Deilt um 70 milljarða virkjunaráform Landsvirkjunar í miðri byggð
Landsvirkjun hefur beislað jökulfljót á hálendinu. Nú vill fyrirtækið gera það í byggð. En áform um Hvammsvirkjun í Þjórsá eru umdeild.
Þjórsársvæðið er mesta virkjunarsvæði á Íslandi.
Jökulvatnið streymir frá Hofsjökli og Vatnajökli að suðurströndinni með krafti sem Landsvirkjun hefur beislað aftur og aftur — en alltaf uppi á hálendi eða við hálendisbrúnina, þar til núna.
Á mörkum Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra stendur nefnilega til að reisa nýja virkjun á láglendi.
Hvammsvirkjun í Þjórsá yrði fyrsta stóra virkjun Landsvirkjunar með jökullóni í miðri byggð. Það markar viss tímamót en vekur líka spurningar um verðmiðann: Hvað má raforka fyrir orkuskipti eða iðnað framtíðarinnar kosta? Ekki í krónum og aurum, heldur fyrir umhverfið og samfélagið.
Er í lagi að raska náttúrunni ef hagsmunirnir eru nægilega miklir? Og skiptir máli hvort það er gert þar sem fáir sjá eða í túnfætinum heima?
Fossnes í Gnúpverjahreppi stendur hátt uppi í hlíð á vesturbökkum Þjórsár. Þar hefur Sigrún Bjarnadóttir búið síðan seint á áttunda áratugnum. Út um stofugluggann er mikilfenglegt útsýni að Þjórsá.
„Þetta er fallegra á sumrin náttúrulega,“ segir hún. Þá séu eyjarnar í fljótinu víði vaxnar.
En ef Hvammsvirkjun verður reist umbreytist þessi sýn. Lón virkjunarinnar yrði nefnilega beint fyrir neðan bæinn.
„Þetta verður sem sagt bara haf. Að sjá út um gluggann,“ segir Sigrún. Lónið nái heim undir gljúfur, rétt fyrir neðan bæinn. Vegurinn verði hækkaður og tún spillist. „Og útsýnið náttúrulega gjörbreytist.“
Þetta hugnast Sigrúnu ekki, þótt hún hafi árið 2008 undirritað samning við Landsvirkjun um afnot af landinu.
„Þetta er mjög fallegt land. Og áin er búin að renna hérna í þúsundir ára,“ segir hún. „Það er bara þessi breyting sem að ég er náttúrulega bara ekki sátt við sko, og mjög margir. Þannig er það.“
Á rúmlega hálfri öld hafa sjö stórar virkjanir verið reistar á vatnasvæði Þjórsár og þverár hennar, Tungnaár: Efst er Vatnsfellsvirkjun, svo Sigölduvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Búðarhálsvirkjun, Sultartangavirkjun, Búrfellsvirkjun og sú nýjasta, Búrfellsvirkjun II, sem var gangsett 2018.
En Landsvirkjun vill virkja meira. Hvammsvirkjun, sem yrði um 16 kílómetrum fyrir neðan Búrfellsvirkjun, fékk samþykki Alþingis árið 2015, en nú er beðið eftir framkvæmdaleyfi frá sveitarfélögunum tveimur. Landsvirkjun vonast til að geta hafið framkvæmdir strax í sumar. En virkjunin er umdeild, og andstæðingar hennar hafa ekki gefist upp.
Kveikur fór með Sigrúnu og dóttur hennar, Önnu Björk, um bakka Þjórsár fyrir neðan Fossnes.
„Þetta er eitthvað sjarmerandi við þessar klappir hérna,“ segir Sigrún. „Það er Þveráin hérna og svo Þjórsáin. Þetta er bara fallegur staður.“
En ef Hvammsvirkjun verður reist fer þessi staður á bólakaf.
Árniðurinn hyrfi líka og Sigrún segist eiga eftir að sakna hans verulega.
Anna Björk hefur barist gegn því að Hvammsvirkjun verði reist.
