vera búnir að koma öllu í gang. Þannig náum við best að verja báða ráðherrana.“

„Það voru búnar að vera margar pælingar í gangi hvernig hákarlarnir myndu hérna fá borgað fyrir Angola-Namibíu dílinn Fyrri hluta árs 2014 þá biður James okkur um að styrkja sig og aðra til að fara til Dubai til að geta stofnað félagið.. þeir vildu fela peninginn í Dubai og á þessum fundi ákveður Þorsteinn Már það sé best að borga þessi 75% til Dubai frá félagi Samherja á Kýpur, Esju Seafood. James var einn skráður fyrir félaginu en það er líka bara hann er fronturinn síðan átti þetta félag bara að taka peninga og dreifa til annara,“ segir Jóhannes.

„Það eru þá Sjávarútvegsráðherrann, það var talað um aðra hátt setta í Namibíu og það var líka Sacky dómsmálaráðherra og Tamson tengdasonurinn og svo líka sjávarútvegsráðherrann í Angola og sonur hennar og ráðgjafi. Og það er alltaf reynt að hafa smá fjarlægð á milli pólitíkusana.“

Ekki liðu nema nokkrir daga frá fundinum í Katrínartúni þar til greiðslur bárust til Dúbaí. Svo mikið lá á að borga að ekki var gefinn út reikningur fyrir fyrstu 150 þúsund bandaríkjadollunum sem Ingvar Júlíusson greiddi fyrir hönd Samherja.

Þegar svo átti að gefa út reikning fyrir greiðslunni virtist James ekki vita fyrir hvað Samherji væri í raun að greiða honum til Dúbaí - fyrir hvað hann væri að rukka. Jóhannes áframsendi þær vangaveltur til Ingvars: „Er það ekki bara consulting fee?”  

Undanfarin ár hafa tugir milljóna reglubundið streymt frá Samherjafélögum á Kýpur til aflandsfélagsins í Dúbaí. Í 15 færslum, síðast í byrjun þessa árs. Upphæðin sem Samherji hefur samanlagt greitt nemur hálfum milljarði íslenskra króna.

Heildargreiðslur Samherjafélaga til skúffufélaga hákarlanna svokölluðu, nema 1,4 milljarði króna síðastliðin fimm ár, samkvæmt þeim tölum sem Kveikur hefur aðgang að og ná fram á þetta ár. Skýringarnar á þessum greiðslum er ýmist ráðgjöf eða húsaleiga, stundum bæði.  

“Það sem er virkilega áhugavert er að skoða hverjum nákvæmlega Samherji greiðir fyrir kvótann. Greiðslan fór til aflandssjóðs undir stjórn James Hatuikulipi sem er enginn annar en formaður Fishcor og einn hákarlanna þriggja sem höfðu milligöngu um þennan samning. Það eitt og sér er mikið hættumerki um spillingu,“ segir Daniel Balint-Kurti, rannsakandi hjá Global Witness.

„Ef litið er á sannanirnar, sérstaklega að þeir skuli kalla Esau hluthafa í fyrirtækinu og nota sem millilið tengdason sjávarútvegsráðherra, ásamt greiðslunuminn á þessa aflandsreikninga, meðal annars peninga sem fara í vasa formanns ríkisútgerðarinnar þá virðist það afskaplega spillt og það lítur út fyrir að Samherji hafi vitað hvað var á seyði frá upphafi, að félagið hafi frá fyrsta degi ætlað að gera spilltan samning. Þetta lítur ekki út fyrir að vera annað en mútur,“ segir hann.

Ólöglegar greiðslur

Mútugreiðslur eru ólöglegar. Bæði samkvæmt íslenskum og namibískum lögum.

Hér á Íslandi gilda lög sem sett voru eftir forskrift OECD um mútur í alþjóðlegum viðskiptum. Samningur sem var gerður til að bregðast við því að alþjóðleg stórfyrirtæki beittu ítrekað aflsmunum í krafti fjármagns til þess komast yfir auðlindir þróunarríkja, sem voru jafnvel á sama tíma að þiggja þróunaraðstoð stjórnvalda í heimalöndum stórfyrirtækjanna.

Fyrir vikið varðar það nú fimm ára fangelsi ef íslenskur ríkisborgari mútar eða gerir tilraun til að múta fulltrúa erlends ríkis, stjórnmálamanni, embættismanni eða fulltrúa ríkisfyrirtækis til dæmis. Sama refsing er við því að múta eða gera tilraun til að múta hverjum þeim sem segist í staðinn geta haft áhrif á fulltrúa erlends ríkis.

Jóhannes telur starfshætti Samherja í Namibíu ekki rúmast innan þessara laga. „Ég er alveg klár á því að við höfum ekki starfað í samræmi við þessi lög, en ef ég lít til baka þá klárlega brutum við þessi lög.”

Fyrri hluti:
← Hákarlagreiðslur

Næsti hluti:
SWAPO flokkurinn →