Föst í hvirfilbyl skyndilána

Skyndilánaskuldir eru að sliga stækkandi hóp í samfélaginu. Fólk tekur lán fyrir matvöru, fatnaði og æfingjagjöldum barna sinna hjá skyndilánafyritækjunum, Aur, Netgíró, Pei og Síminn Pay.

Þegar kostnaði þessara lána hefur verið bætt við vexti eru hann oftast nær orðinn 44,25% á ársgrundvelli eða jafnmikill og leyfilegt  hámark er.

Þeim hefur fjölgað hjá Umboðsmanni skuldara sem eru með skyndilánaskuldir úr því að vera 59% þeirra sem leita aðstoðar í 79%. Starfsmenn umboðsmanns merkir aukna vanlíðan hjá þeim sem leita eftir hjálp þangað. Einnig hefur þeim fjölgað sem leita til Hjálparstarfs kirkjunnar og geta ekki greitt af skyndilánum.

„Þetta hefur alveg hrikaleg áhrif á líf þessara einstaklinga og börnin þeirra sem lenda í þessum hvirfilbyl og þessari flækju,“ segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

Kveikur knýr dyra hjá Álfheiði Árnadóttur. Hjá henni í heimsókn er Bjarni Þór Stefánsson, fertugur sonur hennar. Umræðuefnið hjá þeim er fjármál Bjarna. Hann hefur opnað app í símanum sínum og sýnir móður sinni að honum standi til boða að fá 600.000 króna lán hjá Síminn Pay. En einn af veikleikum Bjarna er að kaupa hluti.

„Ég er alinn upp í Reykjavík og flutti snemma upp í sveit og átti góða ævi. En það hafa verið erfiðir tímar. Maður er smá veikur á geði og hefur verið inn og út af spítölum og maður gerir sitt besta í lífinu til að láta allt ganga upp,“ segir Bjarni og bætir við að hann sé haldinn áráttu. Þegar hann langi til að kaupa eitthvað, geti hann ekki hætt að hugsa um það fyrr en eignast hlutinn. Bjarni er með húðflúr um allan efri hluta líkamans og er að láta flúra á sér fótleggina í nokkrum atrennum.

„Einu sinni fékk ég veipæði og keypti veip fyrir sex hundruð þúsund á tveimur dögum. Ég búinn að kaupa fimm Playstation 5 tölvur. Ég er með græjur heima hjá mér fyrir margar milljónir,“ segir Bjarni. Þetta hefur hann keypt með dýrum skyndilánum. Og nú er Bjarni kominn með augastað á hundrað þúsund króna hátölurum og langar að taka sér lán fyrir þeim.

En hann er ekki einn um að hafa tekið mörg dýr neyslulán. Það hefur Jónína Þorbjörg Gísladóttir líka gert. Við báðum hana um að skoða nokkur af sínum lánum. Henni bregður í brún þegar hún sér hversu miklir vextirnir eru.

„Ég er svolítið kvíðin. Þegar ég verð rosalega kvíðin fer ég og kaupi eitthvað þannig að mér líði betur,“ segir Jónína. „Og það er svolítið skilgreint sem kaupfíkn.“

„Ég er með aðgang að öllum bönkum landsins. Og er með lán, sem sagt yfirdrátt hjá Íslandsbanka, lán hjá Landsbankanum, Arion banka, Netgíró, Síminn Pay, Pei. Svo veit ég ekki hvort það sé eitthvað meira en eflaust eitthvað,“ segir Jónína. Eitt skyndilánaapp stendur út af, Aur. „Já, Aur. Eftir að þau komu með nýju kortin sín, þá missti ég það svolítið á kreditkortinu hjá þeim,“ segir Jónína.

7 milljónir á 2 árum

Skyndilánaskuldirnar hafa hrannast hratt upp hjá Jónínu. „Ég skulda um það bil sjö milljónir, eins og staðan er núna. Sem er mjög mikill peningur. Ég náði að safna mér þessarar sjö milljóna skuldar á tveimur árum sem er rosalega mikið,“ segir Jónína.

Jónína og Bjarni eru langt í frá ein um að hafa tekið skyndilán. Ef þú hefur dreift greiðslum á einhverri vöru eða þjónustu sem þú hefur keypt, þá eru miklar líkur á því að þú hafir tekið skyndilán því mörg þeirra eru einmitt greiðsludreifingar.

Skyndilánin eru dýrari en yfirdráttarheimild í banka.

Skyndilánin flokkast undir neyslulán og geta verið allt að 2 milljónir króna og heimilt er að innheimta mun meiri kostnað af þeim en venjulegum bankalánum. Þegar öllum kostnaði við lánið hefur verið bætt við vexti má rukka 44,25%. Þannig að 100.000 krónur eru teknar að skyndiláni í 12 mánuði þarf viðkomandi að greiða til baka 144.250 krónur. Til samanburðar þarf að greiða 117.000 krónur ef hundrað þúsund króna yfirdráttarheimild er í botni í 12 mánuði.