„Mér finnst þetta alveg hræðilegt,“ segir hún. Hún hafi alist upp við þetta land. „Ég bara vil ekki sjá þetta fara.“
Ef Hvammsvirkjun verður byggð verður Þjórsá stífluð skammt neðan við Fossnes, nálægt bænum Minna-Núpi. Sjálft stöðvarhúsið verður að mestu neðanjarðar á austurbakka árinnar, í Landsveit í Rangárþingi ytra. Þaðan fellur vatnið síðan rúmlega þriggja kílómetra leið, fyrst um frárennslisgöng og loks frárennslisskurð, mest tæplega 35 metra djúpan, áður en það verður sent aftur út í náttúrulegan farveg Þjórsár. Ofan við stífluna myndast fjögurra ferkílómetra stórt inntakslón, um tvöfalt stærra en Elliðavatn ofan Reykjavíkur, en uppistöðulónin sem fyrir eru á hálendinu nýtast til að miðla vatni í virkjunina.
Hvammsvirkjun hefur verið í bígerð í áratugi. Gróflega áætlaður kostnaður hleypur á hátt í 70 milljörðum króna, enda yrði virkjunin engin smásmíði.
Til að mynda yrðu reistar stíflur og stíflugarðar sem alls yrðu um fimm kílómetrar á lengd. Uppsett afl virkjunarinnar yrði 95 megavött, sem er álíka og minnstu hálendisvirkjanir Landsvirkjunar, og hún gæti framleitt raforku sem er á við notkun um 180 þúsund íslenskra meðalheimila.
Haraldur Þór Jónsson, sem varð oddviti og sveitarstjóri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í fyrra, segir að honum lítist ekkert illa á framkvæmdina sem slíka.
„Sjálfur hef ég verið mjög hlynntur virkjanauppbyggingu,“ segir hann.
„Virkjanasinni, mikill virkjanasinni.“
Umhverfismati fyrir Hvammsvirkjun lauk fyrir nærri 20 árum en var endurskoðað að hluta fyrir fimm árum. Niðurstaða Skipulagsstofnunar árið 2018 var að áhrif virkjunarinnar á landslag yrðu verulega neikvæð, sem er versta einkunn.
„Ég held að það sé enginn vafi á því,“ segir Haraldur um niðurstöðuna. „Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að það var ákveðið að virkja þar. Það breytir ekki þeirri staðreynd að það er búið að fjalla um þetta á öllum stigum stjórnsýslunnar.“
Hlutverk sveitarstjórnar, samkvæmt lögum um framkvæmdaleyfi, sé bara að kanna hvort gögnin séu í samræmi við skipulag. „Það er svolítið ramminn,“ segir Haraldur.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segist telja að bygging Hvammsvirkjunar sé „mjög ábyrg nýting á auðlindum.“
Í tilviki Hvammsvirkjunar séu uppistöðulónin nú þegar til staðar. „Og rafmagnslínurnar liggja yfir. Þannig að öll stærstu umhverfisáhrifin eru komin,“ segir Hörður.
Sigurður Kristmundsson rekur kúabú í Haga, næsta bæ við Fossnes. Þar hefur ætt hans búið í meira en 100 ár.
En ef Hvammsvirkjun verður reist verður ættjörð Sigurðar umbylt — bókstaflega.
„Vegurinn verður tekinn, hérna fyrir ofan okkur, og færður hérna niður að árbakkanum,“ útskýrir Sigurður þar sem hann stendur á túni niðri við Þjórsá. „Og í raun allt þetta svæði hér kemur bara til með að verða landfylling.“ Landið verði þannig hækkað upp til að komast upp fyrir yfirborð virkjunarlónsins.
Á landfyllingunni á svo að rækta upp ný tún. Og líkt og hjá Sigrúnu í Fossnesi myndi útsýnið frá Haga gerbreytast, enda yrði lón virkjunarinnar beint fyrir neðan bæinn.
„Þetta eru svo sem blendnar tilfinningar,“ segir Sigurður spurður hvernig heimafólkinu í Haga lítist á að fá virkjun í túnfótinn.
„Maður skilur að það er aukin þörf eftir rafmagni alls staðar, og einhvers staðar að þarf það að koma. Þetta er kannski besta leiðin til að fá það,“ segir hann.
