Leigusalinn með kolakjallarann og klúður slökkviliðsins

Fjölskylda sem hefur búið í hættulegum kolakjallara undir tröppum við Miklubraut í Reykjavík er komin í bráðabirgðahúsnæði. Slökkviliðið fékk ítarlega ábendingu um búsetu í kjallaranum fyrir ári en aðhafðist ekki.

Leigusalinn með kolakjallarann og klúður slökkviliðsins

Á horni Miklubrautar og Lönguhlíðar í Reykjavík stendur hús þar sem eitt sinn var verslun og bakarí. Einhverjir vegfarendur hafa eflaust velt fyrir sér sérkennilegum gluggum í sprungnum tröppunum fyrir utan, en þá hefur líklega ekki órað fyrir því að innan við þá byggi fólk. Undir þessum tröppum svaf fjögurra manna fjölskylda frá Venesúela í tæpt ár.

Kveikur fjallaði um aðstæður fjölskyldunnar í þessum gamla kolakjallara 18. apríl, en til að tryggja vernd heimildarmanna — fjölskyldunnar sem hafði á þessum tíma ekki í önnur hús að venda — gat Kveikur hvorki upplýst hvar kjallarinn væri né hver leigði fjölskyldunni hann. En nú hefur fjölskyldan fengið vilyrði um annað húsnæði.

Rannsókn Kveiks hefur nú leitt í ljós að slökkviliðið hafði fengið tvær ábendingar um búsetu í kjallaranum, aðra fyrir rúmu ári síðan, áður en fjölskyldan flutti þar inn.

Hér er hægt að horfa á umfjöllunina. Á myndinni er húsið sem kjallarinn tilheyrir, við Miklubraut 68 í Reykjavík.

Fjölskyldan komin í skjól

Eftir að þátturinn fór í loftið upphófst hröð atburðarás. Áhorfandi hafði samband og bauð fjölskyldunni þriggja herbergja íbúð til leigu. Íbúðin er þó ekki laus alveg strax og fólkið dvaldi því áfram í kjallaranum.

Nokkrum dögum síðar barst slökkviliðinu ábending frá manni sem kannaðist við kjallarann. Fulltrúar slökkviliðsins fóru samdægurs á staðinn og tóku húsnæðið út.

Fjölskyldan er komin í tímabundið skjól og hefur fengið vilyrði fyrir íbúð í Breiðholti. 

Niðurstaðan var sú að þarna gæti fjölskyldan ekki verið stundinni lengur. Fólkið er nú í bráðabirgðahúsnæði þar til það fær íbúðina afhenta.

Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, var meðal þeirra sem fór á vettvang, á föstudegi fyrir tæpri viku.

„Þetta var með því verra sem við höfum séð,“ segir hann.

Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Slökkviliðið réðst ekki í formlega lokun því búsetu hefur verið hætt.

„Eiganda hefur verið tilkynnt að verði um búsetu að ræða aftur munum við loka á formlegan máta,“ segir Birgir.

Hvernig ætlar slökkviliðið að tryggja að það verði ekki búið þarna aftur?

„Eini möguleikinn er að fylgjast með því. Við getum bankað upp á og skoðað þar sem þetta er atvinnuhúsnæði,“ segir Birgir.

Þá segir hann slökkviliðið reiða sig á ábendingar frá almenningi.

Köld geymsla

Húsið sem kjallarinn tilheyrir stendur við Miklubraut 68, á íbúðarhúsalóð, og skiptist í nokkrar eignir sem flokkast sem íbúðarhúsnæði, verslunarhúsnæði og iðnaðarhúsnæði.

Það má nota húsnæðið til þess sem það er ætlað. Rýmið sem fjölskyldan bjó í er skráð sem geymsla undir verslunarrými á fyrstu hæð en svefnaðstaðan sem köld geymsla.