Hámarks kostnaður skyndiláns og annarra neyslulána

Í lögum um neyslulán er talað um árlega hlutfallstölu kostnaðar eða Á.H.K. Þessa skýringu er að finna á vef Neytendastofu:

„Árleg hlutfallstala kostnaðar er prósentutala þar sem vextir og lántökukostnaður er mældur á ársgrundvelli. Neytendur geta borið saman þessa einu tölu og fundið út hvaða lánveitandi er með hagkvæmast lánstilboðið. Árleg hlutfallstala kostnaðar er fundin samkvæmt reikniformúlu sem er að finna í reglugerð. Samkvæmt lögum um neytendalán má kostnaður við lán ekki vera meiri en svo að árleg hlutfallstala kostnaðar sé hærri en 35% að viðbættum stýrivöxtum.“ Í dag eru stýrivextir 9,25% og því er ÁHK 44,25%.

Þau fyrirtæki sem veita skyndilán eru Aur, Netgíró, Núnú, Pei og Síminn Pay. Skyndilánin eru í boði víða. Fólk getur tekið skyndilán fyrir matarinnkaupum og það er meira að segja boðið upp á það á sjálfsafgreiðslukössum í sumum verslunum. Fólk tekur lán fyrir innkaupunum og getur svo dreift greiðslunum.

Í sumum tilvikum áttar fólk sig þó hreinlega ekki á því að það er að taka skyndilán. Fólk er vant að geta greitt æfingagjöld hjá íþróttafélögum, ýmis námskeiðsgjöld og fleira í nokkrum greiðslum. Fyrir 2-3 árum sendu mörg félög frá sér tilkynningu til iðkenda um að þau hefðu tekið upp nýtt kerfi, XPS, þar sem unnt væri að dreifa greiðslum. Í einhverjum tilvikum kom ekkert fram um að kerfið beindi viðkomandi á skyndilánafyrirtæki. Það er ekki fyrr en greiðsluseðill frá Síminn Pay dúkkar upp í heimabankanum, sem það kemur í ljós að með því að velja að dreifa greiðslum var tekið skyndilán. Skyndilánin kosta yfirleitt töluvert meira en hefðbundnar greiðsludreifingar.

Vanskil skyndilána ekki skráð hjá Seðlabanka

Í árferði mikillar verðbólgu og hárra stýrivaxta myndi maður ætla að vanskil heimilanna hefðu aukist. En Seðlabankinn skoðar ekki vanskil af skyndilána heldur einungis vanskil venjulegra bankalána og þau vanskil eru lítil sem engin. En hjá Umboðsmanni skuldara er talað um falin vanskil. Því mörg passa bankalánin sín og húsaleigu en eru svo með skyndilán í vanskilum.

En lítum aftur við hjá Jónínu. Hún er 24 ára og á tvö börn úr fyrra sambandi. Hún býr með þeim og kærasta sínum í blokkaríbúð. „Þetta byrjaði svolítið þannig að ég sem sagt lenti í árekstri og fæ mikla verki í háls og bak. Og þá lenti ég í smá tekjutapi. Þannig að mér fannst voðalega gáfulegt að taka yfirdrátt til að ná að borga reikninga og svona. Svo fannst mér það bara svo rosalega sniðugt, þannig að ég held bara áfram að taka yfirdrátt. Svo frétti af vinkonum mínum með þetta Netgíró þannig að ég fór að kíkja á það. Já, þú getur borgað seinna. Voða flott. Þannig að einhvern veginn byrjar þetta svoleiðis,“ segir Jónína.

Þegar allur kostnaður hefur verið uppreiknaður jafngildir það því að 44,25% bætist við höfuðstól lánsins á ári.

En skoðum aðeins betur hvað verður til þess að skyndilánin verða svona dýr. Hér erum við með dæmi af skyndiláni fyrir kaupum á sjónvarpi. Eftirstöðvar af upphaflegri lánsfjárhæð eru 59.496 krónur. Við þetta bætast vextir 4.305. Svo lántökugjald 2.053. Þá tilkynninga- og greiðslugjald 3.582. Samtals þarf því að greiða 69.436 krónur. Þegar allur kostnaðurinn er reiknaður saman jafngildir það því að 44,25% bætist við lánið á ársgrundvelli.

Hvað finnst Jónínu um kostnaðinn? Þegar hún tekur lán, veltir hún fyrir sér kostnaði og vöxtum? „Ég spái ekkert í því eða hef ekki gert það hingað til,“ segir Jónína.

Og freistingarnar eru margar, sérstaklega vikurnar fyrir jólin, þegar auglýsingar skyndilánafyrirtækjanna birtast á samfélagsmiðlum.

Jólaauglýsingar um skyndilán byrja að sjást í nóvember.