„En það vill enginn fá virkjun í bakgarðinn hjá sér. Það er kannski allt í lagi hjá nágrannanum.“
Hörður forstjóri Landsvirkjunar segir að Hvammsvirkjun breyti nærumhverfinu en á móti megi segja að verið sé að breyta nærumhverfi fólks alls staðar.
„Bara hérna í Reykjavík þá eru byggð háhýsi rétt hjá fólki, þar sem að fólk býr,“ segir hann. „Jafnvel sólin hverfur sem að hérna skein á húsið stóran hluta af deginum. Fjallasýnin hverfur.“
„En ég hef fullan skilning á þessum sjónarmiðum,“ segir hann.
Hugmyndin um lón í miðri sveit stendur í mörgum. En ef Þjórsá verður stífluð snarminnkar rennsli árinnar líka á tæplega þriggja kílómetra kafla neðan við stífluna.
Þegar gengið er niður að Þjórsá við eyna Ölmóðsey blasir við mikill vatnselgur. Þessar flúðir eru í uppáhaldi hjá Sigþrúði Jónsdóttur, náttúrufræðingi og náttúruverndarsinna í Gnúpverjahreppi.
„Þetta er einmitt svæði, ef að það verður af þessari virkjun, þar sem verður tekið nánast allt vatnið úr þessum farvegi,“ segir Sigþrúður. „Þannig að það verður sáralítið rennsli, og þá náttúrulega erum við ekki með þessa á lengur.“
Landsvirkjun ætlar að tryggja að lágmarksrennsli um farveg fljótsins verði 10 rúmmetrar á sekúndu eftir virkjun, og í meðalvatnsári er áætlað að meðalrennsli á tímabilinu maí til september verði að minnsta kosti 40 rúmmetrar á sekúndu. Meðalrennslið í dag er hins vegar um 330 rúmmetrar á sekúndu.
„Við verðum líka að horfa á ána sem vistkerfi og búsvæði,“ segir Sigþrúður. „Og nú er til dæmis áratugur endurheimtar vistkerfa hjá Sameinuðu þjóðunum, þar sem er verið að leggja áherslu á það að vernda vistkerfi,“ segir hún.
„En ekki eyða þeim eins og yrði gert hér.“
Virkjunin hefði líka áhrif á laxastofninn í Þjórsá. Til að stofninn geti þrifist ofan stíflunnar á að setja upp laxastiga og sérstaka seiðafleytu til að hjálpa seiðum að komast til sjávar. Einnig verður ráðist í aðrar mótvægisaðgerðir.
Haraldur oddviti bendir á að töluverð gagnrýni hafi komið frá Veiðifélagi Þjórsár. „Fari það á versta veg þá kemur ekkert fram hvernig á að bregðast við því,“ segir hann. Einungis sé rætt um að það eigi að vakta og skoða, fylgjast með, í 10 ár. „En það kemur ekki fram í gögnunum hvað ef, ef bara lífríkið bara deyr fyrir ofan stíflu,“ segir hann.
Hörður Arnarson segir aftur á móti að ef mótvægisaðgerðirnar virki ekki grípi Landsvirkjun til aðgerða til að tryggja að laxinn komist upp fyrir, þótt hann fari ekki upp laxastigann, og að seiðin komist niður, þótt þau fari ekki niður seiðafleytuna.
Hörður segir að þetta megi til dæmis gera með því „að fanga fiskinn bara fyrir neðan þá laxastigann og fara með hann upp fyrir, meðan við erum að laga það sem þarf að laga.“
„Þetta er alveg þekkt tækni,“ segir hann. Á sama tíma verði fylgst með því hvort seiðin fari niður. „Ef að það gerist ekki, segjum að það myndi kannski stoppa á einhverjum stað í lóninu, að þá hleypum við bara úr lóninu.“
Spurður hvort Landsvirkjun sé þá tilbúin að fara í dálítið miklar aðgerðir til að bjarga fiskinum ef áætlanir fyrirtækisins gangi ekki upp segir hann að það verði sett krafa á Landsvirkjun um að gera það.