Í skýrslu slökkviliðsins er staðfest að aðstæður séu mjög slæmar; engin loftun, mikill saggi, mjög heitt og þungt loft, um eða undir tveggja metra lofthæð og ein flóttaleið um löng geymslugöng.

Jón Magngeirsson leigði fjölskyldunni íbúðina.

Stuðningsmaður Samfylkingarinnar

Eigandinn hefur verið áminntur fyrir alvarleg brot á brunavarnalögum.

Sá heitir Jón Magngeirsson og er pípulagningamaður á eftirlaunum. Jón á og leigir út fleiri eignir í húsinu, meðal annars ósamþykktar stúdíóíbúðir á hæðinni fyrir ofan, þar sem einu sinni voru seld brauð og blóm. Þær íbúðir eru þó öllu vistlegri en kjallarinn.

Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2018 bauð Jón Magngeirsson Samfylkingunni að nota gluggana undir auglýsingar. Íbúar voru ósáttir og svo fór að auglýsingarnar voru fjarlægðar. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagðist í fjölmiðlum ekki hafa vitað að á bak við þær byggi fólk.

Auglýsingarnar sem síðar voru teknar niður. Mynd: Wikimedia Commons.

Dagur hefur hampað Jóni Magngeirssyni á samfélagsmiðlum og sagt þennan gamla þjálfara sinn úr Árbænum hetju og hvers manns hugljúfa.

Á vitorði margra

Nágrannar vissu sumir af búsetunni í kjallaranum, þarna hafði fólk búið árum saman, en fáa grunaði líklega að aðstæður væru svona slæmar.

Maður sem bjó í hverfinu, og vildi ekki koma fram undir nafni, segist hafa orðið var við umgang lengi.

„Ég sá mikið rennerí af fólki, ungu sem öldnu, að labba alltaf inn þennan stiga, niður í þessa íbúð sem þið fóruð og skoðuðuð, ég kíkti þarna inn þar sem fólk var að fara. Svo kemur í ljós að þarna er bara íbúð í útleigu og þarna býr fólk, mér var rosalega brugðið við að komast að því.“

Hann ákvað í framhaldinu að gera slökkviliðinu viðvart. Sendi inn ábendingu í gegnum þar til gerða gátt á heimasíðu Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

Ábendingin, sem barst í mars í fyrra var ítarleg. Viðmælandi Kveiks lýsti kjallaranum sem brunagildru, sagði að þarna væri lágt til lofts, aðeins ein útgönguleið og engin opnanleg fög. Þetta væri ekki boðlegt.

Hér birtist hluti af ábendingunni:

Þá kom fram að önnur sambærileg eign væri í húsinu og að þar væri einnig búið.

„Ég er bara almennur borgari“

Hann bjóst við að haft yrði samband, eða einhver kæmi og tæki húsnæðið út og því voru það honum vonbrigði að sjá umfjöllun Kveiks, ári síðar.

„Ég hélt að kerfin myndu snúast aðeins hraðar en þetta, þegar koma svona ábendingar um búsetu í vonlausum aðstæðum. Svo virðist sem þeir hafi ekki kannað málið meira en þau orð sem ég lét falla í ábendingunni, ég er bara almennur borgari, hef ekki þekkingu og get ekki skoðað sömu gögn og þeir.“

Maðurinn hafði, eftir umfjöllun Kveiks, samband við slökkviliðið, sem varð til þess að það fór loksins á staðinn.

Slökkviliðið fór að taka harðar á þessum málum eftir brunann á Bræðraborgarstíg, en húsið við Miklubraut 68 rataði ekki inn á gátlista yfir hættulegt húsnæði.

Gáfu sér að þetta væri íbúðarhúsnæði

Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri, viðurkennir að slökkviliðið hafi hlaupið á sig.

„Við reiknuðum með því hér innanhúss að þetta væri íbúðarhúsnæði, þar sem okkar heimildir eru mun veikari, þess vegna fór það bara til hliðar en um leið og við fengum ábendingu núna og skoðuðum þetta betur kom í  ljós að þetta er atvinnuhúsnæði þar sem okkar heimildir eru algerlega skýrar.“

Birgir Finnsson. 