Jónína segir að auglýsingarnar sýni ekki raunhæfa mynd af lántöku. „Þetta lítur miklu betur út í auglýsingunni. Eins og jóla-Netgíró: Greiddu núna, borgaðu í febrúar. En þá er maður líka komin með heavy skuld í febrúar. Og svo líka eins og með febrúar. Ég var einstæð mamma. Maður treysti alltaf á barnabæturnar að geta borgað þetta bara upp þá,“ segir Jónína.

Taka lán til að borga annað lán

Hefur þú einhvern tímann tekið lán til að borga niður annað svona lán? „Já, margoft. Og ég var eiginlega svolítið byrjuð að treysta á það og þannig kom þetta kvíðakast. Ég vaknaði einn morguninn í febrúar og fékk bara svona panikk og hringdi í pabba: Pabbi, ég er í vandræðum en ég bara búin að skíta upp á bak og skulda allt of mikið. Þetta var bara vonleysis kvíði eins og ég mundi aldrei getað lagað þetta. Ég var sem sagt búin að treysta á það að ég fengi annað lán til að borga niður. En svo lækkaði heimildin mín hjá bankanum og þá náttúrlega panikkaði ég, því ég á eftir að borga svo mikið og fæ engan pening til að borga,“ segir Jónína.

Hún hafði leynt skuldastöðu sinni fyrir foreldrum sínum en leitaði til þeirra á þessum tímapunkti. Náðuð þið pabbi þinn að semja við þessi fyrirtæki þannig að þú þurfir að borga eitthvað minna heldur upphaflega stóð til? „Nei, bara bankanna. Við gátum sameinað einhver lán. En Netgíró var bara: já, nei, nei, þú verður bara að redda þessu,“ segir Jónína.

Hundruð hafa leitað aðstoðar hjá Umboðsmanni skuldara á síðustu tólf mánuðum en núna er fimm mánaða bið eftir því að komast í greiðsluaðlögum. Fyrir sex árum voru 59% þeirra sem sóttu um hjá umboðsmanni með skyndilánaskuldir. Hópurinn hefur stækkað töluvert og í dag eru það 79%.

„Og við höfum fundið svolítið aukinn þunga í því núna á þessu ári bara að fólki líður mjög illa. Það er búið að reyna mikið að halda hlutunum gangandi, og er svolítið kominn á endann með það. Þá kemur það til okkar,“ segir Sara Jasonardóttir, lögfræðingur hjá Umboðsmanni skuldara.

Sara hefur greint hópinn sem á í vanda vegna skyndilánaskulda og leitar til umboðsmanns. Honum má skipta í þrennt. Ungt fólk, eins og Jónína, er einn hópurinn. Þangað leitar líka nýr hópur. Hingað til hafa einhleypir á leigumarkaði verið langstærsti hópurinn en núna hefur þetta breyst aðeins því fjölgað hefur í hópi hjóna sem búa í eigin húsnæði. Þau ná yfirleitt að standa í skilum með síhækkandi afborganir fasteignalána.

Reyna að halda sér á floti með skyndilánum

„En það er kannski að brúa bilið með lántöku. Það er að taka svona skammtímalán. Það sér fyrir sér að það geti látið þetta rúlla í smá tíma. Svo gengur það bara ekki upp. Þá er fólk kannski komið í enn verri stöðu. Það er búið að halda kannski jú fasteigninni í skilum en svo er búið að safna fullt af öðrum skuldum, bara til að reyna að halda sér á floti,“ segir Sara.

Neyðin vegna íþyngjandi skulda er því ekki lengur bara bundin við þau sem lægstu tekjurnar hafa heldur en hún að teygja sig upp í efnameiri hópinn. En þriðji hópur skyndilánaskuldara sem leitar til umboðsmanns er hópur lágtekjufólks. Fólk þar sem tekjurnar hrökkva ekki fyrir útgjöldum.

Giftur fjögurra barna faðir segir mikla skömm fylgja því að hafa steypt sér út í skyndilánaskuldir.

Við í Kveik höfðum samband við mörg sem skulda mikið af skyndilánum. Flest þeirra vildu segja frá reynslu sinni en bara alls ekki þannig að þau þekkist. Við settumst niður með manni sem ekki vill láta nafns síns getið. Hann er giftur og eiga þau hjónin fjögur börn. Hjónin eru bæði öryrkjar.

Lánsheimild hækkar fljótt

Manstu af hverju þú tókst þetta fyrsta lán? „Það var bara held ég bara svona erfiðleikar í lok mánaðarins. Maður var að reyna að bjarga sér með einhvern pening,“ segir fjölskyldufaðirinn. Bara matarinnkaup? „Já, matarinnkaup. Erfitt að ná endum saman þannig að við þurftum að sækjast í þetta. Náttúrlega þegar maður sá þetta auglýst, þá prófaði ég að sækja um þetta. Fékk heimild, 50 þúsund króna heimild minnir mig. Svo náttúrulega koll af kolli hækkar heimildin eftir því hvað þú ert búinn að borga. Þú færð 50.000 einn mánuð, svo 150.000 annan mánuð og svo hækkar þetta koll af kolli og áður en þú veist af ertu kominn með milljón í heimild,“ segir fjölskyldufaðirinn.