„Við þurfum að vera með neyðaráætlun og hvað við gerum,“ segir hann. „En við erum fullviss um það að þetta muni virka.“
Landsvirkjun hefur reist alls níu stórar virkjanir í jökulám. Auk virkjananna á Þjórsársvæðinu eru Blönduvirkjun og Kárahnjúkavirkjun. Allar þessar virkjanir eru uppi á hálendi eða við hálendisbrúnina. En Hvammsvirkjun yrði í byggð.
Sigrún í Fossnesi segir að taka þurfi tillit til þess. „Fólk býr hérna á bæjum í kringum þetta lón og þessa á. Þetta er bara partur af lífi fólks, það er þessi á,“ segir hún.
Ofan á þetta bætist að sumum þykir að nærsamfélagið hafi haft helst til lítið upp úr uppbyggingu Landsvirkjunar síðustu áratugi. Fá störf séu til dæmis við virkjanirnar og megnið af raforkunni flutt í burtu.
Haraldur oddviti segir að ef farið sé af stað með svona stóra framkvæmd hljóti það að eiga að bæta nærumhverfi íbúanna.
„Það er ekkert í gögnunum sem raunverulega vegur upp á móti þessu mikla inngripi inn í samfélagið sem gerir það að verkum að, hvað eigum við að segja, skilyrði til búsetu batni,“ segir hann.
Hörður Arnarson segir, spurður hvers vegna Landsvirkjun vilji virkja einmitt á þessum stað, að ástæðan sé mjög einföld: „Það er því að Hvammsvirkjun er eini virkjunarkosturinn okkar í vatnsafli á Suðurlandi sem er í nýtingarflokki. Þetta er eina heimildin sem við höfum.“
Hann segir að ekki sé ákveðið hvert rafmagnið færi. Ekki liggi fyrir samningar, Landsvirkjun horfi fyrst og fremst á Hvammsvirkjun sem framkvæmd sem auki almennt framboð á raforkumarkaði.
„En við getum líka stutt við til dæmis matvælavinnslu á Suðurlandi sem að er mikill áhugi fyrir,“ segir Hörður. „Fiskeldi, gróðurhús, gagnaver.“
Haraldur oddviti telur að enginn deili um að það að afla meiri orku fyrir þjóðina í heild sinni sé gott. „Kannski stóri þátturinn sem snýr að þeirri gagnrýni sem ég er að tala um er bara þessi misskipting.“
Hörður segir að Hvammsvirkjun skapi ýmis tækifæri. „Það að það komi tengipunktur raforku þarna við virkjunina, það gerir sem sagt iðnaði miklu betur kleift að setja sig þarna niður,“ segir hann. „En það er hins vegar líka kannski fyrst og fremst undir heimamönnum komið hvernig atvinnulífið þróast á staðnum.“
Gunnar Örn Marteinsson býr í Steinsholti í Gnúpverjahreppi, um fjóra kílómetra frá Þjórsárbökkum. Hann situr í minnihluta í sveitarstjórn en var eitt sinn oddviti og sveitarstjóri.
„Í sjálfu sér er ég ekkert að fagna þessari virkjun,“ segir hann. „En mér finnst hún kannski svolítið eðlilegt framhald af þeirri vinnu sem hefur farið fram, bæði varðandi rammaáætlun og skipulagsmál og fleira.“
Kveikur gekk með Gunnari Erni að flúðunum þar sem rennsli á eftir að skerðast ef virkjað verður. Þær eru líka í uppáhaldi hjá honum.
„Það er alltaf verið að tala um áhrif lónsins upp frá,“ segir hann. „En frá mínum bæjardyrum séð er þetta miklu meiri svona, umhverfisáhrifin mun meiri hér.“
Hann segist ekki vita hvað dregur hann niður að flúðunum. „Sums staðar hrífstu af landinu og umhverfinu,“ segir hann. „Það er bara eitthvað hér sem að hrífur mig,“
En er hann samt tilbúinn að færa þessa fórn? „Ja, við skulum sjá til,“ segir hann. „Ég veit alveg hvað fylgir þessari virkjun, sko. Alla tíð gert mér grein fyrir því.“
Árið 2008 gerðu Landsvirkjun og sveitarstjórnin í Skeiða- og Gnúpverjahreppi rammasamkomulag um undirbúning, byggingu og rekstur Hvammsvirkjunar og tveggja annarra virkjana sem Landsvirkjun vill reisa í neðri hluta Þjórsár: Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar.