Ábendingin var ítarleg, í henni komu fram fastanúmer og nöfn eigenda. Birgir segir að verklag við móttöku ábendinga hafi verið skoðað í því skyni að tryggja að þetta endurtaki sig ekki.

Slökkviliðið ætli ekki að leggja það í hendur almennra borgara að rannsaka mál, kanna hvort húsnæði flokkist sem íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði.

„Það liggur hjá okkur og ef við þurfum að leita aðstoðar leitum við aðstoðar byggingarfulltrúa.“

Í byrjun þessa árs barst slökkviliðinu önnur ábending um búsetu í kjallaranum, en sú leiddi heldur ekki til aðgerða.

„Maður vill ekki að svona gerist í hverfinu sínu“

Brunavarnir voru mörgum hugleiknar eftir brunann á Bræðraborgarstíg og nágranninn sem tilkynnti segir búsetuna hafa valdið sér áhyggjum.

„Maður vill ekki að eitthvað svona gerist í hverfinu sínu og þess vegna tilkynnir maður, ég hefði ekki getað hugsað þá hugsun til enda ef illa færi og ég hefði ekki sent inn ábendingu.“

Handvömm slökkviliðsins leiddi til þess að í kjallaranum var búið, við hættulegar aðstæður, í ár í viðbót.

„Það er ekki gott,“ segir Birgir.

Í ábendingunni var minnst á aðra íbúð. Slökkviliðið er ekki búið að fara og skoða hana enn en hyggst gera það.

„Við erum búin að fara yfir forsendur og fylgjum því eftir.“

Birgir segir að kolakjallarinn sé í forgangi núna.

Í kjallaranum bjuggu tvö börn undir 18 ára aldri. 

Slökkviliðinu í raun skylt að kæra

Það getur verið refsivert að leigja fólki hættulegt húsnæði. Dæmi eru um að leigusalar hafi verið dregnir til ábyrgðar.

Maður sem hýsti starfsmenn starfsmannaleigu í uppfuðranlegum svefnkössum á Smiðshöfða hlaut árið 2021 fimm mánaða dóm.

Þetta var í fyrsta sinn sem slökkviliðið kærði svona mál til lögreglu og héraðssaksóknari ákærði manninn, meðal annars á grundvelli laga um brunavarnir og almennra hegningarlaga, fyrir að stofna lífi manna í augljósa hættu í ábataskyni á ófyrirleitinn hátt.

Lögreglan hóf fyrir tveimur árum rannsókn á hvort eigandi hússins við Bræðraborgarstíg 1 hafi gerst brotlegur við lög. Það er nú komið til ákærusviðs lögreglu sem á eftir að taka ákvörðun um næstu skref.

Slökkviliðið tók kjallara hússins við Miklubraut út, tók myndir og gerði skýrslu. Til skoðunar er að kæra málið til lögreglu. Í raun ber slökkviliðinu skylda til þess samkvæmt brunavarnalögum, þar sem fólkið var í hættu.

Lögregla var ekki kölluð á vettvang, og ekki heilbrigðiseftirlitið. Birgir segir ekki hafa verið talið tilefni til þess, lögreglan hafi aðgang að öllum gögnum slökkviliðsins um málið.

Slökkviliðið hefur tilkynnt eiganda hússins, Jóni Magngeirssyni, um aðgerðir sínar og sent honum gögn málsins.

Hann var á Tenerife þegar Kveikur reyndi að ná af honum tali. Hann sagðist hafa heyrt af umfjöllun Kveiks en vildi ekki tjá sig um útleiguna á kjallaranum.

Jón Magnússon, lögmaður nafna síns Magngeirssonar, var líka erlendis og sagði í samtali við Kveik ekki tímabært að tjá sig um málið.