Hvaða áhrif hefur þetta haft á þig og þína fjölskyldu? „Það er bara rosalegur kvíði. Það er mikill kvíði um hvað gerist næst. Hvað getum við gert til að reyna að borga þetta. Að maður getur ekki leyft börnunum það sem þeim langar til. Það veldur manni kvíða. Svo úlpur, skólatöskur, föt. Þetta er ekki ódýrt. Skór. Fyrir tveimur árum, voru krakkarnir mínir í leikskólanum og vantaði pollagalla, snjógalla, kuldastígvél. Það var kostnaður upp á 200 þúsund. Þá var sniðugt að taka Netgíró-lán, maður  bara sér auglýsinguna,“ segir fjölskyldufaðirinn.

Auk þess að hafa tekið skyndilán fyrir fötum og mat hafa hjónin dreift greiðslum fyrir íþróttaiðkun barnanna í gegnum skyndilánafyrirtækin líkt og boðið er upp á hjá flestum íþróttafélögum. Mörg sem leita til með umboðsmanns skuldara eru með þannig skyndilánaskuldir. „Maður fær íþróttastyrk frá bænum og það er ekki nóg. Til dæmis hjá fótboltafélögunum þá er það þannig að tímabilið kostar um 190 þúsund yfir allt árið,“ segir fjölskyldufaðirinn. Fyrir öll börnin? „Nei, bara fyrir eitt barn.“

Þau hjónin ákváðu að hætta að reyna að greiða skuldir sínar. Eina leiðin sem þau sjá út úr ógöngunum er gjaldþrot. „Þetta verður mjög erfitt tímabil sem er að gerast og verður örugglega næstu tíu árin. Maður skammast sín fyrir þetta að maður hafi verið vitlaus og hafi gert þetta. Maður vill bara helst að enginn viti af þessu af því að það er enginn nálægt okkur að gera þetta,“ segir fjölskyldufaðirinn.

Skyndilánin eru dýr þegar fólk er í skilum með þau en þegar lán eru komin í vanskil margfaldast kostnaðurinn.

Skoðum lán sem komið er í vanskil og í lögfræðiinnheimtu og aftur erum við að tala um raunverulegt dæmi. Svona var staðan á því í síðasta mánuði. Lánið var tekið hjá Síminn Pay og hafði verið í vanskilum í tæpt ár. Eftirstöðvar af höfuðstól upphaflega lánsins standa í 332.700 krónum. Vextirnir eru næstum fjörutíu þúsund. Kostnaður kröfuhafa er rúmar 27.000 krónur og innheimtukostnaður lögmanns er tæpar 250 þúsund krónur. Skuldarinn þarf því að greiða næstum 650 þúsund sem er um tvöfalt meira en eftirstöðvar upphaflega lánsins. Gagnrýnt hefur verið að ekkert þak er á þeim innheimtukostnaði sem lögmenn mega krefjast.

Bjarni er á örorkubótum og getur ekki staðið í skilum með öll skyndilánin sem hann hefur tekið. „Ég bara missti mig í þessu og maður á nú ekki mikinn pening þegar maður er öryrki og eins og ég er. Og svo fóru bara að koma mánaðamót og alltaf klikkaði síminn, nýr og nýr reikningur og kvíðinn óx og óx og óx og óx,“ segir Bjarni.

Álfheiður mamma Bjarna, hefur ásamt fjölskyldunni greitt um tíu milljónir króna fyrir hann vegna hinna ýmsu skyndilána sem hann hefur tekið. „Svo sagði ég við hann síðast: ég borga ekki meira. Þetta er komið gott. Nú stopparðu og ég mun ekki borga meira. Þetta er orðið svo mikið,“ segir Álfheiður.

Þau mæðginin hafa haft samband við skyndilánafyrirtækin fjögur og beðið þau um að hætta að veita Bjarna lán. „Bað sem sagt Pei, Síminn Pay, Aur og Netgíró um að loka á það að ég geti fengið lán. Og ég sagði þeim bara satt, ég væri veikur eða eru bara mjög veikur á geði og bara mundi eyða þessu í þvælu og réði ekki við neitt. Móðir mín hringdi líka. Þá fóru þeir að segja eitthvað, að þeir mættu ekki loka á það. Mamma sagði: af hverju ekki? „Af því að hann er sjálfráða.“ Og þá sagði mamma: en hann vill láta loka á það. Þau bara: „Já, við getum það ekki. Hann er sjálfráða og hann verður bara að hafa þessi lán.“  „En ef ég leyfi þér að tala við hann og hann segist ekki vilja hafa þetta.“ Og þá sögðu þeir eitthvað: okei þá bara lokum við á þetta. Svo er þetta bara allt í gangi. Og ég er bara á leiðinni ábotninn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögfræðingi Öryrkjabandalagsins ætti ekkert að koma í veg fyrir að skyndilánafyrirtækin setji Bjarna á bannlista ef hann óskar eftir því sjálfur. En ef hann biður um lán er fyrirtækjunum ekki heimilt að synja honum.