Í samkomulaginu var meðal annars kveðið á um þátttöku Landsvirkjunar í vegabótum í sveitarfélaginu, að Landsvirkjun myndi í 10 ár leigja hluta af félagsheimilinu Árnesi af hreppnum undir upplýsingamiðstöð, Landsvirkjun lofaði að koma að því að bæta netsamband í hreppnum og greiða útlagðan kostnað sveitarfélagsins vegna undirbúnings virkjana. Sumt hefur verið efnt, annað er ekki komið til framkvæmda ennþá.
Sigrún Bjarnadóttir segir að með samningnum hafi Landsvirkjun veirð „að biðja um goodwill“ í sveitarfélaginu. „Ég skal gera þetta fyrir þig ef þú gerir þetta fyrir mig.“
„Mér finnst það óeðlilegt,“ segir Sigrún. „Mér finnst það mjög óeðlilegt.“
Hörður Arnarson segir að eitt besta dæmið í samningnum sé ný brú yfir Þjórsá sem nýtist Landsvirkjun, bæði við rekstur og á framkvæmdatímanum, en myndi líka hafa mikil jákvæð áhrif á samfélagið.
„Vissulega fer Landsvirkjun kannski, gerir betri brú og betri veg heldur en við þyrftum annars,“ segir hann. „En þetta er svona, tel þetta samfélagslega ábyrgt af fyrirtækinu.“
Hörður segir að verið sé að leita leiða til að hafa þessi jákvæðu áhrif. „En ég tel þetta allt innan eðlilegra marka.“
Gunnar Örn skrifaði undir samkomulagið fyrir hönd hreppsins á sínum tíma. „Það hefur ekki áhrif á það hvort þú ákveður að einhver fái að virkja eða ekki,“ segir hann.
„Það er alls ekki þannig. En auðvitað bendir fólk kannski á þetta.“
Hann segir að samkomulagið hafi ekki áhrif á viðhorf sveitarstjórnarmanna til Landsvirkjunar og framkvæmdanna.
„Nei. Það hefur það ekki. Ekki á mig allavegana. Ég var reyndar bara einn af fimm þarna.“
Landsvirkjun samdi árið 2008 við foreldra Sigurðar í Haga um afnot af landinu.
Sigurður segir að í minningunni hafi aðalágreiningurinn verið um að fá veginn færðan niður að árbakkanum. „Það var svolítið baráttumál. Til þess að jörðin yrði byggileg með þann búrekstur sem hún er með í dag.“
Samningurinn er nú kominn til ára sinna en stendur enn, og af honum er ungi bóndinn bundinn. Hann hefur nú byggt nýtískufjós og vill stækka búið. En hann segir að óvissan um hvort Hvammsvirkjun verður reist eða ekki hamli því.
„Maður er orðinn svolítið óþreyjufullur að fá að vita hvernig þetta endar,“ segir Sigurður. „Í raun myndi maður bara vilja að, fyrst það á að fara að gera þetta, að þetta yrði þá bara klárað,“ segir hann.
„Þá væri maður kominn bara aftur með frjálsar hendur.“
Á meðan berst Anna Björk, dóttir Sigrúnar í Fossnesi, enn gegn virkjuninni.
„Þetta er svona við algjört ofurefli að etja,“ segir hún. „Maður svona er að reyna að gera allt sem maður getur.“
Náttúruverndarsinninn Sigþrúður segir að það fólk sem hafi reynt að spyrna við fótum sé búið að gera athugasemdir á öllum stigum frá upphafi, frá því umhverfismatið var gert 2003.
„Það hefur ekkert verið gert með þessar athugasemdir og maður upplifir sig að það sé verið að gera mann að fífli,“ segir hún.
Henni finnst ekkert hafa verið hlustað. „Nei, ekkert. Bara ekki neitt.“
Hörður forstjóri er ekki sammála því. Dæmi um athugasemdir sem Landsvirkjun hafi tekið tillit til séu gagnvart fiskinum. Seiðafleytu hafi til að mynda verið bætt inn í áætlanirnar. Ýmsar breytingar tengist líka rennsli árinnar, lágmarksrennsli og öðru. Búið sé að breyta ásýnd virkjunarinnar mikið svo hún falli betur að landslaginu og frárennslisskurðinum, þannig að hann valdi minna raski.
„Það breytir því ekki að virkjunin er stórt inngrip samt,“ segir hann. „Við komumst ekki hjá því.“
Haraldur oddviti kveðst ekki hafa upplifað að Landsvirkjun hafi þrýst mjög á að fá Hvammsvirkjun í gegn frá því hann kom að málinu. „Ég hef átt bara mjög gott samtal við Landsvirkjun,“ segir hann.
Landsvirkjun segist leggja áherslu á að eiga í góðum samskiptum við samfélagið, en Sigrún í Fossnesi segir að það sé „bara svo mikill munur á.“
„Þetta er svo mikið valdaójafnvægi,“ segir Anna Björk dóttir hennar.
„Já,“ segir Sigrún. „Þeir hafa allan herinn.“
Gnúpverjahreppur er lítið samfélag án stórs byggðarkjarna, í grunninn friðsæl sveit. Þar hefur maðurinn mótað umhverfið með túnum, vegum og raflínum. En nú gæti risið þar stór virkjun sem dregur fram ólíka hagsmuni, jafnvel ólíka lífssýn: hefðbundna náttúruvernd og svo framtíð þar sem orka — endurnýjanleg orka — er talin vera lykillinn — og einn þáttur í að vinna gegn loftslagsbreytingum.
„Þetta er búið að vera svo lengi liggjandi eins og mara hérna á samfélaginu,“ segir Anna Björk. „Þetta er bara eitthvert samkomulag um að þetta sé ekki rætt einhvern veginn hérna,“ segir hún. „Af því menn fara bara beint í stálin stinn.“
Haraldur oddviti segir að eina leiðin til að ná meiri sátt um þetta sé „bara að tryggja það að hér byggist upp öflug samfélög.“
Það sé annað hvort gert með því að tryggja að hlutfall af þeim verðmætum sem verði til skili sér í nærumhverfið, „eða einfaldlega að tryggja það að hluti orkunnar verði nýttur í nærumhverfinu.“
Sigþrúður náttúruverndarsinni segir að rödd náttúrunnar sé ekki nógu sterk. „Hver er málsvari náttúrunnar?“ spyr hún. „Hver er réttur þessarar ár til þess að renna áfram? Hver ver hann? Hver segir að það sé bara allt í lagi að taka þessa á úr farvegi sínum og fara með hana eitthvað annað?“
Hörður segir að samfélagið þurfi orkuna. „Þetta er svona áskorun sem öll samfélög standa fyrir, hvernig ætlarðu að fá þessa orku.“
Sigurður segist verða dapur vitandi að öll kennileitin, eyjarnar og flúðirnar, muni hverfa. „En maður er búinn að sætta sig við það.“
„Þetta er bara eitthvað sem koma skal,“ segir hann, „og hjálpar ekkert að berja hausnum við steininn, lengur.“
Sigþrúður segir að það þurfi að fara miklu varlegar í orkunýtingu en gert hafi verið. „Við erum búin að fórna mjög miklu nú þegar,“ segir hún. „Við verðum bara að fara að virða náttúruna miklu meira en við gerum.“
Gunnar Örn sveitarstjórnarmaður segir að auðvitað sé „söknuður af öllu svona landi eins og þessu.“
„Þetta er bara spurning um hvað menn geta sætt sig við,“ segir hann.
Hvaða rök hníga þá að því að leyfa virkjunina? „Eru það ekki þau rök að þjóðfélagið þurfi á þessari orku að halda?,“ segir Gunnar Örn.
„Verðum við ekki að láta telja okkur trú um það, og trúum því kannski, að það þurfi á því að halda,“ segir hann. „Og maður sé svona að hugsa um hvað sé þjóðfélaginu fyrir bestu.“