Kaupárátta og sífelldar skyndilántökur Bjarna ganga þvert á áform móður hans. „Ég veit það að hún hefur verið að þjálfa mig í að sjá um mig sjálfur eftir að hún fellur frá. Og þegar hún er að sjá að ég sé að gera svona hluti, þá kannski kvíðir henni fyrir að falla frá og vita af mér ennþá í þessu,“ segir Bjarni.

Vilborg Oddsdóttir hefur unnið í 20 ár við að aðstoða fólk sem ekki á fyrir mat eða öðrum nauðsynjum. Rúmlega 2.400 manns fengu aðstoð hjá Hjálparstarfi kirkjunnar á síðasta starfsári. Sá hópur sem leitar þangað vegna skyndilánaskulda hefur stækkað.

„Ein sem var skrifa mér póst og hún byrjaði að taka smálán af því að hún átti ekki fyrir lyfjunum. Það var laugardagur og hún átti ekki fyrir lyfjunum fyrir barnið sitt. Og svo hugsaði hún: Þetta var mjög auðvelt að taka þetta. Það er bara vika eftir af mánuðinum. Mig vantar fyrir mat. Best ég taki líka fyrir matnum. Og svo þegar kemur að því að borga þetta, þá á maður ekkert fyrir því. því maður átti hvort sem er ekkert afgangs,“ segir Vilborg.

Hún hvetur þau sem leita sér hjálpar vegna íþyngjandi skyndilánaskulda til að hætta að borga af lánunum. „Af því að það getur það ekki. Það á ekki fyrir mat. Það er engin spurning spurð. Það er aldrei spurt hvort þú sért borgunarmaður. Það er aldrei farið í söguna þína um hvernig þó staðið þig í lánum áður. Þú ferð bara ferð í símann þinn og þar er bara kominn peningur inn á inn á reikninginn þinn,“ segir Vilborg.

Aðgengi að lánum

Umboðsmaður skuldara hefur gert athugasemdir við hversu greitt aðgengi að skyndilánum. Lánin eru veitt mjög stuttu eftir að sótt er um þau og þau eru afgreidd á nóttu sem degi. Skv. skriflegum upplýsingum frá Pei er 18 ára aldurstakmark á þeirra lánum. Hjá Símanum Pay, Aur og Netgíró er 20 ára aldurstakmark. Þá er einnig 20 ára aldurstakmark að smálánum Núnú.

Viðmælendur Kveiks höfðu tekið upp undir fjögur lán á einum og sama deginum hjá hinum mismunandi lánafyrirtækjum.

Fjártækni

Skyndilánin eru afurð þess sem kallast fjártækni og gengur út á að bankaviðskipti séu aðgengilegri og meira sjálfkrafa.

Fjártækni hefur verið skilgreind sem ný atvinnugrein sem beitir tækni til að bæta eða umbylta fjármálaþjónustu, segir í Hvítbók um um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem starfshópur fjármála- og efnahagsráðherra gaf út 2018.

Arna Ólafsson hefur rannsakað skyndilán. „Í dag er þetta miklu auðveldara vegna fjártækninnar. Hún hefur gert þetta svo auðvelt. Þú hefur aðgang strax að fjármagni. Það er aldrei neinn tími þar sem þú hefur einhvern tíma til að velta því fyrir þér. Í gamla kerfinu þar sem það var einhver tími á milli þar kannski svona fór fólk að hugsa: Er þetta kannski góð ákvörðun eða ekki? Og skiptir þá um skoðun. En núna er það ekki,“ segir Arna.

Þá höfðar það mjög til ungs fólks að þurfa ekki að tala við neinn eða sitja fyrir fram einhvern í bankanum til að biðja um lán. „Ég skammast mín svo mikið þegar ég hringi í bankann eða mæti á staðinn: heyrðu, ég þarf lán og bankinn segir við mig: þú ert hérna með rosalega mikið af lánum. Þú getur eiginlega ekki tekið meira. Svona: æi. Það er betra að leita eitthvert annað, þurfa ekki að tala við neinn. Það er alltaf mjög skömmustulegt bara að labba inn í banka og bara: ég er í skít,“ segir Jónína.

Smálán

Fyrir þau sem eru hvatvís og fljót til að taka skyndilán eru smálánin líklega hættulegust. Þau eru ein tegund skyndilána. Smálán voru töluvert í umræðunni fyrir nokkrum árum. En það sem er ólíkt með smáláni og öðrum skyndilánum er að þegar tekið er smálán er það afgreitt í mörgum smáum lánum og er því enn dýrara en venjulegt skyndilán. Eina smálánið sem er í boði í dag eru frá fyrirtækinu Núnú lán.

Í einni af auglýsingum Núnú og fólk er hvatt til að kaupa sér sólarlandaferð með láni frá Núnú. Hámarks lánsfjárhæðin er annað hvort 12 þúsund eða 24 þúsund krónur, fer eftir lánshæfisflokki þess sem tekur lánið. En eins og Sara hjá Umboðsmanni skuldara, bendir á: „Það er enginn sem fer í utanlandsferð fyrir tólf þúsund krónur. Þá þarftu taka ansi mörg lán og borga kostnaðinn sem fylgir því.“

Ef sólarlandaferðin kostaði hundrað þúsund krónur þarf að taka níu tólf þúsund króna smálán hjá Núnú. „Ofan á hverja og eina lánveitingu leggst ákveðinn kostnaður sem þýðir að kostnaðinum við lán margfaldast,“ segir Sara. „Svo er þetta líka, þú getur bara haft þau í þrjátíu daga á max. Ef þú ert ekki búin að borga eftir þrjátíu daga þá ertu bara í skít. Það er ekki lengri lánstími,“ segir Jónína.

En aftur að skyndilánum almennt. Þau eru auglýst sem þægileg, örugg og fljótleg – en ýta jafnvel undir óskynsamlega lántöku og eru hættuleg þeim sem eru veik fyrir, glíma t.d. við spilafíkn.Kveikur ræddi við mann sem haldinn er spilafíkn. Hann vill ekki koma fram undir nafni. Hann er um fertugt og hefur tekið skyndilán til þess að greiða tapið af spilamennskunni.

„Ég byrjaði að taka smálán til að reyna að ná jafnvægi aftur, ná peningnum til baka. Jú, jú, maður borgaði af smáláninu til að byrja með. Stóð við sitt út af því að maður sá að það myndi hækka, lántökuheimildin og svona. Bara fínt. Hugsunarhátturinn var ekkert í lagi enda er þetta stórhættulegt fyrir veikburða einstaklinga með fíknisjúkdóm,“ segir maðurinn.

Um 6.000 Íslendingar glíma við verulegan spilavanda og um 700 eru líklega spilafíklar. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum áhugafólks um spilafíkn eru nánast öll sem glíma við fíknina með skyndilánaskuldir. „Þegar þú byrjar að borga upp lánin þá vinnur þú þér inn meira traust. Um leið og þú borgar upp einn hundrað þúsund kall þá hækka þeir heimildina þína: Ah, þá máttu fá hundrað í viðbót. Bara strax. Hækka þeir þetta bara strax,“ segir maðurinn.

„Eins og leikur“

Arna Ólafsson bendir á að það sé nú kannsk eitthvað við fjártæknina og öppin í símunum sem daðrar við fíknina. „Við sjáum það sama með fjárfestingar að einstaklingar, það er líka komin fjártækni þar. Þar sem einstaklingar allt í einu farnir að geta gert þetta í símanum þar sem gerist er einstaklingar eru farnir að kaupa og selja miklu, miklu oftar og taka verri ákvarðanir af því að það er bara of auðvelt. Og líka þetta er orðið svolítið svona eins og leikur. Þú ert með þetta í símanum, getur gert þetta hvar sem er og það lítur út fyrir sig engar afleiðingar eða alvarlegar afleiðingar sem fylgja því að þú tekur þannig ákvarðanir,“ segir Arna.

Hvernig er það ef maður er með, eins og þú ert með fíknisjúkdóm, spilafíkn, svo ertu að horfa á appið og sérð allt í einu að þú ert kominn með lánsheimild upp á milljón? „Hvernig er tilfinning þá? Það er rosalegt kikk. Það kemur rosalegt, verðlauna kikk, eins og þetta sé peningurinn manns,“ segir maðurinn með spilafíknina.

Jónína tekur undir að freistandi sé að vita af hárri lánsheimild. „Mér leið rosa vel. Mér leið eins og í ætti ofboðslega mikinn pening. Já, mér fannst ég alltaf eiga miklu meira en ég átti. Mér líður svona eins og ef ég eyði þessum pening ekki, þá verði hann tekinn af mér eða eitthvað svoleiðis. Ég var alltaf að reyna að halda í hann,“ segir Jónína.

Þannig að það að sjá milljón í heimild, það er erfitt að stoppa sig af og nota hana ekki þegar maður er þarna? „Já, úff. Þetta var bara gjörsamlega stjórnlaust þegar ég var kominn þangað sko. Þarna er ég bara algjörlega búinn að tapa þegar ég fæ eitthvað svona,“ segir maðurinn með spilafíknina.

En hvað segja fyrirtækin sem veita fólki þessi skyndilán? Þegar smálánin voru sem mest í umræðunni fyrir nokkrum voru dularfullir menn í útlöndum sem stóðu á bak við þau. En þessu er öðru vísi farið nú.

Hver eiga skyndilánafyrirtækin?

Pei er í eigu Greiðslumiðlunar ehf. sem er dótturfélag Greiðslumiðlunar Íslands. Skv. ársreikningi 2022 eiga þrjú félög Greiðslumiðlun Íslands:

  • Landsbankinn hf. á 47,9%
  • Bál ehf. á 39,8%
  • Solvent ehf. á 12,3%

Aur og Netgíró eru í eigu Kviku banka. Skv. ársreikningi 2023 var fjöldi hluthafa í Kviku banka 2.876 í lok ársins. Tíu stærstu eru:

  • Lífeyrissjóður verzlunarmanna 9,56%
  • LSR A-deild 7,89%
  • Stoðir hf. 7,01%, Birta lífeyrissjóður 6,00%, Gildi lífeyrissjóður 5,43%,  Stapi lífeyrissjóður 3,54%, Lífsverk lífeyrissjóður 2,55%, Almenni lífeyrissjóðurinn 2,30%, Arion banki hf. 1,92%, Fossar fjárfestingarbanki hf. 1,45%.

Síminn Pay er dótturfélag Símans. Skv. ársreikningi 2023 voru hluthafar í Símanum 1.027 í árslok:

  • Stoðir hf. með 16,61%
  • LSR A-deild 9,15%
  • Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga 8,95%
  • Lífeyrissjóður verzlunarmanna 7,75%
  • Gildi lífeyrissjóður 5,37%
  • Birta lífeyrissjóður 3,82%
  • Stapi lífeyrissjóður 3,71%
  • Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 3,32%
  • Stefnir - innlend hlutabréf hs. 2,99%
  • LSR B-deild 2,56%.

Kveikur reyndi að fá viðtal við talsmenn þessara þriggja lánafyrirtækja. Kvika banki og Síminn höfnuðu því alfarið. Forsvarsmaður Pei taldi að efnistök þáttarins, eins og þeim var lýst fyrir Pei, ættu ekki við fyrirtækið nema með mjög óbeinum hætti. Við gátum því ekki spurt þau hvort þau teldu að þessi lánastarfsemi væri sanngjörn og hvort henni væri einkum beint að þeim sem stæðu höllum fæti í samfélaginu, svo dæmi séu tekin.

Innherji á Vísi í orð Orra Haukssonar, forstjóra Símans, á uppgjörsfundi fyrirtækisins í febrúar í fyrra. Þar segir Orri að Síminn vilji gera fjártæknilausn að nýjum kjarnastöpli í rekstrinum. Skyndilánin eru einmitt fjártækni.

Engin yfirsýn yfir umfang

En hvert skyldi vera umfangi skyndilána? Samkvæmt lögum getur Neytendastofa kallað eftir upplýsingum um það, en þegar við leituðum þeirra upplýsinga var svarið að þessar upplýsingar lægju ekki fyrir og bent á að þetta væri heimild en ekki skylda. Þess vegna hefur enginn yfirsýn yfir hversu miklar skyndilánaskuldir fólks eru.

En þó er hægt að finna vísbendingu um umfangið í fjárfestakynningu Símans. Í kynningunni fyrir ári kom fram að útlán skyndilánanna Síminn Pay stóðu í 60 milljónum í lok árs 2019. Í árslok 2022 voru útlánin 1,8 milljarður króna og í lok síðasta árs voru þau þrír milljarðar króna og því hátt í tvöfalt meiri en árið áður og fimmtíu sinnum meira en 2019.

Útlánin eru enn meiri hjá Netgíró sem er í eigu Kviku banka. Fram kom í kynningu Ármanns Þorvaldssonar, forstjóra bankans, á ársreikningi síðast árs að Netgíró hefði átt mjög gott ár og að útlánin hefðu í fyrsta skiptið farið yfir fimm milljarða króna. Þá höfðu um áramót verið gefin út ríflega 27.000 ný greiðslukort frá Aur.

Vilborg hjá Hjálparstarfi kirkjunnar furðar sig á því að skyndilánin fái að þrífast. „Samfélag sem býður upp á það að svona fyrirtækin fái að starfa, það hlýtur að vera eitthvað af því samfélagi, að fólk grípi til þeirra örþrifaráða að taka lán á okurvöxtum til að geta átt fyrir lyfjunum sínum eða komið barninu sínu á árshátíð eða skólaferðalag. Þetta hefur alveg hrikaleg áhrif á líf þessara einstaklinga og börnin þeirra sem lenda í þessum hvirfilbyl og þessari flækju. Og þetta er það fólk sem býr við þau kröppustu kjör og líka félagslega kannski mjög einangrað og fátækt. Og það sem mér finnst allra, allra verst er að þetta er búið að fá að þrífast svo lengi og í rauninni eru eiginlega engin, sem sýna þessu virkilegan áhuga til að reyna að stoppa þetta,“ segir Vilborg.

En hvað hafa ráðamenn gert? Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipaði 2018 starfshóp til að kortleggja umhverfi skyndilána- og smálánafyrirtækja. Sara sat í þeim hópi. Þar voru ýmsar hugmyndir ræddar:

  • Hámark á fjölda lána á dag
  • Frestun á afgreiðslu
  • Ekki lán á nóttunni
  • 2 sólarhringa seinkun
  • Auglýsingar takmarkaðar

„Þetta voru svo sem allt breytingar sem var ekki ekki farið í,“ segir Sara. Það sem var gert var að setja hámark á þann kostnað sem skyndilánafyrirtækin mega innheimta.

Netgíró og Aur heyra undir Kviku og sæta eftirliti Fjármálaeftirlitsins. En Síminn Pay, Pei og Núnú gera það ekki. Neytendasamtökin gagnrýndu ráðherra fyrir að hafa ekki gert nóg og kröfðust þess að öll skyndilánafyrirtæki væru leyfisskyld líkt og fjármálafyrirtæki. Niðurstaðan varð sú að þeim væri einungis gert skylt að skrá sig hjá Neytendastofu. Ráðherra málaflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, svaraði þessari gagnrýni í Sjónvarpsfréttum 16. október 2019.

Í þessu samhengi er það einfaldlega þannig að við erum að horfa framan í mjög miklar breytingar í fjártækni, í nýsköpun í fjármálakerfinu sem er til hagsbóta fyrir neytendur. Breytingar á fjármálamörkuðum. Og það eru fyrirtæki sem eru að stunda skammtímalán sem eru fullkomlega lögmæt og leyfiskylda myndi hafa íþyngjandi áhrif á þau. Þegar ég horfi á þá heildarmynd þá er ég ekki tilbúin til að leggja það til, að þessi fyrirtæki verði leyfisskyld.

En Vilborg telur að þau sem taka skyndilánin séu ekki ýkja vel upplýst um hugtakið fjártækni. „Mjög margir af þeim sem eru að koma til okkar eru með einhvers konar greiningar, hafa eru ekki vel læs og skrifandi og þótt þau séu Íslendingar, eru ekki vel læsir og skrifandi, og skilji ekki pósta sem þeir eru að fá almennilega. Margir hafa stutta skólagöngu. Þannig að bankatækni eða ný tækni, þau skilja hana bara ekki,“ segir Vilborg.

Hún bætir við að hópurinn sem leitar til Hjálparstarfs kirkjunnar sé fátækur. „Ef þessi hópur fer í gjaldþrot þá eiga þessi fyrirtæki, eiginlega enga möguleika á að sækja neitt hjá þeim. Þetta er hópur sem á ekki neitt. Hann er mjög oft á leigumarkaði og skuldum vafinn. Ef þau eiga bíl þá eru þetta einhverjir gamlir bílar. Þess vegna skil ég ekki, ef ég væri lánveitandi að bjóða þér milljón og vitandi það að þú ert ekki greiðandi. Ég bara fatta ekki þetta konsept. Ég skil það ekki. Og vitandi það ef þú getur ekki borgað mér, þá áttu ekki neitt sem ég get sótt í. Sem segir okkur bara hvað þeir eru að græða rosalega mikið. Einhverjar milljónir hingað og þangað skipta þá bara engu máli, sem þeir vita að þeir fá ekki. Ég er bara, mér finnst þetta bara glæpsamlega starfsemi sem ætti ekki að vera leyfð,“ segir Vilborg.

Rétt er að taka fram að ekkert bendir til þess að skyndilánafyrirtæki fari ekki að lögum. Spurningin er því frekar hvort rammi laganna sé eins og hann ætti að vera – eða hvort skoða ætti hugmyndir starfshóps ráðherra um seinkun á útgreiðslu láns og fleira.

En hver eru skilaboðin til þeirra sem eru að hugsa um að taka skyndilán? „Ekki gera það. Þetta verður vítahringur mjög fljótt,“ segir Jónína. Fjölskyldufaðirinn bætir við: „Ég veit að þetta er freistandi en þetta er bara til þess að stofna þér í skuldir og áður en þú veist af ertu bara kominn í algjöran vítihring sem þú nærð ekki að losna úr.“ Og maðurinn sem ánetjaðist spilum biður fólk að gæta sín: „Og ég lofa þér því ef þú dettur inn í þennan vítahring sem ungur maður þá fjúka 15 ár eins og á tveimur árum hjá þér. Fimmtán ár eru farin eins og 2-3-4 ár hjá venjulegum manni. Viltu það? Nei, þú vilt það ekki. Þá ertu búinn að skemma einn fimmta af lífinu.“